13.02.1948
Efri deild: 61. fundur, 67. löggjafarþing.
Sjá dálk 571 í C-deild Alþingistíðinda. (2780)

66. mál, landshöfn í Höfn í Hornafirði

Hannibal Valdimarsson:

Herra forseti. Ég hlýddi á umr. um þetta mál hér í gær og mér fannst hv. þm. Barð. vera nokkuð þungorður í garð Austfirðinga að tilefnislitlu í sambandi við þetta mál. Mér heyrðist á honum að hann teldi það hreinan aumingjaskap af þessu sveitarfélagi og Austfirðingum í heild, ef þeir ekki megnuðu að hrinda því mannvirki, sem hér um ræðir í þessu frv., í framkvæmd eftir reglum hinna almennu hafnarl., án þess að það kæmi undir þau ákvæði, sem gilda eiga um landshafnir. Ég þori að fullyrða, að ef einhver hv. Austfirðingaþm. hefði haft eins stór orð í garð Vestfirðinga í sambandi við eitthvert undirstöðumál undir atvinnulífi þeirra, þá hefði hv. þm. Barð. hlaupið kapp í kinn vegna Vestfirðinga, og þá sérstaklega, ef orðin hefðu verið látin snerta hans elskulegu Barðstrendinga. Ég lít svo á, að fólkið í þessum landshlutum, á Austfjörðum og á Vestfjörðum, sé nokkuð svipaðrar tegundar, harðgert fólk og duglegt, og því sé ástæðulaust að láta orð falla í þá átt, að þar sé um nokkra vesalinga að ræða, sem allt vilji láta rétta upp í hendur sér, en vilji ekki fórna sjálft til þess að tryggja afkomu sína. Slíkt hygg ég óverðugt að segja bæði gagnvart Austfirðingum og Vestfirðingum. Og ég veit fyrir víst, að þó að allmikið fé hafi runnið til Barðastrandarsýslu úr ríkissjóði vegna dugnaðar hv. þm. Barð. og fyrir góða aðstöðu hans í fjvn., þá er það ekki ástæða til þess, að stimpla beri Barðstrendinga sem aumingja fyrir og segja þess vegna, að þeir hafi verið svo aumir, að þeir þyrftu frekar en aðrir hjálpar við, eins og hv. þm. Barð. vildi gagnvart Austfirðingum tala hér í gær.

Mér skilst, að hér sé um að ræða að koma upp í Höfn í Hornafirði mannvirki, sem áætlað er, að kosti á fimmtu millj. kr., og héraðið, sem þarna á hlut að máli, er hreppsfélag með um 300 íbúum. Þetta hreppsfélag hefur án efa í mörg horn að líta. Það þarf að koma upp dýrum mannvirkjum eins og vatnsveitu og rafveitu og vafalaust mörgu fleiru, og sér sér því ekki fært að koma upp nauðsynlegum hafnarmannvirkjum, sem er þó aðalundirstaða undir aðalatvinnu hreppsbúa, og þetta hreppsfélag fer þess vegna fram á, að ríkið láti þennan stað njóta þeirra hlunninda, sem felast í l. um landshafnir. Þeir benda á það, fylgjendur þessa frv., að þarna standi þannig á, að hafnarmannvirki, sem reist yrðu á þeim stað, kæmu ekki sérstaklega til nota fyrir íbúa þessa hreppsfélags eins, heldur mundi fiskveiðafloti Austfjarða nálega allur sækja til Hornafjarðar og stunda þaðan atvinnu sína. Mér skildist á hv. þm. Barð., að sökum þessarar aðstöðu lægi beint við, að Austfirðingar allir tækju að sér að koma upp þessum mannvirkjum í Höfn í Hornafirði. Ég skil ekki, hvernig hv. þm. Barð. hugsar sér þessi sameiginlegu átök á Austfjörðum, að koma þessu upp. Ég held, að Seyðisfjörður hafi nóg með sín hafnarmannvirki, og ég held, að sama megi segja um Neskaupstað, Fáskrúðsfjörð, Djúpavog o. s. frv. Ég held, að hafnarsjóðir þessara staða hafi eigi meiri tekjur en svo, að þeir eigi fullt í fangi með að sjá fyrir sínum eigin málum. Það, sem þm. Barð. gæti þá helzt hafa átt við í sambandi við þetta, væri það, að hann telji að Austfirðingar ættu allir að leggja á sig byrðar til þess að útvega lánsfé til þess að byggja þessi mannvirki í Höfn í Hornafirði, því að þeir ættu hagsmuna að gæta í sambandi við það, að þetta mannvirki yrði til. En þá efast ég um, að þetta mannvirki kæmist upp, þó að allir Austfirðingar yrðu samtaka um að útvega fé til fyrirtækisins gegn ríkisábyrgð. Mér finnst það liggja nokkurn veginn í augum uppi að hafnarmannvirki, sem byggja þarf í sveitarfélagi með 300 íbúum, verði varla reist, nema ríkið veiti til þess þá fyrstu aðstoð, sem það annars veitir við byggingu slíkra mannvirkja. Og þegar á það er litið, að þarna hefur heill landsfjórðungur hagsmuna að gæta vegna hinna auðugu fiskimiða, því að viðlegubátar mundu mjög stunda róðra þaðan, þá finnst mér, að ef það á nokkurs staðar við, að landshafnir séu byggðar fyrir ríkisfé, þá eigi það þarna við.

