06.02.1948
Efri deild: 54. fundur, 67. löggjafarþing.
Sjá dálk 627 í C-deild Alþingistíðinda. (2865)

104. mál, sölugjald af jörðum

Eiríkur Einarsson:

Herra forseti. Ég vil þakka hv. 1. þm. Eyf. (BSt) fyrir þau orð, sem hann mælti um frv. Ég get vel fallizt á, að frv. mundi ekki verða til þess að bæta úr þar, sem því er ætlað. Ég mun greiða atkv. um þetta frv. í samræmi við þau rök, sem ég hef fært fyrir atkv. mínu.

Ég man eftir því, að það hefur verið brýnt fyrir okkur af lærðum kennurum, að í allri lagasetningu væri eignarréttarins bezt gætt, að það væri í góðu samræmi við réttarþroska þjóðarinnar. Af hverju var eignakönnunin gerð? Er það ekki af því, að réttarþroski og hlýðni þjóðarinnar er ekki í nógu góðu samræmi við lagareglur, sem settar hafa verið? Verða ekki allir jarðabraskarar að lúta réttarskyldum og greiða skatt samkvæmt skattalöggjöfinni? En það er lagasetning, sem hér liggur fyrir þinginu um kauprétt á jörðum, sem ætti að koma í veg fyrir, að menn fari að braska með jarðir. En það er annað atriði, að jarðeignir í landinu hækki í verði. Ég er á gagnstæðri skoðun. Ég held, að jarðeignir í landinu, eins og aðrar eignir, hækki í samræmi við það, hvað mikil eftirspurnin er. Það eru ýmis kot, sem liggja í eyði og eru landinu einskis virði, því að enginn vill líta við þeim. En ef jarðirnar hækka í verði, þykja þær einhvers virði. Því þykir mér það sérstakt, ef það er frá forustumönnum bændanna þessi hugsun, að jarðirnar megi ekki hækka í verði, og að þeir standi fyrir þessu, þá álít ég þá eiga forsvarsmenn á allt annarri lífsskoðun.

Ég set mig að nokkru leyti á móti þessu frv., til þess að svo lengi sem réttur málsins er fram borinn, þá vil ég hafa sem minnst fjötur um fót í viðskiptum milli viðskiptaaðila.