12.02.1948
Efri deild: 60. fundur, 67. löggjafarþing.
Sjá dálk 562 í C-deild Alþingistíðinda. (2773)

66. mál, landshöfn í Höfn í Hornafirði

Ásmundur Sigurðsson:

Herra forseti. Eins og frsm. minni hl. tók fram, er búið að ræða þetta mál mikið, og er það því kunnugt. Ég vil samt segja nokkur orð út af því, sem hv. frsm. meiri hl. sagði í ræðu sinni, að það mundi beinlínis tefja fyrir hafnarframkvæmdum, ef þarna yrði reist landshöfn. Þegar þetta mál var flutt hér 1946, var það afgr. í Nd. með rökst. dagskrá, sem beinlínis fól í sér áskorun til stj. um að láta framkvæma rannsókn á þessum stað til undirbúnings hafnargerðar, sem ríkið væntanlega tæki að sér að gera. Þessar rannsóknir voru framkvæmdar. Þegar sumarið eftir lét vitamálaskrifstofan framkvæma þær undirbúningsrannsóknir, sem þurfti til að hefja framkvæmdir þarna. Árangurinn af þessum rannsóknum og áætlunum um bygginguna er birtur hér með frv. Þar er gert ráð fyrir þrenns konar tilhögunum. Í fyrsta lagi tilhögun I. en þar er gert ráð fyrir fullkomnum mannvirkjum í fullkominni fiskihöfn, og er þar gert ráð fyrir, að hún kosti rúmar 4 millj. kr. Vitanlega verða aðrar áætlanir um framkvæmdir til stórbóta fyrir staðinn eins og er, en þær eru ekki nægilegar í framtíðinni. En það vill svo til, að þessar minni áætlanir geta verið liður í hinum stærri, þannig að þótt þær verði framkvæmdar fyrst, verður það verk ekki ónýtt.

Í sambandi við þær upplýsingar, að ekki standi á framlögum frá ríkissjóði, vil ég gefa þær upplýsingar, að það er rétt, að ríkissjóður hefur lagt dálítið fé til framkvæmda á þessum stað undanfarin ár á grundvelli hinna almennu hafnarl. Nú síðustu árin, þegar hafnarn. Hornafjarðar ætlaði sérstaklega að fara að byggja þarna mannvirki, eftir því sem möguleikar voru til, á grundvelli hinna almennu hafnari., þá kom það fyrir að landsbankastjórnin neitaði um lán til þessara framkvæmda. Á þessu sjáum við það, hvort það er nú virkilega á rökum byggð sú fullyrðing meiri hl., að peningastofnanir láni sveitarfélögum fremur en ríkinu til þessara framkvæmda. Það virðast því vera erfiðir möguleikar fyrir hafnarn. í Hornafirði að vinna hér að þessari framkvæmd, þar sem það liggur fyrir, að bankinn hefur neitað um lán til þess að hún gæti uppfyllt þau skilyrði, sem hún á að uppfylla samkvæmt almennu hafnarl. um að leggja fram á móti ríkissjóði. En það fór svo, að Landsbankinn neitaði að lána fé til hreppsins. Þetta eru ástæðurnar fyrir því, að ekki var hægt að notfæra sér framlag ríkissjóðs á síðasta ári. og enn fremur var það vegna þess, að dýpkunarskip, sem lofað hafði verið, kom ekki. Vegna þess, að lánsfé fékkst ekki, var ekki hægt að greiða bryggjuefni, sem hreppurinn átti kost á að fá. Það var þetta, sem ég vildi upplýsa í þessu sambandi. Meginatriðið í þessu máli er það, hvort ríkið eigi að skapa útgerðinni á Austur- og Suðausturlandi þau skilyrði, sem hún þarf. Mþn., sem athugaði þessi mál og gerði till. um þá staði, þar sem ríkið ætti að reisa landshafnir, nefndi Hornafjörð sem einn af þeim stöðum, þar sem fyrst skyldi reisa slíka höfn. Þótt hún að vísu teldi Keflavík og Njarðvíkur fyrst, lagði hún til að Hornafjörður yrði síðar tekinn upp samkvæmt þeirri stefnu, að ríkið tæki að sér að byggja hafnir á æskilegustu stöðum. Hv. frsm. meiri hl. taldi, að ekki væru meiri líkur til, að fé fengist, þótt landshöfn yrði byggð í Hornafirði, og segir svo síðast í nál. meiri hl., með leyfi hæstv. forseta:

„Lánsmöguleikar hafnarsjóðs með fullri ábyrgð ríkissjóðs eru engu minni en lánsmöguleikar ríkissjóðsins sjálfs, og ríkissjóður mundi tæplega ætla meira fé til framkvæmda hafnarmannvirkja á Hornafirði fyrst um sinn, þótt frv. yrði að l., en sem svaraði árlegum styrk skv. fyrirmælum gildandi hafnarlaga. Er þetta og skoðun samgöngumálaráðherra á málinu.“

Það, sem hér er aðalröksemdin, er því það, að ekki séu meiri möguleikar fyrir ríkisstj. en hreppinn í Hornafirði til þess að koma upp hafnarmannvirkjum. Mér þykir þetta æði merkileg yfirlýsing frá stuðningsmönnum hæstv. ríkisstj., að ríkið geti ekki meir en lítill hreppur úti á landi, og skil ég ekki, hvernig sú ríkisstjórn — því að þetta virðist vera álit hæstv. samgmrh. — ætlar sér eiginlega að stjórna landinu. — Afstaða hæstv. samgmrh. mótast fyrst og fremst af því, að hann er alveg á móti því, að ríkið taki þetta að sér. Hann hefur alltaf verið á móti þessu máli og sýnist hafa sömu afstöðu enn.

Frsm. minni hl. lagði áherzlu á það, að ekki væru tryggðar framkvæmdir með löggjöfinni einni saman, og er það rétt, ef ríkisstj. vill ekki framkvæma gildandi l. Það var fyrir skömmu rætt í Sþ. um önnur lög, sem ríkisstj. hafði ekki framkvæmt, og mun hv. frsm. minni hl. hafa átt einhvern þátt í þeim umr. Þá var því borið við af hálfu ríkisstj., að ekki fengist lánsfé. En það stafar af því, hvað mikið hefur verið dregið úr peningaumferðinni í landinu, en það er þáttur í þeim aðgerðum ríkisstj., sem ég fer ekki nánar inn á.

Þá var hv. frsm. minni hl. að tala um, að þegar ákveðnar væru svona framkvæmdir á einhverjum stað, þá hækkaði land mjög í verði, og gæti það valdið ríkissjóði erfiðleikum, þar sem landið væri leigt einstaklingum. Engin vandræði mundu verða af því í Hornafirði, því að bæði á höfnin nokkurt land og það, sem fyrst og fremst þarf að gera, eru dýpkunarframkvæmdir og bryggjubygging, og til þess þarf ekki mikið landrými. Ég þori því að fullyrða, að þetta mundi aldrei standa í vegi.