20.02.1948
Efri deild: 66. fundur, 67. löggjafarþing.
Sjá dálk 673 í C-deild Alþingistíðinda. (2947)

155. mál, húsaleiga

Forsrh. (Stefán Jóh. Stefánsson) :

Herra forseti. Hv. þm. Str., sem kannske þarf að víkja af fundi og á annan fund, eins og hann sagði, hélt því fram í sinni ræðu og gerði það að aðalefni ræðu sinnar að tala um það, að ég hefði sagt það, að það væri að deila um keisarans skegg, hverja húsaleigul. vernduðu. Það var alls ekki á þá lund, sem ég mælti, heldur sagði ég, að það lægju ekki fyrir um það fullnægjandi upplýsingar eða öruggar, hve mikill hundraðshluti af íbúum Reykjavíkur byggju í húsnæði, sem þeir hefðu búið í, þegar húsaleigul. voru sett. Um þetta atriði, sagði ég, að væri að deila um keisarans skegg, vegna þess að um það lægju ekki ákveðnar upplýsingar. En hér hafa komið fram ósanngjarnar fullyrðingar um það, hvað sá hundraðshluti væri stór, sem byggi í sömu íbúðum nú og þegar húsaleigul. voru sett. Ég sagði aldrei og vil ekki segja, að húsaleigul. verndi enga aðra heldur en þá, sem búið hafa í þessum húsum frá 1939 óbreytt til þessa dags. Margir þeir, sem fluttu fyrr á árum, áður en húsnæðisvandræðin voru jafntilfinnanleg, fengu húsnæði, sem alls ekki var selt á leigu með neinu okurverði.

Það hafa margir leitað til húsaleigun., þegar þeir hafa flutt, og fengið mat hennar á húsaleigu. Það hafa líka margir, sem flutt hafa inn í gamlar íbúðir, sem aðrir hafa flutt úr, fengið mat húsaleigun., og um þetta liggja mörg skjöl fyrir hjá húsaleigun. Þetta vildi ég leiðrétta hjá hv. þm. Str., þó að hann hafi gengið af fundi til þess að fara á annan fund.

En úr því að ég stóð upp, vil ég undirstrika það, að höfuðröksemd þessa hv. þm. gegn húsaleigul. og með frv. því, sem hér liggur fyrir, var sú, að með þessu frv. væri hægt að jafna kjör manna. Ég fæ ekki séð, að það orðalag bendi til annars en að hv. þm. búist við því. að þær uppsagnir, sem kynnu að fara í kjölfar þeirrar löggjafar, sem sett yrði í samræmi við frv., leiddu til þess, að sú húsaleiga, sem nú er lág, yrði hækkuð, því að ég hef litla eða enga trú á því, að sú háa húsaleiga, sem ríkir sérstaklega í Reykjavík í nýbyggðum húsum, mundi lækka við þá breytingu, sem verður með samþykkt þessa frv.

Það sama kom í ljós hjá hv. þm. Str., þegar hann sagði, að afstaða mín gegn samþ. þessa frv. kæmi af því, að ég óttaðist, að verðlagsvísitalan mundi hækka. Hann reiknaði með því, að það væri ástæðan af minni hálfu, að ég vildi ekki samþykkja frv. Af því má draga þá ályktun, að hv. þm. reiknar með því, að samþ. þessa frv. mundi leiða til þess, að ódýra húsaleigan mundi hækka stórlega og það mundi síðan leiða til hækkunar á verðlagsvísitölunni.

Ég held, að hv. þm. Str. geti ekki gert sér miklar vonir um, að það, sem leiddi af samþ. þessa frv., yrði til þess að jafna kjörin, eins og hv. þm. tók til orða, heldur mundi slíkt leiða til mikillar hækkunar, og það er tilgangur, sem ég get ekki mælt með af minni hálfu.