26.02.1948
Efri deild: 69. fundur, 67. löggjafarþing.
Sjá dálk 577 í C-deild Alþingistíðinda. (2796)

66. mál, landshöfn í Höfn í Hornafirði

Eiríkur Einarsson:

Herra forseti. Það var ekki ætlunin, að ég léti mig nokkru skipta afgreiðslu þessa máls, en það, sem veldur því, að ég kveð mér nú hljóðs, er afstaða mín til þessara mála yfirleitt. Þegar ég greiddi atkv. með þessu frv. við 2. umr., vakti það fyrir mér, sem frá upphafi hefur verið kjarni málsins í stofnun landshafna, en það var sú heilbrigða hugsun forustumanna málsins, að á vissum stöðum yrði það opinbera að hafa forustu um hafnargerðir. Í hinum stærri kaupstöðum, eina og t. d. Rvík. gerist þess ekki þörf, því að hér hefur bæjarfélagið haft aðstöðu til að gera höfn án opinberrar aðstoðar. Þetta gegnir öðru máli úti um hinar dreifðu byggðir. Þar er aðstaðan öll erfiðari og ekki nema eðlilegt, að lítið hreppsfélag skorti bolmagn til að binda slíka bagga, þó að slíkar hafnir séu fullkomlega nauðsynlegar og jafnvel undirstaða undir afkomunni í heilum landsfjórðungum. Til þess að lyfta undir með þeim, sem slíka aðstöðu hafa, taldi ég og tel réttmætt og nauðsynlegt, að byggðar verði landshafnir, og á þetta sjónarmið hefur Alþ. líka fallizt með þeim árangri, að nú er hafin ein slík hafnargerð á vegum þess opinbera. En svo man ég ekki betur en Höfn í Hornafirði væri einn meðal þeirra staða, sem gert var ráð fyrir að byggja landshöfn á en það virðist vera í þessu máli eins og svo mörgum öðrum, að það er heiðara í lofti þegar gott mál er að brjótast fram en þegar á að fara að framkvæma það í einstökum atriðum.

Að lokum vil ég svo drepa á að það voru fleiri staðir nefndir í sambandi við landshöfn en Njarðvíkur og Höfn í Hornafirði. Þar á meðal var Þorlákshöfn. Þar hefur nú verið hafizt handa, og eru sýslufélögin við það bendluð, þó að það sé miklum vafa bundið, hvort hinar dreifðu byggðir hafa bolmagn til þess að fullgera slíkt stórvirki, sem þó er mjög aðkallandi við hina löngu og hættulegu strandlengju Suðurlands. Það má því gera ráð fyrir, að hin sterka hönd ríkisins þurfi að grípa þarna inn í, eins og þegar hefur verið gert í Njarðvíkum. Vegna þessa staðar og fleiri, sem svipað er ástatt um, tel ég þörf á heildarskipulagi í þessum hafnarmálum, og þætti mér það illa farið, ef togstreita og úlfúð eyðilegði eða spillti framgangi þeirra hugsjóna, sem á bak við frv. um landshafnir búa. Þar sem ég tel, að þetta frv. sé einn liðurinn í framkvæmd þessara mála, greiði ég atkv. með frv., en ekki vegna þess, að ég telji það neitt lokamark.