16.02.1948
Efri deild: 62. fundur, 67. löggjafarþing.
Sjá dálk 657 í C-deild Alþingistíðinda. (2939)

155. mál, húsaleiga

Brynjólfur Bjarnason:

Herra forseti. Mál þetta hefur verið rætt, eins og skýrt hefur verið frá, í heilbr.- og félmn., og þess var óskað af einstökum hv. nm., að n. sem heild tæki þetta mál til flutnings. Ég svaraði því þá strax, að ég mundi ekki verða við þeim tilmælum. Ég lýsti mig andvígan frv., og ástæðurnar fyrir því eru þær, að með þessu frv., sem hér liggur fyrir, eru úr gildi felld þau ákvæði húsaleigul., sem kveða svo á, að óheimilt sé að segja upp leiguhúsnæði nema í einstökum tilfellum, eins og l. mæla fyrir um. Eftir stendur þá bann við hækkun húsaleigu. Það er fyrst og fremst það, sem eftir mundi standa af húsaleigul., ef þetta frv. yrði samþ. En eftir að búið er að afnema fyrra ákvæðið, um takmörkun uppsagnar, þá er síðara ákvæðið, um bann við hækkun húsaleigu, orðið einskis virði. Það er alveg fallið úr sínu gildi, því að það er alveg víst, að öll húsaleiga í bænum yrði seld á svörtum markaði. Við vitum að öll húsaleiga, sem ekki takmarkast nú af þessu ákvæði, er seld á svörtum markaði. Reynslan hefur þannig sannað okkur þetta alveg tvímælalaust. Öllum leigusamningum yrði sagt upp, allt fram til þessa dags, og nærri undantekningarlaust mundi öll húsaleiga hækka í verði. Það er ekki hægt að gizka á, hvað þessi hækkun yrði mikil, en af þeirri hækkun, sem er í þeim húsum, sem vitað er nú um og þar sem hömlur uppsagnarákvæðisins koma ekki til greina, getur maður verið viss um, að þessi hækkun yrði stórkostleg.

Það eru þegar mörg tilfelli, þar sem húsnæði er selt á svörtum markaði, en ef þessi ákvæði yrðu felld úr gildi, eins og hér er lagt til, þá mundi verða hér að ræða um reglu, en ekki aðeins undantekningar. Þá mundi þetta og hafa í för með sér, að allar húseignir mundu stórhækka í verði.

Þetta frv. er borið fram af fulltrúum flokka, sem mest hafa talað um dýrtíðina og mikið um fórnir, sem þyrfti að færa af öllum borgurum þjóðfélagsins vegna dýrtíðarinnar. En hvað segir nú hæstv. ríkisstjórn, sem þykist standa í heilögu stríði gegn dýrtíðinni? Það væri nauðsynlegt fyrir hv. þdm. að fá skýrt svar við því. Hæstv. forsrh. hefur þegar talað í þessu máli, og það komu ekki skýr svör fram hjá honum. Hæstv. forsrh. sagðist vera hlynntur því, að stefnt yrði að því, að húsaleigul. yrðu afnumin. Hins vegar sagðist hann ekki vera við því búinn að samþykkja þetta frv. eins og það væri, heldur vildi hann vísa því til n. til athugunar, ef náðst gæti samkomulag um breyt. á því. Ég vil taka fram, að ég óska ekki eftir því, að málinu verði vísað til n. aftur. — Ég hef þar enga ósk fram að færa, vegna þess að ég álít, að þetta frv. eigi að fella strax nú við 1. umr. Hæstv. ráðh. hefur þess vegna ekki gefið nein skýr svör við því, hver afstaða hans er í þessu máli og því síður, hver afstaða ríkisstj. allrar sé í þessu efni. En það er nauðsynlegt fyrir Alþ. og þjóðina að fá að vita um það, og vil ég þar taka undir með hv. síðasta ræðumanni.

