06.02.1948
Efri deild: 54. fundur, 67. löggjafarþing.
Sjá dálk 618 í C-deild Alþingistíðinda. (2857)

104. mál, sölugjald af jörðum

Frsm. (Þorsteinn Þorsteinsson) :

Herra forseti. Um þetta mál, sem hér liggur fyrir, hélt landbn. þessarar hv. d., sem flutti þetta frv., fund, en varð ekki að öllu leyti sammála um það, en sá þó ekki ástæðu til þess að koma með neitt nál. eða kjósa neinn sérstakan frsm. um það. En ég sem form. n. get lýst yfir því, að ég býst við, að nokkur hluti n. vilji samþykkja frv. eins og það liggur fyrir. Tveir hv. nm. hafa komið hér fram með brtt. við frv., og einn hv. nm. hefur þegar við 1. umr. lýst sig yfirleitt frekar andvígan frv.

Ég ætla ekki að taka upp almennar umr. um þetta mál. Það var rætt við 1. umr., og það á margan hátt mjög uppbyggilega(!), og sé ég ekki ástæðu til að endurtaka neitt af því, sem þá var sagt, enda er þetta mál fyrir löngu síðan og nú enn á ný margrætt á þingi og líka í blöðum. — Ég get lýst afstöðu minni þannig til málsins, að ég taldi mig sammála frv. eins og það var borið fram, og þeirri afstöðu minni til frv. mun ég fylgja, og mun ég fyrir mitt leyti leggja til, að frv. verði samþ. óbreytt eins og það liggur fyrir, en að brtt. við frv., sem hér liggja fyrir, verði felldar. Þær eru ekki stórvægilegar, en ég tel þær ekki til bóta. Ég játa, að frv. þetta, eins og það liggur hér fyrir, er ekki nákvæmlega eins og mþn. búnaðarþings gerði það úr garði. En að öllu athuguðu tel ég mig geta vel unað við þetta frv., og sé ég því ekki ástæðu til að fara að breyta þar um neinu í minni afstöðu og tel réttast, að frv. verði samþ. eins og það liggur hér fyrir.