10.12.1947
Efri deild: 30. fundur, 67. löggjafarþing.
Sjá dálk 612 í C-deild Alþingistíðinda. (2846)

104. mál, sölugjald af jörðum

Frsm. (Þorsteinn Þorsteinsson) :

Það mundi teygja tímann um of, ef ég svaraði orði til orðs öllu því, sem hv. þm. Barð. (GJ) hefur sagt. Ég verð að segja það, að oft hefur skörin færzt upp í bekkinn, en sjaldan eins og nú. Hann hefur viljað segja fyrir verkum bæði einstaklingum og n., en nú vill hann fara að segja hæstv. forseta fyrir verkum. Mér finnst það nokkuð langt gengið. Rökin eru þau, að í grg. frv. er ályktun frá búnaðarþingi um það, hvað því sýnist, að eigi að gera seinna í þessum málum, en þetta er ekki bundið við frv., sem er rakið og ákveðið landbúnaðarmál. Viðskiptin fara öll fram innan sveita, miðað við sölufyrirkomulag í sveit, og auk þess er um það að ræða, hvernig hreppsn. eigi að verja því fé, er þær fá, til frama fyrir landbúnaðinn.

Við hv. þm. Barð. erum ráðdeildarmenn og getum hagað rekstri okkar betur en hið opinbera. En það fer öðrum einstaklingum og ráðleysingjum verr úr hendi. Hann getur kallað mig kommúnista, ef hann vill, en ég álít, að ef hið opinbera hefur lagt mikið fram til verðhækkunar á jörð einstaks manns, þá sé það ekki fjarri, að hið opinbera fái eitthvað í aðra hönd, ef eigandinn selur jörðina og braskar með hana. Hið opinbera ætti að hafa meira eftirlit með ýmsu braski og þyngja skatta á bröskurum, sem frekar eru til niðurdreps fyrir þjóðfélagið.

Hv. þm. sagði, að nú séu opinberar eignir víða illa setnar, og ef þetta frv. yrði að l., yrðu jarðirnar illa setnar. En í frv. er sett undir þennan leka, því að það á að verja töluverðu úr sjóðnum til þess að bæta fasteignir hreppanna.

Hv. þm. heldur því fram, — ekki veit ég, hvort hann er jarðeigandi sjálfur, — að á þennan hátt nái hrepparnir undir sig öllum jörðum á landinu. En það er bara lítill hluti, sem hér er um að ræða.

Tilgangur frv. er að hindra brask. Þegar braskarar eiga í hlut, setjast þeir að jörðunum eins og hrafnar að hræi, kaupa þær og setja einhverja amlóða á þær. Sveitamenn sem þannig missa góða félaga, geta ekki unað við þetta, heldur vilja tryggja það, að á jörðunum sé setið sæmilega. Það er ekki gaman fyrir hreppsn. að verjast ágangi þessara manna, sem fleka undir sig jarðir, sem síðan verða gagnslausar fyrir afkomu sveitarinnar.

Hv. þm. segir, að þessu megi koma fram með öðruvísi l. En því hefst hann ekki handa sjálfur í þessu efni, svo athafnasamur sem hann er?

Ég skildi hann ekki vel, þegar hann talaði um sölustigann. Hækkunin er ekki eins mikil og hann talaði um, og ef hann athugar málið betur, veit ég, að hann sér það. Ég vil taka það fram aftur, að mér fannst kenna misskilnings um, að þetta byrjaði með 3. flokks verði, en það byrjar með 4. flokks verði. Svo að við höldum hans dæmi, byrjar þetta sölugjald ekki fyrr en jörðin er komin yfir 20 þús. Annars er hér margt fleira að segja, og býst ég við, að mörgu sé ósvarað, enda er þetta 1. umr. og ekki vani að þenja sig vítt og breitt þá strax, svo að ég mun hætta þessum umr., en held fast við það, sem ég hef áður sagt um n. En auðvitað ræður þd. þessu, og er sjálfsagt fyrir forseta að bera þetta upp, hann verður að gera það sem sína skyldu. Ég skal ekki segja, hvort hv. þm. Barð. (GJ) fær talið þd. á sitt mál, en það má hann vita, að ég fylgi málinu, enda þótt það verði fært á milli nefnda.