10.12.1947
Efri deild: 30. fundur, 67. löggjafarþing.
Sjá dálk 609 í C-deild Alþingistíðinda. (2844)

104. mál, sölugjald af jörðum

Gísli Jónsson:

Herra forseti. Maður skyldi nú ætla, að þegar svona merkilegt frv. er á ferðinni, veittu hv. þm. því meiri athygli en raun ber vitni um, þar sem í d. eru aðeins flm. og frsm., en þeir, sem hlustuðu á upphaf framsöguræðunnar hér áðan, hafa sér þó e. t. v. nokkuð til afsökunar, því að þeir kunna að hafa álitið, að hér væri á ferðinni mjög meinlaust frv. Mér heyrðist ekki betur á frsm. en hér væri um ósköp lítilfjörlegt mál að ræða. Ég vil þó benda á nokkur varhugaverð atriði, ef að lögum verða, sérstaklega þar sem lögð er áherzla á það frá búnaðarþingi, að hér sé aðeins um lítilfjörlegt upphaf á almennum söluskatti að ræða, og segir svo, með leyfi hæstv. forseta:

„Jafnframt því, að búnaðarþing samþykkir frv. til l., um sölugjald af jörðum og frv. til l. um kauprétt á jörðum, ályktar búnaðarþing að skora á Alþingi að setja lög um sölugjald af fasteignum yfirleitt í þeim tilgangi að draga úr óeðlilegri verðhækkun þeirra og að skatturinn verði látinn renna í hlutaðeigandi sveitar- og bæjarsjóði.“

Þetta er þess vegna ekkert meinlaust eða ómerkilegt mál, þetta er upphaf að nýrri, mjög hárri skattalöggjöf á allar fasteignir í landinu. Byrjunin er að taka 10–40% skatt af öllum seldum fasteignum, og er það ekkert smávægilegt atriði. Ég vil leyfa mér að benda hæstv. forseta á, að það er í hæsta máta undarlegt, að landbn. skuli flytja svona mál, og vil ég beina því til forseta, ef það er ekki á móti þingsköpum, þar sem málið er flutt af n., hvort hann vilji ekki bera það undir d., að málinu verði vísað til fjhn. til athugunar, því að þetta er fyrst, og fremst fjárhagsmál, en ekki landbúnaðarmál.

Ég skal nú snúa mér að sjálfu frv., og þá er fyrst, hve margir aðilar hafa óskað eftir breytingum. Það stendur hér í grg., að 18 búnaðarfélög hafi talið þörf á úrbótum á núverandi ástandi, en þá leggja þau mismunandi áherzlu á umbótaþörfina. Fjögur af þessum félögum telja enga þörf úrbóta, eitt þó með fyrirvara varðandi lóðir í kaupstöðum og kauptúnum og jarðir þar í grennd. Þrjú félög segja ekkert, en 12 vilja, að söluverð jarða sé miðað við fasteignamat eins og það er á hverjum tíma. Sex vilja opinbera eign á jörðum og 4 opinbera eign á lóðum og löndum í kaupstöðum og kauptúnum. Aðeins eitt félag er með söluskatti og eitt á móti, og fellur það því, ef um atkvgr. væri að ræða. Svo vill eitt félag, að kaupandi jarðar fyrirgeri eignarrétti sínum á jörðinni, ef hann situr hana ekki sjálfur.

