13.02.1948
Efri deild: 61. fundur, 67. löggjafarþing.
Sjá dálk 569 í C-deild Alþingistíðinda. (2779)

66. mál, landshöfn í Höfn í Hornafirði

Frsm. minni hl. (Steingrímur Aðalsteinsson):

Herra forseti. Ég þarf nú í raun og veru litlu sem engu að svara því, sem hv. frsm. meiri hl. sjútvn. beindi að mér í ræðu sinni í gær. En það er eitt atriði, sem hann lagði nokkuð mikla áherzlu á og ég tel nokkru máli skipta og því rétt að ræða nokkru nánar. En það er, að hann hélt því fram, að með því að samþykkja það frv., sem hér liggur fyrir og ákveða þar með að reisa landshöfn í Höfn í Hornafirði, þá væri verið að hverfa frá reglu, sem felst í hinum almennu hafnarl. Og hann færði fram þessu til stuðnings ummæli úr umsögn Fiskifélagsins, sem að þessu hnigu. Og sömuleiðis vildi þessi hv. þm. halda fram, að það dragi úr meðmælum vitamálastjóra með þessu frv., að það komi fram, að hann væri ekki ákveðinn í því, hvort hann vildi fylgja þessari stefnu um landshafnir eða fylgja reglunni, sem er í hinum almennu hafnarl. Ég held, að það sé misskilningur hjá þeim, sem halda fram, að með þessu, að leggja til að byggja landshafnir, sé á nokkurn hátt verið að hverfa frá reglunni, sem felst í hinum almennu hafnarl., heldur er hér verið að gera það, sem oft hefur verið rætt um áður, — m. a. hefur komið fram sú skoðun hjá mþn. í sjávarútvegsmálum, sem áður hefur verið til umr. hér á Alþ. og gerðar hafa verið samþykktir um. — að á þeim stöðum, þar sem sérstaklega hagar til um, að hafnir hafir þýðingu ekki sérstaklega fyrst og fremst fyrir íbúana á viðkomandi stað, heldur engu síður og jafnvel kannske meir fyrir aðra staði á landinu, — og gildir þetta þá um viðleguhafnir fyrir báta víðs vegar að af landinu, — sú skoðun hefur oft komið fram, að ástæða sé til þess, að ríkið kosti hafnar gerðir á þessum stöðum vegna þeirrar almennu þýðingar, sem þessir staðir hafa og ekki er sérstaklega bundin við hagsmuni þessara staða sjálfra. Er þetta vegna þess, að í ýmsum tilfellum hagar svo til, að ýmsir þessir staðir eru ekki svo fjölmennir og efnum búnir, að þeir geti reist af eigin rammleik þær hafnir, þótt eftir hafnarl. sé sem nauðsyn er á til þess að notazt geti þau fiskimið, sem að liggja, bæði fyrir menn á staðnum og á öðrum stöðum á landinu víðs vegar. Það er því ljóst, að þessar tvær leiðir stangast ekki, heldur eiga þær að styðja hvor aðra og ef svo má að orði komast uppfylla hvor aðra. Og það kemur að mínu áliti mjög glöggt fram í erindi vitamálastjóra, sem birt er hér með áliti meiri hl. sjútvn., að hann gerir upp á milli þessara leiða og telur þær báðar jafnréttmætar, eftir ástæðum á hverjum stað. Það stendur orðrétt í bréfinu frá vitamálastjóra, sem birt er hér með áliti meiri hl. sjútvn., með leyfi hæstv. forseta:

„Þar, sem svo hagar til, að nauðsyn er á höfn vegna þjóðarbúskaparins, en hreppsfélögin eru svo fátæk, að þau hafa ekki getu til þessara framkvæmda, þá álít ég það fjárhagslega réttmætt, að ríkið byggi höfn og iðjuver.“ Og svo heldur hann áfram: „Það hvort hafnir eigi almennt að vera ríkisfyrirtæki, er annað mál.“ Vitamálastjóri hefur gert það ákveðið upp við sig — og virðist ekki vera neinn vafi um það —, að á vissum stöðum sé réttmætt og sjálfsagt, að ríkið byggi almennar hafnir, þ. e. a. s. landshafnir, en hins vegar komi það alls ekki í bága við almennu regluna, sem felst í hafnarl., og henni eigi auðvitað að fylgja almennt, en landshafnir eigi að vera aðeins þar, sem svo hagar til, eins og hann minnist á þarna, að möguleikar eru miklir um öflun fisks, en þar skortir á, að hægt sé af þeim, sem þar búa, og byggja höfn, svo að þessi fiskimið nýtist. Ég held því, að það sé alger misskilningur, að með því að samþykkja þetta frv. sé nokkuð verið að falla frá þeirri almennu reglu, sem fylgt er í almennu hafnarl., heldur sé aðeins með þessu verið að gera ráðstafanir til þess, að ríkið komi til aðstoðar á stað, þar sem svo hagar til, að viðkomandi hreppsfélag hefur ekki bolmagn til þess að reisa nauðsynleg hafnarmannvirki. Enda hefur, eins og öllum hv. þm. er kunnugt, verið gengið inn á þessa braut, sem gert var með því að samþykkja l. um landshöfn í Njarðvíkum, sem byrjað er á að byggja, þó að það gangi miklu hægar en æskilegt væri. Ég man ekki eftir, að í sambandi við þau ákvæði, sem um það voru samþ., kæmu neinar röksemdir fram um það, að með því væri verið að hverfa frá reglunni í ákvæðum almennu hafnarl., enda voru almennu hafnarl, rétt um það leyti. Þessar röksemdir hygg ég því ekki frekar frambærilegar nú í sambandi við þetta mál, sem fyrir liggur, heldur en þá var og að mínu áliti eru þetta heldur engar röksemdir. Þetta eru aðeins tvær leiðir, sem farnar eru í hafnarmálunum eftir skilyrðunum, sem fyrir hendi eru á hverjum stað, þar sem hafnarmannvirki þarf að reisa. Og þó að það kunni að vera fleiri staðir en Njarðvíkurnar og Höfn í Hornafirði. — og kröfur eru þegar komnar um fleiri staði. — sem fengju landshafnir, þá hygg ég, að það verði ekki almennt komið upp hafnargerðum eftir þeirri leið. Það hafa komið fram kröfur um landshafnir á fleiri stöðum, svo sem í Rifi á Snæfellsnesi, þar sem er fátækt og fámennt hreppsfélag, sem það hafnarstæði er í. Og sama er að segja um Þórshöfn í sambandi við frv. það, sem afgr. var frá þessari hv. þd. í gær. E. t. v. eru fleiri staðir, sem slíkar kröfur mundu vilja gera. En ég hygg, að þessir staðir, sem ég hef talið, séu þeir helstu, sem koma til greina í þessu sambandi. Og þó að byggðar væru landshafnir á nokkrum stöðum í landinu, væri samt ekki horfið með því frá reglunni, sem gildir eftir almennu hafnarl.

Það var aðeins þetta, sem ég vildi mótmæla í ræðu hv. frsm. meiri hl. sjútvn., því að það skiptir nokkru, hvaða skilningur er í þetta lagður. Önnur atriði, sem fram komu, tel ég ekki skipta neinu máli né að hafi nokkur áhrif á afgreiðslu málsins. Mun ég því ekki fara að karpa neitt um þau.