08.03.1948
Efri deild: 76. fundur, 67. löggjafarþing.
Sjá dálk 553 í C-deild Alþingistíðinda. (2756)

62. mál, menntaskólar

Brynjólfur Bjarnason:

Herra forseti. Ég ætla aðeins að gera stutta aths. út af ræðu hæstv. dómsmrh. Aths. mín er sú, að ég furða mig á því, að hæstv. ráðh. skuli fullyrða í áheyrn þm., að bæjarstjórn Rvíkur hafi veitt þessu máli fullan stuðning og veitt lóð undir menntaskólann, eftir að Laugarnes var úr sögunni. Þetta eru helber ósannindi. Það er dæmalaust af hæstv. ráðh. að standa hér frammi fyrir þm. og fara með slík ósannindi. Ég reyndi hvað eftir annað að fá bæjarstjórnina til þess að samþykkja stað undir menntaskólann, eftir að Laugarnes var úr sögunni, en það kom fyrir ekki. Eftir það reyndi ég að fá bæjarráð til þess að samþykkja ákveðinn stað í bænum. Golfskálahæðina, en það fékkst engin ákvörðun, hvorki já né nei. Það er ekki hægt að þrátta um þetta. Hæstv. ráðh. talaði um, að þm. ættu að kynna sér plögg, sem lægju fyrir um mál þetta. Já, hv. þm. ættu að kynna sér þessi plögg.

Svo sagðist hæstv. ráðh. furða sig á því, að ég skyldi ekki bera fram frv. um eignarnámsheimild hér í þinginu. Ég vildi nú ekki grípa til þess úrræðis fyrr en í síðustu lög, í þeirri von, að hægt væri að ná samkomulag í einhverri mynd. Fyrir mér vakti það eitt að fá lausn á málinu, og ég tel, að það hafi verið mjög vonlítið að fá eignarnámsheimild frá þinginu. Bæjarstjórn Rvíkur ber ein ábyrgð á því, hvernig komið er. En hvers vegna gat hæstv. ráðh., er hann var borgarstjóri ekki hindrað það illa verk?

Ég hef nú ekki lengri ræðutíma. Ég hef ekki fordæmt hugmyndir menntaskólakennaranna, og það var annað, sem hindraði málið. Þá var hugmyndin um tvo menntaskóla ekki til, og sú hugmynd var ekki framkvæmanleg eins og á stóð, er ég fór með menntamálin. Það er skjalsannað, að rök hæstv. dómsmrh. í þessu máli eru aðeins eitt hálmstrá, sem hann lafir í. Hæstv. ráðh. hefur haft hér í frammi frekleg ósannindi.