Sannleikurinn í þessu er, að þetta frv. hefur ekkert verið undirbúið, engin heildarstefna hefur verið mörkuð, og þess vegna er ekki hægt að gera ráð fyrir, að þm. samþykki slíkt umsvifalaust. Á seinustu tímum hafa verið uppi nokkrar deilur um það, hvort ábúendur jarða ættu jarðirnar sjálfir eða þær væru í eigu þess opinbera. Nú hefur reynslan sýnt það, að jarðir, sem eru í eigu hins opinbera, eru miklu verr setnar en jarðir, sem eru í einkaeign, og ríkisjarðir eru langsamlega verst setnar — og það svo sums staðar, að það er smánarblettur á ríkinu að eiga slíkar jarðir. Sama hefur orðið uppi á teningnum. þar sem sveitarstjórnir hafa keypt jarðirnar. Hv. 1. flm. ætti að vita það, að á mörgum jörðum eru ófær húsakynni bæði fyrir fólk og búfé, einmitt á jörðum, sem eru í eigu hreppsfélaga, og það gengur svo langt, bæði hvað viðkemur jarðeignum hreppa og ríkis, að fjöldamörg prestssetur eru þannig á sig komin, að þar eru húsakynni, sem ekki eru viðunandi mannabústaðir né gripahús. Það er þó lögboðið af Alþ., að verja skuli árlega fjárfúlgu til að tryggja, að fyrir hendi séu þessi frumskilyrði fyrir ábúðarhæfi jarðanna, að þar séu mannsæmandi húsakynni, og það er einnig lögboðið, að prestar skuli sitja á ákveðnum stöðum. Ég get því ekki séð, hvers vegna það á að vera keppikefli, eins og þetta frv. ber með sér, að jarðir fari til þeirra aðila, sem mest hafa svikizt um að uppfylla frumskilyrðin til þess, að jarðirnar væru ábúðarhæfar. Ég tel það afar hættulegt að fara inn á þessa braut, vegna þess að reynslan sýnir, hversu illa það hefur gefizt. Og hvers vegna hefur það gefizt svo illa? Það er vegna þess, að það hefur verið svo erfitt að skilja á milli, þegar einn á landið og afnot þess, en hinn á byggingarnar á landinu. Leiguliðar vilja ekki leggja í byggingarkostnað eða viðhaldskostnað nema sem minnst og nauðsynlegt er, vegna þess að þeir vita, að það er ekki þeirra eign. Tilgangur þessa frv. er fyrst og fremst sá að ná sem flestum jörðum undir hið opinbera, og þá er sjálfsagt að breyta frv. eftir því. Ef sveitarfélögin þurfa tekjur, er það vandamál, sem leysa á á annan eg réttlátari hátt. Það má heimila að leggja sérstök gjöld á slíkar eignir, ef eigendurnir gera ekki skyldu sína. Ég vil sannarlega vera með því að gefa hverju sveitarfélagi heimild til að leggja slíkt gjald á.

Eins hefði átt að fara að í Rvík. Það er ekkert vit í því, að óbyggðar lóðir séu í hjarta bæjarins. Á þær á að leggja skatta, svo að eigendurnir séu þvingaðir til að gera eitthvað, sem vit er í. Hins vegar á ekki að setja ný þrælaskattalög, eins og hér er farið fram á. til þess að ná þessum árangri.

Þá er það í sambandi við þann stighækkandi skatt, sem frv. gerir ráð fyrir, að greiða skuli af söluverði jarða. Ef jörð, sem er 5000 kr. virði að fasteignamati, yrði seld fyrir kr. 24999.99, yrði að greiða 10% af þeirri upphæð í skatt. En ef söluverðið er einum eyri fram yfir 25000 kr., yrði að greiða 20% af því í skatt. Ég bendi á þetta, svo að það verði athugað, því að þessi takmörk gilda þannig um alla flokkana. Eins glöggur reikningsmaður og hv. frsm. hlýtur að sjá þetta.

Annars læt ég mig ekki dreyma um það, að frv. fari nokkurn tíma í gegn. Þótt skattabrjálæðið sé orðið mikið og eitt forustublað hafi hrópað upp, að guði sé lof væru fáir milljónamæringar á Íslandi, þá verður þó þetta frv. aldrei samþ.

Þá sný ég mér að því, til hvers á að nota þetta fé. Það er einkennilegt, að strax og óvinsælt mál er borið fram, er reynt að milda það með því að láta þær tekjur, er það skapar, renna til einhverra þarfra hluta. Þannig er það t. d. með ölfrv. Þar þótti sjálfsagt, að ágóðinn rynni til spítala. Á þennan hátt var reynt að breiða yfir þá andúð, sem þjóðin hafði á frv. Þetta er óviðeigandi. Hér er um það að ræða, hvort leggja skuli 40% skatt á söluverð jarða eða ekki, til hvers sem það gjald fer. Ef sveitarfélögin þurfa hins vegar tekjur, eiga það ekki að vera tekjur, sem eru eins óvissar og þessar tekjur verða. Þetta ákvæði er hreinasta blekking og annað ekki.

