04.03.1948
Efri deild: 74. fundur, 67. löggjafarþing.
Sjá dálk 592 í C-deild Alþingistíðinda. (2822)

73. mál, bindindisstarfsemi

Gísli Jónsson:

Herra forseti. Það verður ekki um það deilt, að þetta er eitt mesta vandamál þjóðarinnar. Ríkið rekur stór viðskipti, sem færa ríkissjóði tugi milljóna kr. á ári, en áhrif þess eru þau að gera fleiri eða færri menn að vesalingum. Það er staðreynd, sem ekki verður á móti mælt, að hér í bæ eru um 30 vesalingar, sem venjulega eru fastagestir í kjallaranum á hverri nóttu. Við, sem höfum haft tækifæri til að kynnast þessum málum nú í haust, erum sammála um, að svo geti ekki gengið lengur og að bæta verði úr þessu böli. Ég tel því ekki, að bætt sé svo skjótt úr þessu máli sem þarf. Þótt 200–300 þús. kr. sé varið árlega til bindindishallar, bjargar það ekki þessum vesalingum. Ég er því efnislega á móti málinu eins og það er hér, að veita sérstaka upphæð til bindindishallar, hvort sem góðtemplarar. Stórstúkan eða aðrir aðilar stjórna henni. Ég tel ekki, að þetta bæti svo skjótt sem þarf. Ég er hins vegar með, ákveðinni fjárhæð til að hefja jákvæðar aðgerðir til bjargar þessum vesalingum, sem hér er um að ræða og hver um sig hefur kröfu á ríkisstj., þar eð þeir hafa hnotið um þann þröskuld, sem hún hefur lagt. Ég hef rætt um þetta mál við þá Helga Tómasson og landlækni, sem báðir sitja í mþn. um þetta mál. Þeirra skoðun er sú, að greina þurfi þessa menn í tvo flokka. Í öðrum flokknum eru þeir, sem ekki verður bjargað nema með hælisvist. Í hinum flokknum eru menn, sem þyrftu að dvelja á sérstökum sjúkrahúsum, sem mundu leitast við að hjálpa þeim. Vísindin eru nú komin það langt áleiðis, að nú er farið að bjarga þessum mönnum með sérstökum innsprautum. Mér er ekki kunnugt um, hvaða efni eru notuð, en hitt er staðreynd, að þetta hefur verið reynt og gefizt vel. En það versta er, hvílíka erfiðleika þessir menn eiga við að stríða er þeir koma aftur út af hælunum. Félagar þeirra, sem dýpst eru fallnir, reyna að ná þeim aftur í sinn flokk, og það eru kannske langmestu erfiðleikarnir í þessu efni. Og það er kannske langmesta ástæðan til þess að taka þá úr umferð og einangra þá, svo að þeir geti ekki náð til fólksins.

Ég mun því ekki treysta mér til þess að greiða atkv. með þessu frv. eins og það er á þskj. 90. og því síður mun ég treysta mér til þess að greiða atkv. með brtt. n., þar sem einmitt er gert ráð fyrir því, eins og hv. 3. landsk. (HV) tók fram, — þó að ég hefði kosið, að hann hefði haft um það önnur orð og haldið sig í umr. betur við sjálft málið, — að því meira sem drukkið er af áfengi, því meira fé á að renna til bindindisstarfseminnar, og er það varla viðkunnanlegt og kannske nokkur freisting fyrir viðkomandi aðila að loka augunum fyrir hættunni, sem af áfengisneyzlunni getur stafað.

Verði brtt. samþ. við 2. umr., mun ég koma með brtt. við 3. umr. um það, að veitt verði til áfengisvarna ákveðin upphæð á ári. Svo má deila um það síðar, hvaða aðilar hafi yfirumsjón með því fé og stjórni þeim málum. Það er ef til vill líka nauðsynlegt að ákveða það í l. t. d., hvort það heyri undir heilbrmrh. eða undir sérstaka stofnun eins og Stórstúku Íslands, og væri ég fyrir mitt leyti ekkert á móti því, að það heyrði undir hana, ef þar væri ekki um eitt atriði að ræða, sem mælir á móti því, en það er ósamkomulag, sem ríkir innbyrðis meðal þeirra manna, sem fara með þessi mál í landinu.

Það hafa komið til fjvn. beiðnir og kröfur frá þeim mönnum, sem tekið hafa að sér að vinna að útrýmingu áfengis í landinu, að vera lausir við afskipti Stórstúkunnar. Það hafa komið beiðnir frá áfengisvarnanefnd karla um það, að þeirri starfsemi yrði veitt ákveðin upphæð til þess að starfa fyrir, og þeir telja sig geta gert meira gagn með sinni starfsemi fyrir minna fé en Stórstúkan fær. Hið sama er að segja um áfengisvarnanefnd kvenna, að óskir hafa komið fram um það að fá veittan styrk beina leið til sín. Það mun sitja áfengisvarnaráðunautur, sem gerir lítið annað en að hirða laun sín, og átök eru um það, hvort Pétur Sigurðsson skuli taka laun sín frá Stórstúku Íslands eða hvort hann skuli tekinn upp á sérstaka gr. fjárl. Og þegar svo mikið ósamkomulag er hjá þessum aðilum, sem vilja fá stórar fjárfúlgur til þessara mála, þá sé ég ekki, að hægt sé að mæla með því, að þeim sé falið að ráðstafa því fé.

Ég mun fylgja frv. til 3. umr. og mun koma með brtt., ef það kemst svo langt, en ég mun, eins og ég sagði áðan, verða á móti þeirri brtt., sem nú liggur fyrir, með þeim rökum, sem ég hef þegar skýrt.