10.02.1948
Efri deild: 56. fundur, 67. löggjafarþing.
Sjá dálk 637 í C-deild Alþingistíðinda. (2896)

137. mál, sjúkrahús o.fl.

Menntmrh. (Eysteinn Jónsson) :

Herra forseti, Undanfarið hefur það komið fram, að mönnum þykir framlag ríkisins til byggingar læknisbústaða og sjúkrahúsa of lágt, einkum þegar um hin fámennari héruð er að ræða. Við í heilbrigðismálaráðuneytinu og landlæknir höfum ráðgazt um þetta, og fundum við þann mikla erfiðleika, að erfitt er að draga markalínuna í þessum efnum. Niðurstaðan varð svo sú, að 3/5 byggingarkostnaðarins skyldu greiðast úr ríkissjóði, og var frv. þannig flutt.

Nú hafa komið fram 2 brtt., önnur frá heilbr.- og félmn. og miðar hún að því, að styrkurinn sé aukinn í 4/5 í læknishéruðum, þar sem íbúar eru færri en 850. En hin brtt. er, eins og hv. þm. er kunnugt frá hv. þm. Dal. og hv. þm. N-Þ., og vilja þeir láta heimildina haldast til þess að veita styrk allt að 3/4 byggingarkostnaðar héruðum þeim, sem fámenn eru og afskekkt. Ég hef íhugað þetta nokkuð, og virðist mér, að ekki sé rétt að fara lengra í þessum styrkveitingum en sem nemur 3/4 byggingarkostnaðar, eins og ráð er fyrir gert í frv., og er ég þess fýsandi, að frv. verði samþykkt óbreytt, þó að ég hins vegar viti, að það er ekki gallalaust, en ef brtt. yrðu samþ., mundu fleiri ágallar koma í ljós.

Ég hef svo ekki fleiru við þetta að bæta, en hygg, að ekki sé ástæða til að gera þetta að kappsmáli því að til mála getur komið að breyta þessu, ef ástæða þykir til síðar.