04.03.1948
Efri deild: 74. fundur, 67. löggjafarþing.
Sjá dálk 599 í C-deild Alþingistíðinda. (2827)

73. mál, bindindisstarfsemi

Gísli Jónsson:

Herra forseti. Ég þakka hv. frsm. fyrir það, að hann vill ræða þetta mál við okkur hina, sem ekki erum alveg á sömu línu. Vildi ég vita, hvort hann vildi ekki taka þessa brtt. n. aftur til 3. umr. (ÞÞ: Ég er búinn að því). Og jafnframt vildi ég vita, hvort hv. 8. landsk. þm. vildi ekki taka þannig líka aftur sína brtt. og láta málið ganga svo fram nú.

Í sambandi við ræðu hæstv. dómsmrh. (BBen) vil ég taka fram, að andstaða mín við frv. hans nú miðast einmitt ákaflega mikið við það að þó að það sé ekki tekið fram í frv. sjálfu, að þessu fé, sem það er um, skuli varið til húsbyggingar á templarahöll, þá hefur allt umtal í hv. þd. um þetta fé snúizt um það, að það sé sjálfsagt að svo verði. Og vil ég í því efni leyfa mér að vísa til ræðu hv. 1. landsk. þm. (SÁÓ). sem gekk alveg út frá því, að þetta fé allt ætti að fara í templarahöll. Beinlínis þess vegna er ég á móti málinu eins og það er sett fram í frv. Ef hins vegar hæstv. ráðh., flm. frv., vill samvinnu um það að breyta frvgr. þannig, að það sé alveg ugglaust, að þessir menn geti ekki gert ótvíræða kröfu til allrar fjárhæðarinnar, eins og mér skildist á hv. 1. landsk. þm., að templarar ættu að hafa, þá er ég til samvinnu um það mál. Mér er ljóst, að það er óheppilegt og sorglegt, ef ekki er hægt að koma á fullu samkomulagi við þá menn í landinu, sem ekki eru góðtemplarar, en unna bindindismálum eins mikið og góðtemplarar sjálfir. En ástandið er þannig í landinu, að þessir tveir flokkar treysta sér ekki til að vinna saman um þessi mál, sem er engu síður Stórstúkunni að kenna en hinum aðilunum. Og ég vitna til þess, að nú koma til Alþ. mjög sterkar og háværar kröfur frá mönnum, sem halda fram, að þeirra starfsemi að bindindismálum sé engu minna virði en hjá templurum, um að fá nokkru meira starfsfé til þess að geta aukið þessa starfsemi sína í landinu. Í sambandi við þetta vil ég minna á, að einmitt undir stjórn Stórstúkunnar var Kumbaravogur starfræktur. Það hefur verið einnig undir stjórn góðtemplarareglunnar, sem Kaldaðarnes hefur verið starfrækt. Og hvernig er komið? Þessi starfsemi er komin í það öngþveiti, að það verður að leggja starfsemina niður. Og þetta var undir stjórn templara. (HV: Ekki Kaldaðarnes). Það var árangurinn af starfseminni í Kumbaravogi. Og það vita allir, að það var Stórstúkan og góðtemplarar, sem höfðu með þetta að gera. Mér finnst því ástæðulaust að veita milljónir króna til þessarar sömu stofnunar til þess að reisa fyrir bindindishöll hér í Rvík, sem ég fyrir mitt leyti hef enga tryggingu fyrir, að mundi bæta stórkostlega úr í þessum málum. Hv. 1. landsk. þm. var að tala um, að það þyrfti að koma upp einhverjum stað, þar sem æskulýðurinn gæti haft eitthvert verkefni annað en að iðka öldrykkju eða víndrykkju, og það er rétt: Ég vil benda á, að það er verið að reyna að koma slíkri stofnun upp, þar sem er æskulýðshöllin. Ég tel það, hennar verkefni og þeirra manna, sem fylgja góðtemplarareglunni, að athuga, hvaða leið muni vera heppilegust til skjótrar úrlausnar. Ég tel það svo mikinn kjarna þessa máls, að það sé sá hluti, sem fyrst beri að taka til athugunar. Hinn liðurinn er svo það, hvort mögulegt er að breyta almenningsálitinu í landinu. Hér er drukkið fyrir 50–60 millj. kr. og eyðilagt líf og heilsa í stórum stíl. Hverjum ber þar að ganga fremstur? Sjálfum embættismönnunum í landinu, skólastjórum. Hve margir skólar eru það, þar sem vitað er, að þeir menn halda ekki þessa reglu? Hvernig er það í háskólanum?

