24.02.1948
Efri deild: 68. fundur, 67. löggjafarþing.
Sjá dálk 690 í C-deild Alþingistíðinda. (2957)

155. mál, húsaleiga

Steingrímur Aðalsteinsson:

Herra forseti. Það eru nú búnar að vera langar og — með köflum allheitar umræður um þetta mál, og eins og oft vill verða, þegar kapp kemur í mál, komið allvíða við og stundum alllangt sótt eftir rökum, ef rök skyldi kalla. Ég skal ekki lengja umr. með því að ræða um það, en aðeins segja örfá orð um það, sem ég tel mestu máli skipta um afgreiðslu þess frv., sem hér liggur fyrir.

Mér sýnist, að þegar um er að ræða að afnema húsaleigul., eða eins og hér er ætlazt til, afnema bannið við því að mega afnema húsaleigul., sem er það sama og að afnema húsaleigul., þá sé það tvennt, sem ber að líta á.

1. Hvort og þá að hversu miklu leyti húsaleigul. hafa gefið leigjendum þá vernd, sem ætlazt er til.

2. Hvaða áhrif það mundi hafa á verð húsaleigunnar, ef þau yrðu afnumin.

Þessi atriði hefur bæði borið á góma hér, en um þau eru skiptar skoðanir. Og af þeim þm., sem eru flm. og stuðningsmenn þessa máls, hefur því mjög verið haldið fram, að árangur húsaleigul. sé svo lítill, að ekki sé ástæða til þess, þess vegna, að vera að halda þessum l. við.

Hv. þm. Str. (HermJ) talaði mjög um þetta og vildi halda því fram — í öðru orðinu sagði hann, að 2–3% mundu njóta verndar húsaleigul., en í öðru orðinu 2 af 10. og sagði þá, að fyrst ekki væri vernd fyrir 8 af 10, þá væri ekki ástæða til, að hún væri fyrir 2. En ef um er að ræða 2 af 10, þá mundu það vera 20%.

Það kom fram hjá hv. l. þm. N-M. (PZ), að það mundu vera um 3/5. sem byggju í sama húsnæði. Það væru þá 60%, sem nytu verndar þeirrar, sem til var ætlazt. Þetta sýnir það, að þm. Str. hefur verið langt frá því að nota það, sem mætti kalla rök fyrir sínu máli, þegar hann sagði, að það væru ekki nema 2–3%, sem yrðu aðnjótandi hagsmunanna, en hv. 1. þm. N-M (PZ) segir, að samkv. skýrslum muni það vera um 60%.

Menn hafa viljað halda því fram, að jafnvel þótt skipti hafi orðið í leiguhúsnæði, sé það engin sönnun fyrir því, að leigan hafi hækkað, því að þá hafi þeir leigjendur, sem komu í þá íbúð, átt rétt á að fá húsnæðið metið af húsaleigun., ef leigan var hækkuð meira en góðu hófi gegndi, en ég hygg, að þrátt fyrir það væri það rangt af löggjafarvaldinu að kippa að sér hendinni um vernd til þeirra leigjenda, sem notið hafa þessarar verndar og njóta hennar enn.

Þá kem ég að því, sem er meginatriði þessa máls. Hvaða áhrif hefur það á verð húsaleigu, ef húsaleigul. yrðu afnumin? Því hefur verið haldið fram, að húsaleigan mundi lækka, ef þau yrðu afnumin. Ég skil ekki, hvaða líkur þeir geta talið til þess, að húsaleigan mundi lækka, ef húsaleigul. væru numin úr gildi. Það virðist alveg liggja í augum uppi, að húseigendur reikna alveg með því sjálfir, að húsaleigan mundi hækka og það verulega. Hins vegar halda þeir því fram, að eins og sé, sé talsvert af húsnæði, sem ekki er notað. vegna þess að eigendur þessa húsnæðis hafi verið að fresta því að taka það í notkun, af því að þeir geti ekki sagt því upp, en ef þetta ákvæði væri afnumið, mundi þetta húsnæði verða frjálst til leigu og eftir því, sem þeir halda fram, við lægra verði en í nýju íbúðunum. Ég skal ekki segja um það, hvort og að hve miklu leyti húsnæði er ónotað hér í Reykjavík. Hv. 1. landsk. (SÁÓ) las hér bréf frá húsaleigun., þar sem því er lýst yfir, að það eigi sér ekki stað. En jafnvel þótt svo væri, að húseigendur héldu húsnæðinu ónotuðu og vildu ekki leigja, býst ég ekki við, að það sé af þeirri ástæðu, sem flm. halda fram, heldur af því, að þeir halda þessu húsnæði á svörtum markaði og eru að vona að vegna húsnæðiseklunnar geti þeir fengið að þessu kaupanda fyrir enn hærra verð en þeir eiga kost á að fá í augnablikinu. Og ég held, að hægt sé að slá því föstu, að því meira sem húseigendur gætu losað og því meiri sem eftirspurnin er, þeim mun meira af húsnæði mundi komast á svartan markað og húsnæði almennt hækka, ekki aðeins leiga fyrir íbúðir, þar sem gömul húsaleiga gildir nú, heldur yfirleitt. Um þetta eru skiptar skoðanir. Ég get sagt þetta, og flm. geta fullyrt hitt.

En ég gæti bent á annað í þessu sambandi, sem gefur bendingu um, hvernig færi, ef þetta yrði samþ. og verð húsaleigu færi eftir eftirspurn á frjálsum markaði, og það er, ef athugað er, hverjir það eru, sem fyrst og fremst berjast fyrir að fá þessa breyt. Það er fyrst og fremst fasteignaeigendafélagið hér í Reykjavík, sem hefur barizt fyrir þessu um langa hríð, og það er fyrir áhrif þess, sem þetta frv. er flutt hér. Hvers vegna eru það húseigendur, sem hafa áhuga fyrir þessu? Ætli það sé af því, að þeir hafi áhuga fyrir, að húsaleiga lækki? Hvort ætli þeir hafi áhuga fyrir því, að húsaleiga hækki eða lækki? Mér finnst liggja í hlutarins eðli, að þeir hafi meiri áhuga fyrir, að hún hækki en að hún lækki, og áhugi þeirra stafi fyrst og fremst af því, að þeir reikna með því, að húsaleigan muni hækka, en ekki lækka. Ég býst líka við, að áhugi stuðningsmanna þessara manna sé af nokkurn veginn sömu rót runninn og að þeim sé það ljóst, að húsaleiga muni hækka, en ekki lækka, og það er það, sem mestu máli skiptir í þessu sambandi. Það er ekki hægt að áfellast þá menn, sem hér eiga hagsmuna að gæta, því að það er ekki nema mannlegt, að þeir sæki á í þessu efni.

Hins vegar liggur það í hlutarins eðli, að þeir, sem vilja spyrna fæti við því, að húsaleiga hækki, þeir verða að gera það — og það jafnvel þótt hægt sé, að finna einstaka dæmi, þar sem hægt er að segja, að húseigendur hafi orðið hart úti. Þeir, sem vilja spyrna á móti, verða að vinna gegn því, að þessi l. séu tekin burtu. Meðal þeirra er ég, Þess vegna greiði ég hiklaust atkvæði gegn því frv., sem hér liggur fyrir.