12.02.1948
Efri deild: 60. fundur, 67. löggjafarþing.
Sjá dálk 560 í C-deild Alþingistíðinda. (2772)

66. mál, landshöfn í Höfn í Hornafirði

Frsm. minni hl. (Steingrímur Aðalsteinsson):

Herra forseti. Ég þarf ekki að fara mörgum orðum um þetta mál, vegna þess að það er þm. kunnugt og vegna þess, að það hefur verið flutt tvisvar áður hér á þingi, en þó í öðru formi, í sambandi við aðrar framkvæmdir. Það liggja þegar fyrir upplýsingar um þetta mál, og ég geri ráð fyrir, að þm. sé það þegar orðið svo ljóst, að það muni ekki breyta mjög miklu, hvort sem það er rætt meira eða ekki.

Eins og frsm. meiri hl. n. hefur lýst, gerði sjútvn. till. um málið, og meiri hl. n. flutti frv. með það fyrir augum, að gengið yrði út frá því, að þær framkvæmdir, sem nauðsynlegt er að gera, verði gerðar á grundvelli hinna almennu hafnarl.

Minni hl. leggur til, að frv. verði samþ. og að hafnarmannvirki þarna verði reist af ríkinu sem landshöfn. Höfuðrök okkar í minni hl. fyrir þessu eru þau í fyrsta lagi, að þarna eru fyrir suðausturlandinu auðug fiskimið, sem ekki verða notuð eins og efni standa til vegna þess, að á því svæði, sem þessi fiskimið liggja, eru ekki nægileg hafnarskilyrði, því að bátarnir eru það stórir, sem nú stunda fiskveiðar, að þeir geta ekki hagnýtt sér fiskimiðin vegna þess. Það er víst, að undanfarið hefur verið allmikil sjósókn frá Höfn í Hornafirði, og bátar, einkum af Vesturlandi, hafa haft þar viðlegu á vertíð og fiskur þannig borizt þar að landi. Eins og kunnugt er, stækka fiskibátar nú ört, en það leiðir af sér, að þau hafnarmannvirki, sem fyrir eru og minni bátar geta notazt við, verða smátt og smátt ófullnægjandi, eftir því sem bátarnir stækka. Og það leiðir ekki eingöngu til þess, að þau útiloki vaxandi útgerð frá þessum stað, heldur verða minni bátar lagðir niður, og þá minnkar með hverju árinu sú útgerð, sem þarna verður. Virðist því vera ljóst, að mikil þörf sé á því frá þjóðfélagslegu sjónarmiði séð, að þarna verði gerð fullkomnari mannvirki en nú eru.

Hins vegar lítur minni hl. svo á, og sömuleiðis flm. þessa frv., að þetta fámenna hreppsfélag, sem þarna á hlut að máli, sé svo fátækt og hafi ekki fjárhagslegt bolmagn til að reisa þau hafnarmannvirki, sem nauðsynleg eru. Á þeim grundvelli er með þessu frv. leitað inn á þá leið, sem aðrar hafnir hafa ekki farið nema í einu tilfelli enn þá, og það er að byggja þarna landshöfn á kostnað ríkisins. Þessi hugmynd okkar minni hl. og flm. markast af því, eins og kemur fram, að hafnargerðin er ekki einkamál viðkomandi hreppsfélags. Því verði gerð þarna höfn, þá stunda ekki aðeins heimamenn útgerð þarna, heldur einnig útgerðarmenn víðs vegar af Austurlandi. Þess vegna er þetta hagsmunamál á breiðari grundvelli en viðkomandi hreppsfélags, og þess vegna er eðlilegt, að framkvæmdin sé byggð á þeim grundvelli. Nú hefur frsm. meiri hl. sjútvn. haldið því fram, að mér skilst, að aðalrök meiri hl. fyrir því að fallast ekki á þetta frv. séu þau, að þetta muni ekki flýta neitt fyrir framkvæmdum og hreppsfélagið eigi jafnauðvelt með að framkvæma þetta á grundvelli hinna almennu hafnarl., sem mundi taka skemmri tíma að koma því fram en ef um landshöfn vært að ræða. Í því sambandi var upplýst, að fyrir hendi væri fé af framlögum ríkisins, samtals 400 þús. kr., sem sé óeytt, og þess vegna standi ekki á framlögum ríkisins til þessara framkvæmda nú, heldur sé það bara fyrir hreppinn að útvega lán, sem ríkið ábyrgist samkvæmt hafnarl. Frsm. meiri hl. telur, að það mundi verða auðveldara fyrir hreppinn en ríkið að útvega lán til sinna eigin framkvæmda. Ég get ekki séð, að það mundi vera auðveldara fyrir hreppinn en ríkið. A. m. k. vil ég í því sambandi minna hv. frsm. meiri hl. á, að þau rök, sem hann heldur fram í sambandi við annað mál, sem hann hefur áhuga á og er til meðferðar á þinginu nú, þau eru gagnstæð við þetta.

