10.02.1948
Efri deild: 56. fundur, 67. löggjafarþing.
Sjá dálk 638 í C-deild Alþingistíðinda. (2898)

137. mál, sjúkrahús o.fl.

Menntmrh. (Eysteinn Jónsson) :

Herra forseti. Hv. þm. Barð. spurði um það, hvort þetta frv. væri flutt í samráði við landlækni. Því er til að svara, að þetta er flutt af heilbrigðisstjórninni, eftir að ráðgazt hafði verið við landlækni. Þó vil ég taka það fram, að engin skrifleg umsögn liggur fyrir frá landlækni

Varðandi læknisbústaðinn á Patreksfirði þá er ég ekki reiðubúinn að gefa skýrslu um það mál. Hins vegar hygg ég, að ástæðan fyrir því, að ekki hefur fengizt fé til þessa bústaðar, sé sú, að það mun vera venja, að þau héruð, sem fengið hafa styrk til sjúkrahúsbygginga, fái ekki fé til byggingar læknisbústaða. Þá mun það líka vera venja, að fé er ekki veitt fyrr en bústaðurinn hefur verið samþykktur af heilbrigðisstjórninni, en slíkt samþykki mun ekki liggja fyrir varðandi þennan bústað. Ef heilbrigðisstjórnin hætti nú að gera þær kröfur, væri fyrirsjáanlegur alger glundroði í þessum málum. Hins vegar mun þetta mál ekki vera útkljáð, og vil ég leyfa mér að skora á hv. þm. að tefja ekki það mál, sem hér er á ferðinni, með því að blanda þessu saman.