04.03.1948
Efri deild: 74. fundur, 67. löggjafarþing.
Sjá dálk 604 í C-deild Alþingistíðinda. (2831)

73. mál, bindindisstarfsemi

Ásmundur Sigurðsson:

Herra forseti. Því hefur verið haldið fram hér, að andstaða okkar gegn því, að þessar tekjur, sem bindindisstarfseminni eru ætlaðar með þessu frv., komi beint frá áfengisverzluninni, stafaði af því, að við óttuðumst, að með því móti fari minna af þessum peningum til bindindisstarfsemi úti á landi. Ég mótmæli þessu, hvað mig snertir, og þori að fullyrða það um fleiri hv. þm. utan af landi, að andstaða þeirra gegn þessu frv. stafar alls ekki af þessum ástæðum. Og ég bendi á það, að það mun ekki vera ástæðulaust, að þessi bindindisstarfsemi sé mest hér í Rvík. vegna þess að hér er áfengisverzlunin og þess vegna áfengisneyzla meiri en víða annars staðar á landinu.

Þá var það hæstv. dómsmrh. (BBen). sem lét þau orð falla, að hann teldi öruggt, að þetta mál væri gott mál, fyrst ég væri á móti því og minn flokkur. (Dómsmrh.: Öruggara). Ég hef nú ekki haft það álit á hæstv. dómsmrh., að hann yfirleitt myndaði sér skoðanir á málum eingöngu eftir því, hvort þessi eða hinn maðurinn væri með þeim eða móti. — En það voru tvö atriði önnur í ræðu hæstv. dómsmrh. Fyrst minntist hann á, að með þessu fyrirkomulagi væri verið að skapa bindindisstarfseminni öruggan tekjustofn. Ef það er meiningin að skapa bindindisstarfseminni í landinu öruggan tekjustofn með því að láta hana hafa vissan hundraðshluta af áfengisgróðanum, þá liggur í því óbeint sú ályktun, að starfsemi bindindishreyfingarinnar muni ekki bera þann árangur, sem til er þó ætlazt, að útrýma áfengisbölinu í landinu, því að annars gæti sá tekjustofn ekki verið öruggur.

Annað atriði í ræðu hæstv. dómsmrh. var það, að hann hélt fram, að verið væri að fleyga málið með brtt. minni og hv. 3. landsk. þm., vegna þess að ef hún yrði samþ., þá mundu fleiri hv. alþm. snúast gegn málinu. Ég vil benda á það, sem þegar hefur verið tekið fram, að hér í brtt. er alls ekki um annað atriði að ræða en það, hvort á að veita þetta fé beint úr ríkissjóði til bindindisstarfseminnar eða hvort það á að veitast sem sérstakur hundraðshluti af áfengisgróða. Hér er ekki um að ræða nein aukin útgjöld fyrir ríkissjóð. Þó að þessi brtt. okkar yrði samþ. Það er ekki hægt að sjá annað en að ákvæðið um, að þetta fé skuli koma sem hundraðshluti af áfengisgróða, sé sett inn til þess, að hægt sé að bendla bindindisstarfsemina við það síðar meir, að hún megi vera fegin að hafa tekjur sínar af áfengissölunni. Og þess vegna vil ég leyfa mér að segja, að þeir hv. þm., sem kynnu að snúast á móti málinu fyrir það eitt, ef þessir peningar ættu að koma beint úr ríkissjóði, þeir fylgja ekki málinu af heilindum. Hins vegar þakka ég hæstv. dómsmrh. fyrir það, að hann kvaðst sjálfur mundu fylgja málinu, þó að þessi brtt. væri samþykkt.

Viðkomandi beiðni hv. þm. Barð. (GJ) um að taka þessa brtt. aftur til 3. umr., til þess að reyna að finna samkomulagsgrundvöll um málið, þá skal ég lýsa yfir, að við flm. brtt. erum fúsir til þess að taka brtt. þannig aftur, og er það gert hér með.