10.02.1948
Efri deild: 56. fundur, 67. löggjafarþing.
Sjá dálk 637 í C-deild Alþingistíðinda. (2897)

137. mál, sjúkrahús o.fl.

Gísli Jónsson:

Herra forseti. Mönnum er nú orðið það ljóst, að full þörf er á að auka styrk ríkisins til læknisbústaða og sjúkrahúsa, sérstaklega þegar um fámenn og fátæk héruð er að ræða. Ég er þeirrar skoðunar, að fámenn héruð geti ekki staðið undir þeim kostnaði, sem af þessum byggingum leiðir og þeim er ætlað að standa undir. Til dæmis um þetta vil ég nefna hér læknisbústað þann, sem byggður var í Reykhólahéraði og því var ætlað að standa undir. Útkoman varð sú, að héraðið gat hvorki staðið straum af lánum né viðhaldi og ríkissjóður var farinn að greiða allt kostnaðarverðið í vöxtum af lánunum, og að síðustu varð hann svo að greiða það upp. M. a. með skírskotun til þessa hef ég í Sþ. borið fram þáltill. um, að ríkið kosti alveg byggingu læknisbústaðar í Flatey, með því líka að ástand það, sem þar ríkir í þessum efnum, er algerlega óviðunandi. Ég álít því, að það sé ekki einungis nauðsynlegt, að þessi héruð eigi bústaði fyrir lækna, heldur er nauðsynlegt, að þau eigi bæði læknisbústaði og lyfjabúðir. Ég hef ekki viljað flytja brtt, á þessu stigi málsins, en hins vegar tel ég, að það sé lágmark, að ríkið greiði 3/4 af byggingarkostnaði við bústaðina. En ég vil líka taka það fram, að mér finnst, að þessir embættismenn geti greitt fulla leigu, þegar þeim er séð fyrir góðum húsum. Það var byggður læknisbústaður á Bíldudal 1939, mjög vandaður bústaður, en vegna þvingunar af hálfu læknastéttarinnar var ekki hægt að leigja hann fyrir nema 600 kr. á ári, þó að sanngjörn leiga og eðlileg hefði verið 1800 kr., því að þarna var um 5 herbergja íbúð að ræða. Það virðist vera dálítið einkennilegt, að þessir embættismenn skuli sjálfir ráða, hvað þeir greiða í húsaleigu, og vildi ég gjarnan spyrja, hvort það sé í samráði við landlækni.

Þá væri líka fróðlegt að fá upplýst, hvort það sé staðreynd, að fé hafi verið fyrir hendi á árinu 1947, sem ætlað hafi verið til læknisbústaða og sjúkrahúsbygginga, en Patreksfjarðarhéraði neitað um það og féð heldur látið ónotað. Ef einhver sérstök ástæða er fyrir synjuninni, væri fróðlegt að vita, hver hún væri. Landlæknir hefur haldið því fram, að það mundu vera sömu erfiðleikarnir að fá lækni í Flatey, þó að þar væri læknisbústaður. Ég veit ekki, hvað landlæknir hefur fyrir sér í þessu. Í Flatey eru nú 314 íbúar, og það er einmitt verkefni landlæknis að ráða fram úr þeim örðugleikum, sem þarna eru í sambandi við þetta mál. Annars væri æskilegt að fá að vita hjá hæstv. ráðh., hvað heilbrigðisstjórnin hyggst að gera í því máli. Eftir 10. gr. l. um aðstoð við byggingar á læknisbústöðum og sjúkrahúsum virðist mér, að þar eigi allir jafnan rétt. Þess vegna vildi ég gjarnan fá upplýsingar um, hvers vegna Patreksfirðingum hefur verið synjað um aðstoð við að fullgera læknisbústað, sem þeir hafa í smíðum.