20.12.1947
Neðri deild: 40. fundur, 67. löggjafarþing.
Sjá dálk 305 í B-deild Alþingistíðinda. (295)

116. mál, dýrtíðarráðstafanir

Frsm. minni hl. (Einar Olgeirsson):

Herra forseti. — Ég sé, að þetta umdeilda frv. er komið aftur til okkar, og gefur það eitt til kynna, að þetta aðalstjórnarfrv., sem hefur verið lagt fyrir þingið og búið er að bíða eftir í 21/2 mánuð að ríkisstj. hafi ekki einu sinni haft slíkan undirbúning á því, að það hafi verið hugsanlegt að setja þetta frv. í gegnum þingið án þess að láta það taka breyt. í neðri og efri deild, enda mun það hafa sýnt sig við meðhöndlun þessa máls, að ekki er tryggt að neinu leyti, að rekin verði skip og hraðfrystihús, þótt þetta frv. verði samþ. Hvort það er tryggt með þeim breyt., sem gerðar voru í hv. Ed., væri æskilegt að fá upplýst fyrir Sölumiðstöð hraðfrystihúsanna. Það hafa verið miklar óánægjuraddir um þetta frv., og ég sé, að 14. gr. hefur verið breytt til hins verra og rýrð þau réttindi, sem eftir voru skilin, á vissan hátt. Mér er ekki kunnugt um, hvaða röksemdir eru færðar fyrir því, að þessu var breytt þannig. Það er hins vegar augljóst mál, að á þessum skamma tíma, sem frv. hefur nú verið til umr. á Alþ. og úti á meðal þjóðarinnar, hafa komið fram fleiri og fleiri mótmæli gegn frv. Nú þegar er auðséð, að verkalýðsfélögin í landinu taka þetta frv.. eins og það er, einungis sem beina árás á kjör sín og skilja það fyllilega, sem áherzla hefur verið lögð á, að með þessu frv. er á engan hátt verið að vinna gegn dýrtíðinni, heldur til að auka hana. Hins vegar byrjar fólkið nú þegar að sjá og skilja, hvers konar árás þarna er verið að gera einmitt á þá, sem lægst eru launaðir.

Þetta frv. hefur nú gengið í gegnum 6 umr., og ekki hefur fengizt fram við neina af þessum umr. nein yfirlýsing frá hæstv. ríkisstj. um, hvernig hún ætlar að nota þær vísitöluheimildir, sem henni eru gefnar með 12. gr. Ríkisstj. hefur enga yfirlýsingu gert í þá átt, að niðurgreiðslur haldi áfram, heldur komu fram mjög harðvítugar yfirlýsingar frá sumum ráðherrum, og skilst manni á þeim, að þetta sé fyrsta skrefið, sem verið sé að stiga, og með þessum þrælalögum sé grundvöllurinn lagður. En ríkisstj. þorir ekki að stíga stærri skref í einu. Samtímis á að reyna að gylla fyrir almenningi, að þetta skref sé ekki svo stórt, ekki nema 5% lækkun. Þetta allt saman er ekki svo tilfinnanlegt fyrir almenning, en það kom greinilega fram í umr., að frekari launalækkun er fyrirhuguð. Og svo framarlega sem tækist að framkvæma þessa launalækkun, sem í þessum l. felst, þá mun hún halda áfram. Slíkar yfirlýsingar komu sérstaklega fram hjá hæstv. dómsmrh. Og hvað eftir annað var hæstv. ríkisstj. gefið tækifæri til að leiðrétta þær, ef þær hefðu verið sagðar í hita umræðnanna. Með þessu er verið að höggva skarð í múrinn, og þetta verður til þess að örva almenning til að taka á móti og svara þessari árás, því að ef ekki verður tekið á móti nú, þá mun fleira koma á eftir. Nú hefur það hins vegar sýnt sig, að þessi launalækkun hefur enga þýðingu fyrir sjávarútveginn. Það, sem þeir menn, sem stjórna sjávarútveginum, hafa lagt mesta áherzlu á í skrifum sínum til n., er, að þeir fengju ýmsar tilslakanir á öðrum sviðum, t.d. lækkaða vexti, vátryggingarverð og annað þess háttar. Þetta er allt saman í samræmi við það frv., sem við sósíalistar höfum flutt hér í d. og hefði minnkað kostnaðinn fyrir sjávarútveginn, þannig að afurðir sjávarútvegsins hefðu orðið ódýrari, en ekki með því að ganga á lífskjör almennings. Hins vegar er það vitað, að ýmsir stærri atvinnurekendur í landinu, sem eru ekki í neinum sérstökum vandræðum með framleiðslu sína, munu fá launalækkun með þessu. Þá er það orðið einkennilegt og sýnir, hver tilgangurinn er með frv., ef sjávarútveginum er neitað um það, sem hann leggur áherzlu á, en öðrum atvinnurekendum, sem grætt hafa undanfarin ár, eru veitt fríðindi með lögboðinni launalækkun hjá starfsmönnum þeirra. Þá sýnir sig bezt, að allt, sem á að tryggja áframhaldandi rekstur sjávarútvegsins, er ekki nema á yfirborðinu, því að aðaltilgangur stjórnarinnar er að knýja fram launalækkun hjá almenningi. Það hefur verið látið í veðri vaka, að þetta væri til þess að tryggja atvinnuna í landinu. Hvernig sem stjórnin hefur verið spurð að því, hvernig hún hugsi sér að gera það, þá hefur enginn getað svarað því. Og engin trygging er fyrir því í þessu frv., að atvinnan aukist, heldur hefur það hvað eftir annað sýnt sig, að það hafa þegar af hálfu ríkisstj. verið gerðar ráðstafanir til þess að draga úr atvinnunni í landinu. Nú þegar væri komið atvinnuleysi hér og víðar, ef síldin hefði ekki komið hér. Það hafa ekki heldur verið gefnar af hálfu ríkisstj. né stuðningsliðs hennar neinar yfirlýsingar um, að með samþ. þessa frv. yrðu gerðar nokkrar ráðstafanir til þess að bæta úr atvinnuástandinu, síður en svo.

