16.02.1948
Efri deild: 62. fundur, 67. löggjafarþing.
Sjá dálk 652 í C-deild Alþingistíðinda. (2937)

155. mál, húsaleiga

Hannibal Valdimarsson:

Herra forseti. Þegar meðnm. mínir í heilbr.- og félmn. ræddu um það við mig, hvort ég vildi verða meðflm. að þessu frv., var ég ekki viðbúinn að svara því og fékk frest til þess að hugleiða málið. Þegar ég hafði hugleitt málið, taldi ég mig ekki geta fylgt málinu og enn síður algeru afnámi húsaleigul., þó að ég hins vegar gangi þess ekki dulinn, að húsaleigul. missa að mörgu leyti marks frá því, sem þeim í upphafi var ætlað.

Þegar þessi l. í upphafi voru sett, þá voru þau næsta gagnleg og komu í veg fyrir óhóflega hækkun húsaleigu, og að einhverju leyti gera þau það enn. En hins vegar er upplýst, að einungis bæjarbúa búa í sömu íbúðunum og þeir höfðu þá. Aftur á móti hafa 3/5 horfið úr því húsnæði, sem þeir þá höfðu. og má gera ráð fyrir, að þeir njóti því ekki verndar húsaleigul. En þó að það séu ekki nema 2/5, sem njóta verndar húsaleigul., þá er samt hæpið að nema þau úr gildi á þessu stigi málsins. Að sjálfsögðu verður því ekki neitað, að húsaleigan samkv. húsaleigul. er sums staðar svo lág, að hún nægir vart fyrir viðhaldi, en í fleiri tilfellum mun þó hafa náðst samkomulag um nokkra hækkun og þannig tekið tillit til breyttra aðstæðna.

Aftur á móti hefur þetta sums staðar leitt til styrjaldar milli húseigenda og leigjenda, en slíkt er ekki almennt, og tel ég, að flm. geri of mikið úr þeirri hlið málsins. Þó að ég sjái mér ekki fært að fylgja þessu frv., þá játa ég, að það er ástæða til verulegra breytinga á þessum l., en það eru flest breytingar, sem koma ekki fram í þessu frv. Ég tel t. d. mikla ástæðu til, að lækkuð verði húsaleiga í gömlum húsum, sem nú eru leigð út með okri, en þeir sem ekki hafa fengið nema vísitöluhækkun, sem mun vera 46 stig frá því að húsaleigul. voru sett, eiga að mínu áliti rétt á sanngjarnri hækkun. Eins og hæstv. forsrh. tók fram í ræðu sinni, þá liggja fyrir ýmis veigamikil gögn í þessu máli, og vænti ég, að þm. verði gefinn kostur á að sjá þau, en þau ekki látin vera leyndarmál nokkurra nm.

Ég er sannfærður um, að ef þessi rýmkun á húsaleigul. nær fram að ganga, þá mun mikið af því húsnæði, sem nú er leigt út á hóflegu verði, fara á svartan markað og er það sannarlega ekki til bóta, jafnvel þó að það kvæði niður eitthvað af því ósamkomulagi, sem nú er. Af þessum orsökum er ég á móti niðurfellingu húsaleigul. og andvígur þeim breyt., sem hér er lagt til, því að ég tel að þær bæti ekki úr þeim agnúum, sem á l. eru, en hins vegar muni þær leiða af sér mikla hættu.