01.03.1948
Efri deild: 71. fundur, 67. löggjafarþing.
Sjá dálk 588 í C-deild Alþingistíðinda. (2814)

73. mál, bindindisstarfsemi

Hannibal Valdimarsson:

Herra forseti. Síðan ég kom hér á Alþ., hef ég þótzt verða þess var, að þau mál, sem flutt eru varðandi bindindisstarfsemina í landinu, eru flutt af óheilindum gagnvart þeirri stefnu að draga úr neyzlu áfengis. Það hefur komið hér fram till. í frumvarpsformi frá hæstv. dómsmrh. um það, að varið sé fé til bindindisstarfsemi, og skyldi upphæð þess fara eftir því, hvernig ríkinu gengi að selja þjóðinni brennivín og aðra áfenga drykki. Þetta fé, sem varið skyldi til bindindisstarfsemi, skyldi vera viss hundraðshluti af þessum tekjustofni ríkissjóðs. Með öðrum orðum, að það, hve bindindismenn fá mikið fé til þess að berjast móti böli áfengis, ætti að fara eftir því, hversu sú starfsemi gengi fyrir ríkið að sá til þess, sem stúkan svo á að uppræta með þessu fé. Ég get því varla séð, að þetta frv. sé af heilindum fram borið, þegar ég sé það. En ég þóttist sjá, að hyggindalega væri breitt yfir hinn sanna tilgang frv., að reyna að fá bindindismenn í landinu til þess að sætta sig við ofdrykkju áfengis, af því að þeir ættu þar undir sína tekjumöguleika. Ég verð að játa, að yfirbreiðslan var nokkuð vel framkvæmd í frv. hæstv. ráðh., þar sem gert er ráð fyrir, að bindindismenn ættu að fá hækkaðan hundraðshluta af tekjum af áfengissölu eftir því, sem minna seldist af áfengum drykkjum. En þegar málið er komið til hv. n., er grímunni kastað. Þá eru tekjur bindindismanna af sölu áfengra drykkja látnar vaxa að hundraðshluta eftir því, sem ágóði ríkisins af áfengissölunni eykst. Af fyrstu 40 millj. kr. ágóðanum eiga bindindismenn að fá 3/4%, en seljist betur, fer hlutur þeirra vaxandi, eða sem nemur 1% af þeim hreina hagnaði, sem er yfir 40 millj. kr. á ári. Er þá ekki jafnframt verið að vona með þessum till., að áhugi bindindismanna verði minni fyrir því að draga úr neyzlu áfengis, og þeir fari að hugsa meir um sínar auknu tekjur?

Hér er blaðið Einingin. Á forsíðu þess er mynd af veglegri vonarhöll bindindismanna í Rvík og kannske víðar. Það kom hingað til mín fyrir nokkrum dögum góður bindindismaður utan af landi og sagði við mig: „Hve lengi skyldum við þurfa að bíða eftir, að þessi vonarhöll okkar bindindismanna verði að veruleika?“ Eftir því, sem hér liggur fyrir, á hún að verða reist því fyrr, sem meira af áfengi er hægt að koma niður í þjóðina.

Ég skal svo ekki fjölyrða um þetta mál. Ég hef mesta viðbjóð á því eins og það er flutt hér. Ég er alveg hissa á því, að nokkur hv. þm. skuli telja sér það sæmandi að gera þannig gabb að bindindisstarfseminni í landinu og koma með aðra eins till. og þetta. Og hæstv. dómsmrh. hefur einnig fengið ógeð á þessu, og þess vegna mælist hann til þess, að þessar brtt. verði teknar aftur og ekki hleypt í gegnum þingið.