04.03.1948
Efri deild: 74. fundur, 67. löggjafarþing.
Sjá dálk 602 í C-deild Alþingistíðinda. (2829)

73. mál, bindindisstarfsemi

Dómsmrh. (Bjarni Benediktsson) :

Ég vil taka af allan vafa um, að ég mun ekki haga fylgi mínu við þetta mál eftir því, hvort ákveðin verði föst framlög úr ríkissjóði, en ég er sannfærður um, að það mun torvelda framgang málsins hér í d. En með frv. er ætlað að afla þessa fjár, sem er frá ríkinu, til þess, sem ég tel að þurfi til þessarar starfsemi. Hitt verður ítrekað enn, að það er nokkur skoðanamunur hér, sem kemur fram, en hann er ekki aðeins varðandi fyrirkomulag á fjárgreiðslum, heldur til hvers fénu er varið. Með frv. legg ég til, að fé sé veitt til almennrar bindindisstarfsemi, en ekki til lækningar á þeim fáu mönnum, sem fallið hafa fyrir ofdrykkju, og ef frv. verður samþ., þá er áætlað ríflegt fé til bindindisstarfseminnar. sem ég álít annað mál en að lækna sjúka. Ég er sannfærður um gagnstætt því, sem hv. þm. Barð. lét uppl. að slík fjárveiting til starfseminnar, m. a. til að koma upp viðunandi húsnæði fyrir starfsemina í bænum, hún er stórkostlegt atriði í því að efla bindindi í landinu. Varðandi afstöðu góðtemplarareglunnar í bænum, þá hafa þeir ekki annað en þetta hús, sem er fyrir sunnan alþingishúsið, sem ég álít, að Alþ. ætti að skerast í leikinn til að fá í burtu, því að Alþ. á rétt til, að garðurinn yrði lengdur suður, og þar að auki er það of lítið og ófullnægjandi. Þess vegna, ef bindindisstarfsemin á að halda áfram miðað við þá breyt., sem þjóðfélagið tekur, þá mun hún þurfa á mjög auknu húsnæði að halda. Þeir menn. sem streitast á móti því, eru með því að fordæma starfsemina og segja að hún eigi ekki neinn rétt á sér. Ég er ósammála mörgu því, sem reglan hefur gert, m. a. því að beita sér fyrir bannlögum og ég álít, að það sé stórt skref aftur á bak og spilli reglunni og hrindi mönnum frá henni, meðan hún hefur það á stefnuskrá. Ég er sannfærður um, að fár félagsskapur hefur gert meira gagn frá upphafi sínu til þessa dags en góðtemplarareglan. Eftir því sem ég hef haft nánari kynni af þeim vandamálum, sem upp koma í sambandi við ofneyzlu áfengis, þá tel ég að það sé að fordæma starfsemina að vilja ekki hjálpa henni til að koma upp viðunandi húsnæði.