Hv. frsm. sagði, að jarðir væru ekki oft seldar yfir þrefalt fasteignamat. En samkvæmt grg. hafa af alls 1402 jörðum. sem seldar hafa verið frá ársbyrjun 1938. 186 verið seldar fyrir þrefalt fasteignamat og þar yfir. Hér er það því staðhæft. að 12% jarðanna hafi verið seldar fyrir þrefalt fasteignamat og þar yfir, og auk þess eru 60 jarðir, sem enginn veit, hvað hafa verið seldar fyrir. Síðan þetta var samið getur verið, að margar jarðir hafi verið seldar hærra verði. Annars er matið lágt, svo að þetta er ekki óeðlilegt.

Þá held ég, að hann geri of lítið úr því fé, sem hér gæti komið til skattgreiðslu.

Svo vil ég ræða eitt prinsipatriði, sem komið er inn á í grg. á bls. 6. Þar segir svo, með leyfi hæstv. forseta:

„Eigi verður um það deilt, að verðhækkun sú, sem felst í umbótum og mannvirkjum á jörðunum sjálfum, er með öllum rétti eign þeirra, sem að framkvæmdunum standa. Hins vegar verður að telja, að sú verðhækkun, sem á sér samfélagslegar orsakir, eigi ekki, a. m. k. ekki nema að nokkru leyti, að renna í vasa þeirra, sem landið eiga, heldur sé hún eign samfélagsins, heildarinnar, og eigi að koma henni til góða.“

Þetta er einmitt mikið þrætuatriði og verður meðan þjóðfélagið er byggt eins og er. Það er ekki viðurkennt, að ríkið eigi að eignast þá verðhækkun, sem t. d. bygging hafna, vega og brúa fyrir opinbert fé hefur í för með sér. Það hefur aldrei verið viðurkennt, að slík eignaaukning fari til annarra en þeirra, sem eiga viðkomandi fasteignir. Í grg. er það hins vegar skýrt tekið fram, að verðhækkun fasteigna af þessum ástæðum eigi að renna til ríkisins eða sveitarfélaga. Ég veit, að það er lífsskoðun Jens Hólmgeirssonar, að þannig sé þessu bezt farið, en ég hef ekki fyrr vitað, að hv. frsm. væri á þessari skoðun. Það er ekki viðtekin regla, að þetta skuli vera þannig og stafar það ef til vill af því, að lítill munur er á því orðinn, hvað er fé einstaklinga og hvað ríkisins, þar sem hægt er að taka allt af einstaklingunum og fá í hendur ríkinu hvort eð er.

Það er alkunnugt, að meðferð ríkissjóðs á fé er verri en einstaklinganna. Það hafa síldarverksmiðjurnar sýnt, sem ríkið hefur aldrei getað rekið eins vel og einstaklingar. Sama er um landbúnaðinn. Ríkið rekur búskap, en alls staðar með tapi. Þó að 6000 bændur eigi að hafa lífsafkomu sína af honum. Það er af þessum ástæðum, að ekki hefur verið farið inn á þessa braut.

Það mætti margt fleira segja um frv. og grg., sem er lífsspeki Jens Hólmgeirssonar, er mest hefur að þessu máli unnið, sem er fyrsta sporið í þá átt að taka alla eign fasta og lausa til opinberra aðila. Ég mun fylgja málinu til 2. umr. og n. og vil spyrja hæstv. forseta, hvort ekki sé rétt að senda það til fjhn., þótt það sé borið fram af annarri n. Það eru dæmi um, að þannig hefur verið farið að áður, og ég er viss um, að í Nd. verður málinu vísað til fjhn. Málið verður að fá mjög nákvæma athugun í fjhn.