Þá hefur ríkisstj. haldið því fram, að þetta sé gert til þess að vinna gegn dýrtíðinni. Það hefur verið margsýnt fram á það, að þetta frv. muni verða til þess að auka dýrtíðina, ekki sízt með söluskattinum, og nú seinast mjög rækilega, eins og hæstv. forsrh. orðaði það sjálfur, þegar samsvarandi frv. var til umr. 1943.

Það eina, sem verið er að gera með þessu frv., er árás á lífskjör almennings. Það hefur verið vakin eftirtekt ríkisstj. á því, að hún hefur áður reynt að framkvæma svona launalækkun og tvisvar sinnum lagt til við verkalýðssamtökin og beðið ósigur í bæði skiptin. Það reyndi á pólitískan þroska hjá verkamönnum að skilja það, hvers konar árás þetta var. Þess vegna þurfti pólitískt fylgi um leið til að hrinda þeirri árás.

Hins vegar mun þessi árás, sem felst í frv., varða alla launþega í landinu samtímis. Launin lækka 1. jan., og þeir, sem daglega eru nú í jólaönnum, gera sér ekki ljóst, hvað verið er að gera gagnvart þeim. Mér er ekki grunlaust um, að hæstv. ríkisstj. hafi hugsað sér jólahelgina einungis til að fela árásina. En þeir finna þetta greinilega eftir nýár. Ég á þess vegna mjög bágt með að skilja pólitíska blindni þeirra manna, sem halda, að með svona klunnalegri árás eins og hér er gerð, sé hægt að komast hjá því að vekja svo almenna mótspyrnu launþega í landinu, að það leiði til átaka. Það kann að vera, að valdhafar landsins óski eftir þeim, en sé svo, þá er það undarleg ósk, þar sem ekkert væri annað að vinna við það en ófrið. Sé þessum ráðh. hins vegar stjórnað af svo blindu ofstækisvaldi að heimta slíka árás á lífskjör almennings, þá er meiri ástæða fyrir launþegana að taka vel á móti. Slíkar árásir koma ekki frá atvinnurekendastéttinni almennt. Íslenzkir atvinnurekendur hafa sýnt það undanfarin ár í viðureign sinni við verkalýðsfélögin, að þeir hafa sjálfir verið til í að taka sanngjarnt tillit til þarfa launþega. Vitanlega eru á meðal atvinnurekenda slíkir ofstækismenn, sem hafa alltaf, frá því að atvinnuleysið hvarf og launakjör voru bætt, hugsað til þess, að fyrr eða síðar kæmi að því, að þeir gætu aftur byrjað árásir á verkamannastéttina. Það e r kunnugt, hvernig einn af helztu ríkismönnum Reykjavíkur stjórnaði atvinnurekendum, sem lengi borguðu verkamönnum sínum sultarlaun. Svo alræmt var það orðið, að sagt var, þegar verkamönnum tókst að fá kauphækkun: „Þeir eru nógu kotrosknir núna. Bíði þeir bara, þar til atvinnuleysið kemur aftur.“ Þá átti að ná sér niðri á þeim. En því var afstýrt með samstarfi verkalýðsins og atvinnurekenda og allra framfaraafla í landinu, að það ástand hæfist strax upp úr styrjöldinni, eins og ýmsir ofstækismenn höfðu gert sér vonir um.

