22.01.1948
Efri deild: 45. fundur, 67. löggjafarþing.
Sjá dálk 633 í C-deild Alþingistíðinda. (2883)

123. mál, síldarbræðsluskip o.fl.

Fjmrh. (Jóhann Jósefsson) :

Herra forseti. Ég tók fyrir, ásamt tveimur öðrum hv. þm., að flytja þetta mál um kaup á skipi til síldarbræðslu o. fl., og má telja það eitt í þeirri röð af hugmyndum og uppástungum, sem hafa komið fram til úrlausnar þessum síldarbræðslumálum, einkum síðan vart varð við hina miklu veiði í Hvalfirði. Nú er það vitað, að lengi hefur staðið til, að síldarbræðsluverksmiðja verði sett upp á Norðausturlandi. Og í sambandi við það hafa ýmsar hugmyndir komið fram, t. d. um fljótandi síldarbræðsluverksmiðju, sem formenn Sósfl. á sínum tíma og síðar einn hv. Alþfl.-maður (GÞG) báru fram till. um: Og uppástungur hafa komið fram í skrifum í blöðum um það, hvernig þessi mál skyldi leysa. Sem sagt, menn hafa yfirleitt látið þetta mál sig miklu skipta.

Hér á Alþ. kom fyrir skömmu fram frv. frá hv. þm. Borgf. um að reisa nýja síldarverksmiðju á Akranesi, og þá sérstaklega miðað við þá þörf, sem er á síldarverksmiðju í sambandi við Hvalfjarðarsíldveiðina: En hugmyndin um fljótandi síldarbræðsluverksmiðju hefur frá öndverðu byggzt á því að geta fullnægt bræðsluþörfinni með sömu tækjum víðar en á einum stað í landinu. Og þessi hugmynd hefur fengið nýjan byr í seglin við það fyrirbæri, sem fram kom á síðasta ári, að sumarsíldveiðin varð langríkust við norðausturströnd landsins og síðan kom mikil vetrarsíldveiði við suðvesturströndina. Það er eðlilegt, að þá hafi menn farið miklu ýtarlegar að hugsa um úrræði, sem gætu greitt úr vandanum fyrir hvora tveggja þessa staði eða svæði í þessu efni, ekki sízt þegar síldveiði er á annarri árstíð fyrir norðan og norðaustan land en við Suðvesturland, sem nú hefur raun á orðið í bili. Enginn veit náttúrlega, hve lengi þetta kann að standa svona. Þó má alltaf búast við, að við Norðurland verði breytileg síldveiði, þannig að ýmist verði hún meiri austan til á því síldveiðisvæði eða vestan til, eins og verið hefur.

Síðan þessi hugmynd varð ofarlega í mínum huga, sem hér liggur fyrir í frv. okkar þremenninganna, hafa aðrar till. komið fram og virðast hafa mikið fylgi og öflugt, og getur vel verið að það reynist betra að fara eftir þeim. Enda er það svo með þetta mál eins og í fleiru, að meðan ekki er séð til fulls, hvað bezt sé eða heppilegast, þá er öllum skylt að hafa það heldur, er betra virðist og sannara reynist við nánari athugun.

Með þessum ummælum vildi ég svo leggja til, að þessu máli yrði vísað til hv. sjútvn., því að ég ímynda mér, að þó að farnar yrðu aðrar leiðir, þar sem ríkið er ekki sá eini hluthafi, eins og hv. þm. er kunnugt um, að hugmynd er uppi um í Landssambandi íslenzkra útvegsmanna, þá yrði það fyrst að athugast í sjútvn. Þar er hugmynd uppi um að framkvæma sömu vinnu með sömu tilfæringum með þátttöku ríkisins, en ekki alveg sem ríkisfyrirtæki. Rétt finnst mér, að það sjónarmið komi til álita sjútvn. En það, sem fyrst og fremst fyrir okkur flm. þessa frv. vakti, var það að geta með þessu úrræði, með skipi, hvort sem það væri þetta skip, sem við hér minnumst á, eða annað skip. e. t. v. stærra, tryggt vinnslu á það miklu síldarmagni, að verulegu munaði fyrir framleiðsluna á síldarafurðum við Suðvesturland, þannig að hinar sömu vélar væru til taks líka til þess að geta tekið að sér uppfyllingu á eins miklu af þeirri bræðsluþörf fyrir Norðausturlandið, þar sem enn þá er verksmiðjulaust, eins og aðstæður kunna að krefjast og auðið er. — Það virðist vera skynsamleg hugmynd, sem liggur að baki hjá öllum þeim, sem bæði fyrr og síðar hafa hreyft þessu fljótandi verksmiðjumáli, sem sé þetta, að geta fullnægt síldarbræðsluþörf víðar en á einum stað með sömu tækjum.

Ég vona, að með því frv., sem hér liggur fyrir, hafi e. t. v. verið stigið spor í áttina til viðráðanlegri úrlausnar í þessu vandamáli en þegar menn hugsuðu um kaup á flugvélamóðurskipi, sem yrði mjög dýrt í rekstri. Og þó að þeir menn, sem undirbjuggu þetta frv., þeir Ólafur Sigurðsson skipaverkfræðingur og forstjórinn í vélsmiðjunni Héðni, hafi komið fram með þetta, þá er víst, að aðrar hugmyndir geta þarna einnig komið til greina. Engan dóm skal ég á það leggja nú, hver hugmyndanna mundi reynast bezt í framkvæmd. — Vona ég, að hv. þd. láti þetta mál ganga til þeirra aðila í hæstv. Alþ., sem ber að leggja úrskurð á afgreiðslu slíkra mála og ég býst við líka, að kvaddir verði til ráðuneytis um það, hvort ríkið tæki þátt í svona framkvæmdum á öðrum grundvelli en hér eru till. um í þessu frv.