04.03.1948
Efri deild: 74. fundur, 67. löggjafarþing.
Sjá dálk 593 í C-deild Alþingistíðinda. (2823)

73. mál, bindindisstarfsemi

Ásmundur Sigurðsson:

Herra forseti. Ég hef leyft mér að flytja hér ásamt hv. 3. landsk. (HV) brtt. á þskj. 423. sem kveður svo á, að ríkisstj. skuli heimilað að verja árlega úr ríkissjóði allt að fimm hundruð þús. kr. til eflingar bindindisstarfsemi í landinu. Rök okkar fyrir þessari brtt. voru færð fram af hv. 3. landsk. við þessa umr. málsins, og þarf ég þess vegna ekki að fara um hana mörgum orðum.

Við teljum ástæðulaust að binda fjárframlag til varnar áfengisneyzlu endilega við sölu áfengis. En það er ákvæði um það í frv. nú, og enn lengra er gengið í brtt., sem hv. meiri hl. n. ber fram. En hins vegar hafa engin rök komið gegn því að ákveða sérstaka upphæð úr ríkissjóði án þess að binda hana við sölu áfengis. Og ég tek undir það, sem hv. 3. landsk. sagði hér við umr. málsins, að ég tel, að það sé bein móðgun við bindindisstarfsemina í landinu að bjóða henni upp á fjárstyrk á þessum grundvelli. Og mér er kunnugt um, að þrátt fyrir það, að hér séu með hangandi hendi gefin meðmæli Stórstúkunnar með frv., þá eru mjög skiptar skoðanir innan Stórstúku Íslands um þetta frv. eins og það liggur fyrir.

Verði þessi brtt. felld. mun ég greiða atkv. á móti brtt. meiri hl. n. og einnig móti frv. í þeirri mynd, sem það er nú.