09.02.1948
Efri deild: 55. fundur, 67. löggjafarþing.
Sjá dálk 628 í C-deild Alþingistíðinda. (2869)

104. mál, sölugjald af jörðum

Gísli Jónsson:

Herra forseti. Ég hafði ekki hugsað mér að ræða þetta mál frekar við þessa umr., en ræður annarra hv. dm. gefa tilefni til frekari umr. Það er athyglisvert, að hv. frsm. hefur lagt á það megináherzluna, að ekki bæri að ræða málið, og virðist það benda til þess, að hann sé hræddur um, að í umr. komi eitthvað fram, sem ekki er gott fyrir málið sjálft. En þetta mál er ekkert annað en stórkostlegt skattamál og ætti því að mínum dómi að ræðast mjög ýtarlega, í stað þess að hv. frsm. vill ekki ræða málið og fer undan í flæmingi. Það er misskilningur, að ég hafi haldið, að skatturinn væri af öllu söluverðinu. Ég hef aldrei haldið það. Hins vegar eru stuðningsmenn frv. ekki enn búnir að koma sér saman um, á hve mikinn hluta skatturinn leggist, því að einn fékk út 9000 kr., en annar 13000 kr., og reiknuðu þó báðir af sömu upphæð.

Annars er meginspursmálið í sambandi við þetta frv. annað en skattaspursmálið, —- það, hvort rétt sé að keppa að því, að það opinbera eignist jarðirnar. Nú miðar þetta frv. að því, að jarðirnar fari úr eigu einstaklinga til hreppsfélaganna, og er þá rétt að athuga, hvernig jarðir hins opinbera eru setnar, og bera það saman við jarðirnar, sem í einkaeign eru, en þar er reginmunur á. Ef menn fara um landið, geta menn bent á þær jarðir, sem ekki eru í einkaeign, því að þar er allt í niðurníðslu. Mér datt í hug saga um einn fyrrverandi vinstriflokksþm., sem nú situr sem prestur úti á landi. Hann kom í heimsókn til kunningja síns og leit yfir sveitina og spurði, hver ætti allar þessar glæsilegu jarðir. Það voru allt sjálfseignarbændur og líka sjálfstæðisbændur, þó að það komi nú ekki þessu máli við. Svo kom hinn flokkurinn, sem neðar var í ástandinu, bændur undirokaðir af karakúlpest og mæddir af andlegum og veraldlegum þjáningum. En í mestri niðurníðslu voru ríkisjarðirnar. Það má tilgreina fleiri sveitir, þar sem svona er ástatt. Á ríkisjörðunum eru húsin í mestri niðurníðslu og jarðrækt og annað í verstu ástandi, af því að allar umbætur fara yfir í eigu ríkisins. Meginhugsun frv. er því til hins lakara.

Í sambandi við þetta vil ég benda á það, að hér er raunverulega upp vakinn sá draugur, sem fylgdi 17. gr. jarðræktarl. Það er einkennilegt, að hv. þm. Dal. (ÞÞ) skuli vekja hann upp aftur, eftir að hafa barizt gegn honum í mörg ár, vakið skilning á þeirri baráttu og kveðið hann niður. En hann hefur ekki fyrr kastað rekunum á óskapnaðinn en hann reynir að vekja hann upp aftur. Og þetta er mörgum sinnum verra. Ef þetta verður að l., ætti hann að finna til andúðar á þeim, ekki síður en 17. gr., og taka upp baráttu fyrir því. að þau verði afnumin.

Hv. 1. þm. N-M. (PZ) ræddi um það, að öll verðhækkun væri til bölvunar fyrir heildina. Þó skildist mér hann ekki vera á móti því, að jarðir væru seldar hærra verði, ef seljendurnir flyttu ekki til Rvíkur með ágóðann. Ég skal ekki segja, hvort hægt er að komast að samkomulagi við hann um það að skattleggja þá sérstaklega, sem vilja búa í Rvík. En þetta eru einkennileg rök. Margir hafa selt jarðir sínar án þess að flytja til Rvíkur. Gjábakki. sem að fasteignamati er virtur á fimm þús. kr., var seldur ríkinu eftir mati fyrir 150 þús. kr., þó að ekki hafi einu sinni verið lagður vegur þangað, og bóndinn býr þar enn þá. Ég sé ekki, að þetta sé ógæfa fyrir Þingvallasveit.

Hitt er annað mál, hvort verðhækkanir, sem stafa af opinberum ástæðum, eiga að einhverju leyti að renna í ríkissjóð. Það á að taka það almennt, og ég er fús að ræða það, en það er annars eðlis og kemur ekki þessu við.

Svo vildi ég segja nokkur orð í sambandi við það, sem hv. 1. þm. Eyf. (BSt) sagði. Hann gaf hér svipaða yfirlýsingu í þessu máli og hann gaf í sambandi við afgreiðslu dýrtíðarfrv. Ég gat ekki annað skilið en að hann mundi greiða atkvæði móti betri vitund, vegna þess að um afgreiðslu þessa máls væri samkomulag eða fyrirskipað, að það ætti að afgreiða það. (Forseti: Þetta er alls ekki rétt). Hann lýsti yfir því, að hann vildi helzt, að sett yrði á laggirnar stofnun, sem kaupa ætti jarðirnar. Ég hélt nú ekki, að hann væri svona ákafur í að koma upp stofnun til þess að hafa með höndum jarðabrask. Hér yrði um eins konar miðlarastofnun að ræða, og hún hlyti að lenda einhvern tíma í því að kaupa jarðirnar hærra verði en hún gæti selt þær, ef ekki fást kaupendur, sem kaupa vilja fyrir sama verð og hún hefur keypt fyrir. Jarðir, sem ríkið kaupir, eru síðan leigðar fyrir 3% af fasteignamati og endurbætur eru engar gerðar, heldur eru leiguliðarnir látnir niða þær niður. Ef hressa þarf upp á húsin eða endurbæta eitthvað, verður leiguliðinn að bera kostnaðinn sjálfur. Í bezta lagi leggur ríkissjóður til efnið og hækkar jarðarleiguna um 3% af þeirri upphæð, sem fer til endurbótanna. Afgjöldin fara öll til viðhalds og auk þess ¼ millj. kr. úr ríkissjóði. Þegar bezt lætur, selur svo ríkið jörðina eða gefur hana, til þess að geta keypt hana aftur af börnunum eða barnabörnunum. Það er að þessu, sem þetta frv. stefnir, en það er engan veginn æskilegt.

Ég geymi mér svo frekari umr. um málið til 3. umr. og mun ekki ræða það nánar nú, nema sérstakt tilefni verði gefið til þess. Hins vegar getur verið, að ég ræði málið frekar við 3. umr.