04.03.1948
Efri deild: 74. fundur, 67. löggjafarþing.
Sjá dálk 601 í C-deild Alþingistíðinda. (2828)

73. mál, bindindisstarfsemi

Brynjólfur Bjarnason:

Herra forseti. Það stendur hérna í nál. meiri hl. allshn. á þskj. 371, að ég muni hafa einhverja sérstöðu í málinu, svo að það mun nú þykja hlýða, að ég geri þá grein fyrir þessari sérstöðu, sem n. minnist þarna á. En þessi sérstaða mín í málinu er í því fólgin, að ég viðurkenni að vísu, að mér finnst þessi breyt. meiri hl. n. í frv. verða til þess að gera það nokkru rökréttara heldur en það var. En á hinn bóginn get ég ekki fallizt á það í frv., vegna þess að ég lít svo á, að þessi aðferð, sem nota á til að veita Stórstúkunni styrk til starfseminnar í landinu, sé með öllu óviðeigandi. Mér finnst þetta vera svona svipað því eins og að glæpamannafélagi í Bandaríkjunum væri gert að skyldu að greiða nokkurn hluta af tekjum sínum til lögreglunnar til að vinna á móti, glæpum, svo að ég verð að vera þeim þm. sammála, sem hafa látið það álit í ljós, að þetta sé mjög svo óviðeigandi. Einmitt þess vegna hef ég ekki getað á þetta fallizt.: Hæstv. dómsmrh. sagði í sinni ræðu, að þetta væri öruggur tekjustofn, og það voru þau rök. sem hann færði fram fyrir því, að réttara væri að fara þessa leið en að veita ákveðna upphæð í fjárl. Mér finnst það þurfi ekki að fara þessa leið fyrir því, þótt reynt væri að tryggja bindindisstarfseminni öruggan tekjustofn. Það mætti ákveða í l. að ríkið skyldi leggja ákveðna upphæð á ári til starfseminnar. Það er rétt, að þessi upphæð er lögð fram vegna þess. að það er drukkið í landinu. Og mér finnst það betur viðeigandi og viðkunnanlegra að ákveða upphæð, sem veitt sé óháð því, hvaða tekjur áfengisverzlunin hefur. Þess vegna felli ég mig miklu betur við brtt. þær, sem 3. og 8. landsk. þm. eru með á þskj. 423. Hins vegar er það rétt, að hér er aðeins um heimild að ræða, og er því hér ekki um eins öruggan tekjustofn að ræða, en ég trúi ekki öðru en það mætti komast að samkomulagi við ráðamenn og flm. þessarar till. um, að hér væri um fasta fjárveitingu að ræða. Hins vegar finnst mér rétt að taka til athugunar, um leið og gengið er frá þessu frv., hvernig þessu fé verði varið, því að ég er sammála hv. þm. Barð., að ef Alþ. vill veita fé til slíkrar starfsemi, þá séu sett ákvæði um, hvernig því sé varið, og það sé ekki notað til útgáfu blaða eins og t. d. Einingarinnar, sem ég tel sýnu verra en Herópið.