Hv. þm. Barð. taldi, að ekki væri hægt að tala um neina eindregna afstöðu vitamálastjóra til þessa máls. Ég held, að þetta sé rangt, því að það er varla hægt að úttala sig ákveðnar og eindregnar jákvætt með málinu en vitamálastjóri gerir í þessari umsögn sinni á þskj. 324. — Þar segir: „Því, í hvaða röð ég telji, að landshafnir eigi að koma, vil ég því til svara, að ég set númer eitt Höfn í Hornafirði, annaðhvort sem landshöfn eða þá að séð verði um með öðrum hætti, að fiskútflutningshöfn geti vaxið þar fljótlega upp. Næsta stað tel ég Rif á Snæfellsnesi.“ Hann raðar þessu upp, svo að ekki er um að villast. Fyrst er Höfn í Hornafirði og svo Rif á Snæfellsnesi. — Við þessa umsögn sína bætir vitamálastjóri því til skýringar hvernig undirbúningur þessa máls stendur: „Fyrir báða þessa staði, Höfn og Rif, liggja fyrir uppdrættir og kostnaðaráætlun, og á hvorugum staðnum þarf að binda mjög mikið fé fyrst í stað.“ Ég sé ekki annað en hann mæli eindregið með því, að höfnin verði landshöfn, og telur hann staðinn númer eitt á framkvæmdaskrá um slík mannvirki.

Ég hjó líka eftir því, að hv. þm. Barð. taldi, að hæstv. samgmrh. mundi vera andvígur málinu. Ég held þó, að andstaða hæstv. ráðh., ef hún annars er til, sé eingöngu við það bundin, að hann telji mikla erfiðleika á því að afla fjár til þessara mannvirkja nú samtímis því, að verið sé að framkvæma hin væntanlegu miklu mannvirki í sambandi við landshöfn í Njarðvíkum. En ég tel mig mega fullyrða, að málefnislega sé hæstv. samgmrh. síður en svo andvígur því, að reist verði landshöfn í Hornafirði.

Ég tók afstöðu með þessu máli, þegar það var til umr. og afgreiðslu á síðasta þingi. Og ég hef ekki fundið neina ástæðu til að breyta þeirri afstöðu minni nú, því að mér finnst allt mæla með málinu. Það væru kannske helzt fjárhagsörðugleikar, sem gætu torveldað framkvæmd þess. Ég fylgi því þessu máli eindregið og tel, að til þess standi öll rök.