26.02.1948
Efri deild: 69. fundur, 67. löggjafarþing.
Sjá dálk 579 í C-deild Alþingistíðinda. (2798)

66. mál, landshöfn í Höfn í Hornafirði

Ásmundur Sigurðsson:

Herra forseti. Mér kom það ekki óvart, þó að eitthvað komi frá hv. form. sjútvn. í þeim tilgangi að tefja þetta mál, enda hefur ekki staðið á því. En það, sem ég vil leggja áherzlu á, er það, að það hafa engin andmæli komið enn hér í d. varðandi nauðsyn þess að byggja höfn í Hornafirði og það viðurkenna allir, að þessi staður sé mjög heppilegur sem miðstöð fyrir bátaútveg Austurlands. En eins og kunnugt er, eru hafnarmannvirki svo léleg nú þar eystra, að það er ekki nema um tvennt að ræða, annaðhvort að leggja niður staðinn sem útvegsstöð eða gera þarna góða höfn. Nú hefur ekki þótt fært að leggja staðinn niður, en þá er deilt um það, hvort ríkið eða hreppurinn eigi að framkvæma verkið. .... Og þess vegna get ég ekki séð, að ástæða sé til þess að samþykkja þá breyt.

Ég vil enn fremur benda á, að það er hægt að vinna þetta verk í áföngum þannig, að það, sem gert er, komi að gagni og bæti aðstöðuna þegar í stað. Það hygg ég, að sé meira en hægt er að segja um slíka staði annars staðar á landinu í þessum efnum.

Hins vegar er það að segja um þá till. að fresta framkvæmdum, þangað til búið sé að tryggja alveg fé til þeirra, að ég hygg, að það sé mjög óvenjulegt í l. Það er venjulegt að hafa það þannig, að l. skuli koma til framkvæmda fyrir einhvern ákveðinn tíma, en það er ekki algengt, að ákveðið sé að fresta framkvæmd þeirra, þangað til búið sé að afla nægilegs fjár, nema ef slíkt er bundið við ákvæði fjárl. Ef þessi brtt. verður samþ., er ég hræddur um, að opnuð verði leið til þess, að þetta dragist um ófyrirsjáanlegan tíma. Þess vegna mæli ég eindregið móti þessari brtt.

Hæstv. ráðh. (JJós) vildi leyfa sér að draga í efa, að við, sem flytjum þetta mál, flyttum það af heilum hug, ef við vildum ekki einmitt ganga inn á þetta, að framkvæmdunum sé frestað alveg um óákveðinn tíma. Skyldu það verða margir þm., sem flytja, mál, sem þeir hafa verulegan áhuga fyrir, sem vildu fallast á það að setja 1 slíkt frv., eða l., ef frv. yrði samþ., ákvæði sem gætu orðið til þess að fresta framkvæmdum þeirra l. um alveg óákveðinn, tíma eða að þær yrðu svo að segja engar. Ég hygg, að það yrðu ekki margir. Og ef allir hv. þm., sem mótmæltu slíkri afgreiðslu, yrðu sakaðir um að bera mál sín eingöngu fram til þess að sýnast, þá gætu þeir kannske orðið nokkuð margir. Ég vil þess vegna vísa alveg á bug þeirri ásökun.

Hv. frsm. meiri hl. sjútvn. hélt því fram, að ef frv. yrði samþ. í því formi, sem það er, gæti það orðið til þess, að framkvæmdirnar stöðvuðust algerlega. Ég tel, að svo þyrfti alls ekki að vera. Ég hef bent á, að framkvæmdirnar eru þegar byrjaðar og það er dálítið fé fyrir hendi, þó að það sé ekki mikið, en það mundi mega vinna fyrir það til að byrja með. Ég sé ekki, hvaða ástæða er til þess að telja, að framkvæmdirnar þurfi að stöðva, þó að þetta frv. yrði samþ., heldur þvert á móti. Þetta mundi fara eins og hv. 6. landsk. (StgrA) benti á, að ef ríkissjóður sjálfur tæki þetta allt að sér, yrði höfnin yfirtekin með þeim mannvirkjum, sem búið er þegar að gera, og þeim skyldum, sem á hvíla.