Því hefur verið haldið fram, og því var haldið fram nú af hv. frsm. þessa máls, að um 2/5 af þeim húsaleigusamningum, sem nú eru í gildi, væru frá því fyrir stríð, þó þannig að eitthvað af þessum 2/5 íbúðanna kynni að vera húsnæði, sem er í húsum, sem þeir, sem í húsunum búa, eiga sjálfir. — Hvaðan hefur hv. þm. þessa tölu? Ég hygg, að hann hafi þessa tölu frá Fasteignaeigendafélaginu og frá athugun, sem það félag hefur gert. Þessi athugun hefur verið gerð þannig, að það hefur verið gert úrtak úr fáeinum götum á þann hátt, að ekkert er að marka þessa tölu. Þess vegna geri ég ekkert með þessa tölu. En þessi tala skiptir mjög litlu í þessu sambandi, vegna þess að það eru ekki aðeins leigusamningar, sem gerðir hafa verið fyrir stríð, sem hér koma til greina, að yrði sagt upp, ef þetta frv. yrði að l., heldur yrðu það allir leigusamningar, sem gerðir hafa verið til þessa dags, og með þeim afleiðingum, að húsaleigan mundi yfirleitt alls staðar hækka. Og í flestum tilfellum mundi húsaleigan stórhækka einnig í nýjum húsum. Það er nú svo, að það er mjög algeng regla, að þegar menn fá húsnæði í nýjum húsum, þá verða menn að borga stóra upphæð, þegar menn fara í íbúðina, auk leigu. Mér skilst, að ef þetta frv. yrði að lögum, þá væri hægt að segja upp öllum leigusamningum, líka í nýjum húsum. Og ef þeim væri sagt upp, þar sem ekki er um að ræða leigusamninga til ákveðins tíma, þá þyrfti leigjandi að gera nýjan leigusamning og borga sömu upphæðina að nýju til þess að komast inn í íbúðina. T. d. ef hann hefur borgað 15 þús. kr. fyrir utan húsnæðið til þess upphaflega að komast inn í íbúðina. þá yrði hann sennilega að borga aftur þessar auka 15 þús. kr. — Ég álít, að þegar á allt er litið, þá sé það að samþykkja þetta frv. miklu verra heldur en hreint og beint afnám húsaleigul., vegna þess að hvort tveggja mundi hafa sömu áhrif í þá átt að hækka leigu eftir allt húsnæði í bænum. En það væri bara sá munur á þessu tvennu, að ef húsaleigul. væru afnumin, þá vissu menn nokkurn veginn, hver húsaleigan væri. Þá væru afnot húsnæðis seld á frjálsum markaði. En með því að samþykkja þetta frv., þá yrði þetta selt á svörtum markaði. Og með samþ. þessa frv. yrði þá viðskiptaspillingin, sem á sér nú of mjög stað í sölu á húsnæðisafnotum, gerð að reglu, þannig að þetta yrði verra en afnám húsaleigulaganna.

Hver eru rökin. sem færð eru fram fyrir þessu frv.? Hjá hv. síðasta ræðumanni voru það aðalrökin, að hann taldi l. ranglát gagnvart húseigendum. Rökin eru í fyrsta lagi, að þessi l. komi hart niður á húseigendum, og hv. þm. lagði sérstaka áherzlu á þetta atriði. En þetta höfum við alltaf vitað. Og þetta var vitað, þegar húsaleigul. voru sett, að þau kæmu hart við ákveðna menn. En þau voru sett samt, af nauðsyn. Og spurningin er heldur ekki um það, hvort þau koma hart við einstaka menn, því að það er vitað, að þau gera það, heldur um hitt, hvort nauðsyn hefur verið fyrir hendi, sem gerði það réttlætanlegt að setja þessi l., og hvort sú nauðsyn sé enn fyrir hendi. Og ég er þeirrar skoðunar, að það sé engu minni nauðsyn á þessum l. nú heldur en var, þegar húsaleigul. voru sett. Það voru meira að segja minni hömlur á húsbyggingum, þegar l. voru sett, heldur en eru nú.