Ég hef sjálfur verið þar og séð greinar um það. Svo lengi sem hægt er að halda uppi og þola, að vísindastofnun og skólar, sem kostaðir eru af ríkissjóði, gangi ekki fyrst fram til bóta í þessu, þá er sama, hvað mikið fé er lagt í góðtemplararegluna hér í Rvík. Hér er svo mikið vandamál, að það verður ekki læknað með nokkrum krónum eða tugþúsundum króna úr vínverzlun. Það er sannarlega ástæða, til þess að vekja upp almenningsálitið í landinu á þessu sviði og fyrst og fremst gegn þeim skólum, sem ríkið sækir sína forustumenn til enn þann dag í dag. Ég álít það miklu auðveldari leið og fljótfarnari en að verja milljónum króna til góðtemplara. Þess vegna vel ég allt aðra leið í málinu. Ég tel eigi að síður aðkallandi að hjálpa þeim mönnum, sem veikir eru og hjálpar þurfa við, og sérstaklega þeim mönnum, sem hægt er að bjarga, eins og Helgi Tómasson fullyrðir við mig, en góðtemplarar vildu þó ekki hlusta á í þessu máli, þegar hann var spurður á þeim tíma í sambandi við Kumbaravog. Það þurfa að vera sérstakir spítalar eða deildir, þar sem drykkjumenn væru teknir og settir þar inn á stofu og fengju læknisaðgerð, eftir að aðstandendur vissu um, að þeir hefðu verið teknir. Hann fullyrti við mig, að það væru fleiri í þessum bæ, sem hverfa á nóttunni nú en unglingar undanfarið, og heimilin vissu ekkert um þá. Þetta er alvarlegt atriði. Ég er ekki farinn að sjá, að margra ára framlag til templarahallar bæti úr þessu. Þetta er svo alvarlegt, að fyrst þarf að bjarga. þótt ekki sé meira en 20–30–40 mönnum í þessum bæ. Þá væri það meira virði en að koma upp bindindishöll, sem ég er viss um, að tæki 5–10 ár. Auk þess er engin trygging fyrir því, hvernig sú stofnun yrði. Það er ekki alltaf góður félagsskapur, þótt ekki sé drukkið. Ég segi það ekki til templara. Ég vil bara benda á, að skilyrði til að halda uppi svona stofnun er ekki aðeins að hafa ekki vín um hönd, það er ýmislegt annað, sem þarf að vera þar ráðandi. Hvað snertir fyrirkomulag með styrkinn, þá vil ég segja það, að ég á erfitt með að skilja hvers vegna hæstv. ráðh. vill ekki láta greiða beint úr ríkissjóði. Því miður verður að hafa það hér eftir því, sem er í 1. gr., að eftir því sem tekur af víninu lækka, eftir því á að hækka hundraðshlutann. Því er ákveðin upphæð látin úr ríkissjóði, hvernig sem gengur. Hins vegar er það rökrétt hugsun hjá n., er hún vill láta minna, eftir því sem verr gengur, og meira, eftir því sem veli gengur. (HV: Út frá sjónarmiði brennivínskaupmanns.) Út frá því að þessi stofnun beri uppi kostnaðinn. Þegar ég var fyrst í fjvn., þá barðist ég fyrir því, að aukin yrðu framlög til Stórstúku Íslands um hundruð þúsunda kr. En allar þær vonir, sem stóðu á bak við það, hafa brugðizt af Stórstúku Íslands, því miður, svo að það er sannarlega ekki furða, þó að ég vilji ekki hér leggja því lið, að þessi stofnun skuli hafa ótakmarkað vald yfir þessu fé. Ég sé ekki ástæðu á þessu stigi að ræða málið nánar, vil mjög hafa samvinnu við n. og þá, sem af alhug vilja þessu máli vel.