Mér virðist nú ríkisstj. beinlínis gera ráðstafanir til að reyna að skapa atvinnuleysi með því að horfa á það aðgerðarlaust, að atvinnuleysi sé að skapast. Það er ef til vill gert í þeim tilgangi að reyna að skapa sér betri grundvöll til árása á lífskjör almennings. Það má vera, að ríkisstj. reikni svo út, að það sé hægara að svelta verkamenn til undanlátssemi, ef þeir geti ekki farið úr einni atvinnugrein í aðra og þannig varizt kauplækkunartilraunum. En það er þó tæpt fyrir ríkisstj. að treysta á slíkt. Verkalýðshreyfing Íslands og annarra landa hefur ekki alltaf háð baráttu sína undir þeim kringumstæðum, að hún gæti verið örugg um vinnu annars staðar, ef verkfall væri í einni grein. Verkamenn hafa oft háð baráttu þannig, að engin vinna hefur verið, og þeir hafa þurft að neita fjölskyldu sinni um margt til sigurs fyrir stétt sína. Íslenzk verkalýðshreyfing hefur eflzt meira undanfarin ár en mörg þar á undan. Ég vildi segja þetta, til þess að hæstv. ríkisstj. vissi, að hverju hún gengur, ef hún skyldi hafa reiknað skakkt út viðvíkjandi þessu.

Vitanlega er svona árás eins og hér á að framkvæma einhliða árás á tekjur launþega. En henni verður svarað af verkalýðshreyfingunni. Þessum árásum verður svarað af hálfu verkalýðsins, meðan þar er til kraftur og skilningur, einkum þegar það er boðað, að þetta sé aðeins fyrsta árásin, en aðrar muni á eftir koma, ef þessi heppnast.

Það voru áðan lesin mótmæli gegn þessu frv. frá því verkalýðsfélagi, sem bezt laun hefur og er fjárhagslega sterkast, þ. e. frá prentarafélaginu. Það er engin tilviljun, að þetta félag, sem yfirleitt er ekki fyrir það að stofna til átaka, er nú einna fyrst til að mótmæla, eins og þegar gerðardómslögin voru sett. Ennþá einu sinni vildi ég vara þm. við að samþykkja þetta, ef þeim á síðustu stundu mætti verða ljóst, hvað þeir eru í raun og veru að gera. Gerðardómsl. voru sett í janúar 1942, og sú ríkisstj., sem setti þau, varð að fara frá eftir skamma stund, og l. sjálf urðu að engu, og á áttunda mánuðinum afnam Alþ. það ræksni, sem eftir var af þeim. Ýmsir þm. sögðu þá, að þeir hefðu ekki gert sér ljóst, að þeir hefðu reist sér hurðarás um öxl, og sögðust hafa lært, að ekki væri hægt að leysa dýrtíðarvandamálið á kostnað verkalýðsins eingöngu. Nú virðast þeir hafa gleymt þessu, og það er dýrt fyrir þjóðina, að leiðtogar hennar skuli ekki hafa betra minni, og dýrt, að þjóðin skuli þurfa að kenna þeim, hvenær valdi þeirra eru takmörk sett, og það er hart, að ríkisstj. skuli hafa stofnað til þessa.