Það er í sambandi við byggingu þurrkvíar við Elliðaárvog, sem gert er ráð fyrir, að ríki og bær standi fyrir. Nú hefur frsm. meiri hl. hér haldið því fram, að Rvík hefði ekki fé til að byggja þetta og því verði að leita til ríkisins. Þau rök hans í því máli stangast við það, sem hann flytur fram til að fella það frv., að byggð verði landshöfn í Hornafirði, heldur eigi hreppurinn að standa þar sjálfur að. Hins vegar sýnist mér líka, að í þeim upplýsingum, sem hann gaf áðan, væri áætlað, að um 400 þús. kr. væru ónotaðar. Það hefur staðið til að fá dýpkunarskip, sem nú er fyrir hendi. Það er einmitt auðveldara fyrir ríkið að bæta við það, sem til vantar til nauðsynlegra framkvæmda. Ég býst ekki sjálfur við, að það yrði gert á einu ári, þó að um landshöfn væri að ræða og býst við, að frsm. búist ekki við því heldur. Hins vegar mundi það vera erfitt fyrir hreppinn að leggja fram sín 60% af kostnaðinum, eins og þyrfti að gera samkvæmt hinum almennu hafnarl. Auk þess þarf hreppurinn að standa straum af öðrum framkvæmdum til þess að skapa önnur skilyrði til þess, að sjósókn geti blómgazt á þessum stað.

Eins og hv. frsm. meiri hl. gat um áðan, hefur vitamálastjóri fallizt á þær röksemdir, sem fluttar eru fyrir frv. um, að þarna verði gerð landshöfn. Hann telur nauðsynlegt og réttlátt, ef farið verður að breyta til um hafnarframkvæmdir, að Höfn í Hornafirði komi í fyrstu röð.

Það stendur hér í nál. meiri hl., að óeðlilegt sé að ákveða landshafnir af handahófi, eins og hér sé ætlazt til með frv. þessu, heldur eigi ríkisstj. að hafa um það frumkvæði, að lokinni nákvæmri athugun. Ég get ekki fallizt á það, þótt tekin sé ákvörðun um að byggja landshöfn þarna, að það hafi verið gert af handahófi. Það hafa farið fram ýtarlegar athuganir á þessu, og eins og ég hef lýst hér áður, er þetta flutt samkvæmt eindregnum ummælum trúnaðarmanns stj., þ. e. vitamálastjóra.

Ég held, að það sé í raun og veru ekki ástæða til að fjölyrða meira um þetta. En ég vil aðeins undirstrika það, sem ég hef áður sagt, að ef ekki verður horfið að því að byggja þarna hafnarmannvirki nú bráðlega, þá mun það leiða til þess. að þau fiskimið. sem þarna eru úti fyrir ströndinni, muni notast verr, í staðinn fyrir, að mikil þörf er á, að þau séu notuð betur en nú er gert. Ef þeir bátar, sem eru frá Austur- og Suðausturlandi og stundað hafa þarna fiskiróðra áður, verða að hverfa þaðan burtu og leita til annarra hafna, sérstaklega hér við Faxaflóa, sem leiðir til þess, að fiskimiðin verða þétt setin, sem þau eru nú, og einnig mun það þrengja aðstöðuna, sem fyrir hendi er hér í landi á verstöðvunum og torvelda það, að þjóðin í heild geti haft þau not af fiskimiðunum, sem þörf er á. Með því að byggja góða höfn á Austurlandi mundi rýmkast á hinum þéttsetnu fiskimiðum við Faxaflóa, sem leiddi til þess, að fiskimiðin við Austurland yrðu hagnýtt og með því aflað þjóðinni í heild meiri tekna en áður og um leið meiri gjaldeyris fyrir útfluttar vörur. Ég álít því, að það séu full rök fyrir því, að þetta frv. verði samþ., og leyfi mér að leggja til fyrir hönd minni hl. sjútvn., að það verði gert.