Hinn tilgangurinn með þessu frv. á svo að vera sá að gera mönnum kleift að losna við óþolandi leigjendur. Nú vita hv. flm. frv. vel, að það er hægt að losna við óþolandi leigjendur samkv. húsaleigul. Hv. flm. bera það kannske fyrir sig, að reynslan sé sú, að erfitt hafi verið að losna við þessa leigjendur. En hver er þá kominn til að segja til um það, hvort þær kærur, sem um hefur verið að ræða, hafa verið á rökum byggðar? Ef húseigendur hafa ekki getað losnað við leigjendur, verður maður að órannsökuðu máli að gera ráð fyrir, að kærur í þessu sambandi, sem fram hafa verið bornar, hafi ekki verið á rökum reistar. Annars held ég, að þessi ástæða hv. flm. frv. sé tylliástæða. Tilgangurinn með þessu frv. er sá að gera húseigendum kleift að hækka húsaleiguna. Tilgangurinn er að afnema húsaleigul., eins og viðurkennt er. Og þau ákvæði þeirra, sem gagn er að, yrðu afnumin. ef þetta frv. væri samþ. Og afleiðing þess yrði verra ástand heldur en mundi verða, ef þau l. væru hreinlega afnumin.

Önnur röksemd hv. flm. fyrir frv. er það, að það sé ekki jafnmikið húsnæðisleysi í bænum, eða þurfi a. m. k. ekki að vera, eins og þegar húsaleigul. voru sett, því að í mörgum húsum í bænum standi íbúðir auðar. Og hv. flm. þessa frv. kenna húsaleigul. um. að svona sé. Hvað fyrri röksemdina snertir, þá tel ég hana furðulega fjarstæðu og alveg furðulegt, að slíku skuli vera haldið fram af mönnum, sem vita, hvernig ástandið er í þessum bæ, sem hafa lesið skýrslu héraðslæknisins frá 27. jan. 1947, sem þó var heldur ekki annað, en byrjun á skýrslu. En samkvæmt þeirri bráðabirgðaskýrslu voru á þessum tíma 652 heilsuspillandi íbúðir, sem búið var í. En þessi athugun náði aðeins til kjallara og bragga. Og sú athugun, sem gerð var þarna, var heldur alls ekki tæmandi. Það var ekki búið að athuga allar þær upplýsingar, sem n., sem sett var af hálfu ríkisstj., hafði óskað, að aflað væri. Þetta er því alls ekki tæmandi. Og ég geri ráð fyrir því, að það sé ekki ofmælt, að heilsuspillandi íbúðir í Reykjavík, sem búið er í, séu um 1000. — Hv. flm. hefur haldið því fram, að hlutfallið á milli íbúða og fólksfjölda í Reykjavík sé hagstæðara nú en það var 1939 og að árið 1939 hafi ekki verið húsnæðisleysi. Þessar tölur um hlutfallið á milli íbúa í bænum og húsnæðismagnsins. sem mælt er í fermetrum. gefa náttúrlega alveg skakkar hugmyndir um ástandið í þessum efnum, og það, sem dregið hefur verið út af þessu hér, er alveg byggt á röngum forsendum. Í fyrsta lagi er það staðreynd, sem ég býst við að allir séu sammála um, að fólki er nú kleift að búa í miklu stærra húsnæði en áður var. Og auk þess er fjöldi manna hér í Reykjavík, sem er ekki skráður hér á manntali, þannig að fleira fólk er í bænum en manntalsskýrslur gefa til kynna. Og annað atriði í þessu máli er, að 1939 var stórkostlegt húsnæðisleysi. Þá var búið í á annað þúsund bönnuðum íbúðum hér í bænum samkv. skýrslum. En þetta var af því, að kaupgetan var þá lítil hjá mörgu fólki, menn sem sagt höfðu ekki efni á því að búa í mannabústöðum. Það er skýringin. Þannig eru þessar tölur um hlutfallið á milli húsnæðis og íbúafjölda í bænum byggðar á alveg röngum forsendum.