Ríkisstj. mun ekki láta sitja við það að stofna til deilna út af III. kafla. Hvað eftir annað heyrast hótanir stjórnarliðsins um gengislækkun. Fyrir þessari hótun er enginn grundvöllur, meðan ekki er að fullu rannsakað, hvað við getum fengið fyrir útflutningsafurðir okkar, og gengislækkun væri því hrein glæpamennska gagnvart þjóðinni ofan á það, sem í þessu frv. felst. Ég sagði á fundum í haust, að hægt mundi vera að fá ábyrgðarverð fyrir fiskafurðir okkar. Ef hugmyndir okkar reynast rangar og verðið verður lægra, þá viljum við láta auðmennina fórna, og ef það dygði ekki, þá mundum við koma til alþýðunnar og biðja hana að leggja fram sinn skerf. En áður en sannprófað er, hvaða verð við getum fengið fyrir útflutninginn, og áður en auðmennirnir eru látnir fórna, þá er óheiðarlegt að krefjast fórna af alþýðunni. En sannleikurinn er sá, að ríkisstj. hefur alls ekki fengizt til að sannprófa, hvaða verð væri hægt að fá fyrir útflutningsafurðir okkar. Ríkisstj. hefur meira að segja gert allt til að spilla því, að við fengjum fyrir þær eins hátt verð og hægt er. Þegar hollenzka verzlunarsendinefndin kom, skrifaði hæstv. utanrrh. grein í Morgunblaðið og hélt því fram, að við yrðum að lækka verðið á útflutningsvörunum. En Hollendingarnir vildu kaupa af okkur vörur fyrir meira en ábyrgðarverð, og hæstv. utanrrh. tókst ekki að prútta verðið niður. Þá hindraði ríkisstj. og sölu hraðfrysts fisks til Tékkóslóvakíu, en þar gátum við selt með góðum kjörum.

Hjá ríkisstj. finnst engin viðleitni til að láta þá ríku bera neinar byrðar og engin viðleitni til sparnaðar á opinberu fé. Öll viðleitni hennar beinist að því að lækka kaup alþýðunnar. Það er þó lífsspursmál, að hátt kaupgjald haldist, því að það knýr atvinnurekendur til að beita fullkomnari vinnutækni og vinnuaðferðum og miðar þannig að allsherjar tæknilegum framförum. Þegar ríkisstj. er með hótanir um, að ef þessi herferð hennar gegn alþýðunni í landinu tekst ekki, þá muni hún lækka gengið, þá er það hrein ósvífni gagnvart verkamönnum og sparifjáreigendum. En þessi hótun um gengislækkun er ekki einasta ósvífin og ónauðsynleg. Hún einkennist enn fremur af skammsýni stjórnarliðsins. Ef ríkisstj. tekst ekki að framkvæma þessa árás, ef henni tekst ekki að stela 180–200 kr. af 2000 kr. mánaðarlaunum launþegans, þá tekst henni ekki heldur að framkvæma gengislækkun. Hvernig býst hún frekar við að hafa vald til að framkvæma launalækkun með því að feila krónuna? Þessi orð og hótanir um gengislækkun eru mælt í reiði og ofstæki, án þess að reiknað sé með mótstöðukrafti þjóðarinnar. Það verður aldrei ráðin bót á dýrtíðinni eingöngu á kostnað verkalýðsins, og það verður aldrei gert nema í samráði við verkalýðinn. Allar tilraunir til þess að leysa dýrtíðarmálin út frá eiginhagsmunasjónarmiði hinna ríku hafa til þessa mistekizt. Hér við 7. umr. um þetta frv. vildi ég enn freista þess að fá hæstv. ríkisstj. og stuðningsmenn hennar til að sjá að sér og fá þá til að sjá og skilja, að hér eru þeir ekki aðeins að gera stórfellda árás á alþýðu landsins, heldur eru þeir einnig að fremja pólitíska skyssu. Vita hv. þm. ekki, hvað það þýðir fyrir mann, sem hefur 2000 kr. laun á mánuði, að missa 200 kr. af þeim? Vísitölulækkunin, sem þessari kaupskerðingu veldur, orkar og engu til þess, að sjávarútvegurinn fari af stað. Ég flyt því brtt. þess efnis, að III. kafli falli niður, þ.e.a.s. vísitölubindingin. Ég mælist til þess við hv. þm., að þeir athugi nú, hvort ekki sé skynsamlegra upp á framtíðina að gera slíkt. Þeir, sem settu gerðardómslögin, sáu alltaf eftir því verki. Og nú eru fram undan einhverjir mestu möguleikar, sem við höfum átt, til að selja útflutningsafurðir okkar háu verði, þannig að vinnustöðvun á komandi ári yrði dýrari en nokkru sinni fyrr, og ef stofna á til vinnudeilna nú, mun það valda þjóðinni tugmilljóna tjóni. Því leyfi ég mér að leggja þessa brtt. fram og bið forseta að æskja afbrigða fyrir hana, með því að hún er bæði skrifleg og of seint fram komin.