10.12.1947
Efri deild: 30. fundur, 67. löggjafarþing.
Sjá dálk 615 í C-deild Alþingistíðinda. (2850)

104. mál, sölugjald af jörðum

Gísli Jónsson:

Út af ummælum hv. þm. Dal. (ÞÞ) um, að botninn væri dottinn úr mér við að flytja þetta frv., þá upplýsti hann sjálfur, að landbn. hefði ætlað að láta fara fram rannsókn á þessu máli, en það hefur ekki orðið. Ég veit ekki um þetta annað en að hann sagði, að frv. stríddi á móti stjskr., og hann hefur víst ekki séð neina möguleika til þess að laga þá ágalla, sem á því voru. Hitt er svo staðreynd, að menn hafa ekki getað greitt gjöldin eins og þau eru skv. ábúðarl., og þegar ekki fékkst fyrir tilverknað þessa þm. að laga þau, þá tóku margir þann kostinn að flýja frá jörðunum. Við skulum ekki tala um Hergilsey.

Það eru líka aðrar jarðir í eyði og beinlínis vegna þess, að þessi ákvæði eru eins og þau eru, enda vita allir, að bændur geta ekki goldið frá 8–10 þús. kr. í afgjald, eins og verið hefur.

Um hitt atriðið, þar sem hann talaði um bryggjugerð, frystihús o. s. frv., vildi ég, að þm. setti sig raunverulega inn í málið og af meiri sanngirni. Ef hann getur fengið hreppsn. til að segja, að þetta sé sett, á hann að endurtaka þetta, en ef hann getur það ekki, á hann að biðja fyrirgefningar. Það er þm. (ÞÞ) ekki til sóma að blanda saman óskyldum efnum til þess að breiða yfir galla þessa frv.