Þá er það hin fullyrðingin, um auðu íbúðirnar. Hún mun líka vera höfð eftir Fasteignaeigendafélaginu. Ég veit ekki til þess, að fyrir liggi um þetta neinar skýrslur, enda hygg ég, að erfitt mundi vera að fá þær. Það er ákaflega hægt um vik að ýkja þetta stórlega. Og ég er ekki í vafa um, að þetta muni vera ýkt, þó að vitanlega séu til auðar íbúðir í bænum. En í áróðurs skyni, álít ég að þetta hafi verið ýkt. En ráðið til þess að láta íbúðir ekki standa auðar, það er vissulega ekki það, sem felst í ákvæðum þessa frv. Ef þetta frv., sem hér liggur fyrir, yrði að l., þá yrði allt leiguhúsnæði stokkað upp að nýju og skipt um leigjendur. Og ég hygg, að upp úr því mundi ekki koma meira húsnæði til afnota í bænum, heldur sennilega fyrir færra fólk en áður, því að margir, sem eru vel efnum búnir, mundu nota tækifærið til þess að stækka við sig húsnæði, sem þeir sjálfir nota. Og ráðið við þessu er því ekki að samþykkja þetta frv., heldur að gera ráðstafanir til þess, að ákvæði húsaleigul. verði framkvæmd, sem banna að íbúðir standi auðar. Annars virðist mér, að hér sé um greinilega hugsunarvillu að ræða, — því að hvers vegna standa íbúðir auðar? Því hefur verið haldið fram, að það sé vegna þess, að húseigendurnir væru margir svo löghlýðnir, að þeir vildu ekki selja afnot þeirra íbúða á svörtum markaði og ekki hærra en lög leyfðu. Og að þetta frv. eigi að bæta úr því, er hugsunarvilla, eins og hver maður sér. Ef sagt er, að menn vilji ekki leigja fyrir hærra verð til þess að brjóta ekki í., eins og þau eru nú, þá gildir það sama um lagabrot hvað þessu við kemur, þó að frv., sem hér liggur fyrir, yrði samþ., því að eftir l., þó að frv. þetta væri samþ., er ekki leyfilegt að hækka húsaleiguna. Að því leyti hefði samþykkt frv. ekkert gildi.

Hv. frsm. segir, að ástæðan til þess, að menn vilji ekki taka fólk í húsnæði hjá sér, sé sú að menn geti ekki losnað við það aftur. En það er ekki þörf fyrir menn að svara þannig og því ekki ástæða til að bera þetta fram til stuðnings þessu frv. Það eru til ráð til þess að losna við leigjendur, sem teknir eru inn í húsnæði. Það er hægt að leigja mönnum til ákveðins tíma og tryggja, að þeir fari, t. d. með því að láta þá skrifa undir uppsögn fyrir fram, sem taki gildi eftir ákveðinn tíma. Og það er oft gert.

Ég tel nú næsta furðulegt, að svona frv. skuli vera komið frá n., sem kallar sig heilbrmn., á sama tíma sem vafalaust ekki færri en eitt þús. heilsuspillandi íbúðir eru notaðar í Reykjavík og fjöldi fólks býr í bröggum og grenjum, sem ekki eru mannabústaðir. Það er næsta furðulegt, að svona till. skuli koma fram frá fulltrúum flokka, sem telja sig vera í heilögu stríði gegn dýrtíðinni í landinu. Raunar mátti alltaf við því búast, að festing vísitölunnar leiddi til þess, að menn hefðu minni áhuga fyrir því að halda í skefjum hinni raunverulegu dýrtíð. Og þetta var tekið fram í umr. um dýrtíðarfrv. í vetur. Raunar má svara því, að hækkun á húsaleigunni hafði ekki áhrif á framfærsluvísitöluna, áður en dýrtíðarl. voru samþ., nema að því leyti, sem húsaleiguvísitala hagstofunnar, sem miðuð er við aukinn viðhaldskostnað á íbúðum, kemur til greina. En á því mundi vera illa stætt til frambúðar, eftir að öll húsaleiga hefði hækkað, eins og hún mundi gera, ef þetta frv. yrði að l. En þrátt fyrir allan áhuga hv. flm. þessa frv. fyrir baráttunni gegn dýrtíðinni þá eru þeir svo viðkvæmir fyrir rétti húseigenda, að þeir horfa ekki í þetta. O-jæja. þessir hv. þm. voru ekki eins viðkvæmir fyrir rétti launþega, þegar þeir greiddu atkv. með því, að ógiltir yrðu löglegir samningar allra verklýðsfélaga á landinu og þar með lækkað kaup allra launþega um 8½%, svo að viðkvæmnin fer sýnilega eftir því, hverjir í hlut eiga.

Ég vona nú. að þetta frv. verði fellt. Og ég mun greiða atkv. á móti frv. þegar við 1. umr.