08.03.1948
Efri deild: 76. fundur, 67. löggjafarþing.
Sjá dálk 645 í C-deild Alþingistíðinda. (2920)

140. mál, fiskiðjuver í Höfn í Hornafirði

Frsm. minni hl. (Steingrímur Aðalsteinsson):

Ég gat því miður ekki verið viðstaddur, er málið var fyrst tekið fyrir til 2. umr., og hlustaði því ekki á framsöguræðu hv. frsm. meiri hl. Ég veit því ekki, hvaða viðbótarrök hann kann að hafa komið fram með og held mér við þau rök, sem koma fram í nál. á þskj. 394.

Það hefur verið mikið um það rætt, hve mikil nauðsyn þjóðinni sé á því að koma sér upp tækjum til þess að vinna verðmeiri vöru úr fiskinum. Í fyrra vetur birtist mjög áberandi skýrsla í einu af dagblöðum bæjarins, er sýndi, að Íslendingar stóðu þjóða fremstir hvað öflun fisks snerti. Aflamagn hvers fiskimanns var meira en annars staðar. En þegar reiknað var út til verðmætis, kom í ljós, að verðmætið fyrir hverja einingu var minna hér á sjómann en hjá öðrum þjóðum. Við höfum flutt út meginhlutann af fiskinum óverkaðan eða lítið verkaðan og því fengið lægra verð fyrir, hann en aðrar þjóðir, er vinna úr honum ýmiss konar vörur og gera, hann þannig verðmætari. Á þessu byggjast þær miklu umr., er farið hafa fram um nauðsyn Íslendinga á fiskiðnaði. Mér skilst, að flestir eða allir séu sammála um, að Íslendingar ættu að skapa sér aðstöðu til þess að fá meira verð fyrir fiskinn og afla sér þannig meiri tekna og meiri erlends gjaldeyris.

Nú bregður hins vegar svo kynlega við í sambandi við þetta frv., að meiri hl. sjútvn. og form. hennar koma með álit, sem er í raun og veru rökstuðningur fyrir því, að þetta sé of áhættusamt og að fiskiðjuverið við Grandagarð, er hafi betri aðstöðu, muni ekki hafa skilyrði til að bera sig. Ef þetta er rétt, er ekkert vit í því að fara inn á frekari tilraunir í þá átt að gera aflann verðmætari og ekkert vit í því, að ríkið taki að sér að byggja fiskiðjuver í Höfn í Hornafirði.

Sú rökst. dagskrá, sem meiri hl. n. leggur fram, felur raunverulega það í sér, að farið er fram á, að d. samþykki, að fiskiðnaðurinn sé vonlaus og ekki vert að hugsa frekar fyrir honum. Ég skal ekki segja, hvort d. vill samþ. slíkt: Ég vil ekki gera það. Ég hef því klofið n. og skila sérstöku áliti á þskj. 413. Þar er það lagt til, að haldið verði áfram á þeirri braut að gera aflann verðmætari og að ákveðið verði sem einn liður í þeirri viðleitni, að ríkið láti byggja fiskiðjuver í Hornafirði.

Þessi afstaða mín byggist á því, að ég álít það gefið, að þessi iðnaður geti ekki aðeins borið sig, heldur sé líka mjög arðvænlegur, bæði fyrir þá, sem reka hann og eins til að tryggja viðunandi verð fyrir hráefnið. þ. e. a. s. nýjan fisk til þeirra, sem sjóinn sækja: Þessi iðnaður er ekki áhættusamur, þegar til lengdar lætur. Þótt hallatímabil geti komið og óhöpp borið að höndum, er sú áhætta ekki það mikil, að ástæða sé til að láta hana fæla frá tilraunum. Hitt er einnig ómótmælanlegt, að ef unnið er úr fiskinum eins og unnt er, verður útflutningurinn miklu meiri og þar með tekjurnar í erlendum gjaldeyri. Það er því hagsmunamál allrar þjóðarinnar, að þessum iðnaði verði komið upp.

Það var rætt um það hér í sambandi við hafnarmál Hornafjarðar, hve aðstaða hreppsfélagsins er veik, er um fjárfrekar framkvæmdir er að ræða. Hér gildir líka það sama. Fjárhagslegt bolmagn er ekki fyrir hendi, og því er leitað til ríkisins. Þeir, sem hér hafa hagsmuna að gæta, eru smáútvegsmenn, dreifðir um fjölmarga staði á Austurlandi og það er ekki mikil von til þess, að þeir hafi getu til að koma upp þessu fiskiðjuveri. Niðurstaðan er því sú, að leitað er til ríkisins um aðstoð.

Það er á misskilningi byggt, er meiri hl. n. leggur áherzlu á það, að þetta sé áhættusamt fyrir ríkið. Mér skilst, að samkvæmt frv. sé áhættan ekki lögð á ríkið, heldur þá, sem leggja inn fisk til vinnslu. Frá endanlegu verði til sjómanna á að draga allan rekstrarkostnað fyrirtækisins. Áhættan lendir því á þessum aðilum. Ég skal ekki segja, hvort þetta er réttasta leiðin. Ég hef tilhneigingu til að álíta, að ríkið eigi líka að bera áhættuna, en nú er áhættan ekki ríkisins, heldur þeirra, sem fiskinn eiga að leggja inn.

Ég held, að ég hafi ekki ástæðu til að ræða þetta miklu frekar og það því fremur, sem ég hafði ekki tækifæri til að hlusta á ræðu hv. frsm. meiri hl. Málið liggur nokkuð ljóst fyrir, og ég geri ráð fyrir því, að öllum hv. dm. sé það kunnugt. Ef það er rétt, að nauðsyn sé fyrir þjóðina að vinna meira úr fiskinum en áður hefur verið gert, er útgerðarmönnum ekki síður en öðrum þessi nauðsyn brýn. Og ég held líka, að af þeim umr., sem orðið hafa hér í hv. d. um útgerðar- og hafnarmál í Höfn í Hornafirði, þá hljóti mönnum líka að vera það ljóst, að þessum framkvæmdum verður tæplega komið á fyrir forgöngu þeirra fátæku aðila, sem þar eiga fyrst og fremst hagsmuna að gæta, og það sé því eðlilegast í sambandi við þetta mál, sem hér liggur fyrir, eins og í sambandi við hafnarmálin þarna, að ríkið taki að sér að koma þessari framkvæmd á og skapa þessum útgerðarmönnum og sjómönnum á Austfjörðum aðstöðu til þess, þegar þeir koma í land með afla sinn, að geta eitthvað við hann gert og komið honum í verð, sem sæmilegt geti talizt, svo að þeir geti haft framfæri sitt af þessum atvinnuvegi áfram eins og hingað til. Og ég vonast til þess, ef þetta verður framkvæmt, að þeir tryggi sér betri afkomu í sinni atvinnugrein heldur en hingað til hefur verið.