24.02.1948
Efri deild: 68. fundur, 67. löggjafarþing.
Sjá dálk 698 í C-deild Alþingistíðinda. (2961)

155. mál, húsaleiga

Brynjólfur Bjarnason:

Herra forseti. Ég gat ekki verið við allar umr., en vildi aðeins gera smávegis aths. við ræður hv. flm. við umr. í dag. Hv. síðasti ræðumaður heldur því fram. að húsnæði sé rýmra en það var. Ja, síðan hvenær? Í minni fyrri ræðu sýndi ég fram á, að það er fjarstæða. að húsnæði sé rýmra en árið 1939, og sést þetta, ef athugað er, hve margir bjuggu þá í ólöglegu húsnæði. Þá var og nokkurt framboð á húsnæði vegna þess, að margir höfðu ekki efni á að búa í mannsæmandi íbúðum. Hv. 1. þm. N-M. segist ekki byggja á umsögn annarra, en eftir því, sem mér skilst, á eigin athugun. Það mun nú vera erfitt að komast af án athugana annarra, enda er það augljóst, að það, sem hv. 1. þm. N-M. byggir fyrst og fremst á, er skýrsla fasteignaeigendafélaga Reykjavíkur, og þaðan hefur hann til dæmis það, að 2/5 leigusamninganna séu síðan fyrir stríð. Þetta er aðeins úrtak, sem lítið er á að byggja, enda skiptir þessi tala ekki öllu máli, því að frv. hefur ekki aðeins áhrif á það húsnæði, heldur allt húsnæði í bænum, því að ef frv. verður samþ., þá losnar allt húsnæði og verður leigt út á svörtum markaði. Hv. 1. þm. N-M. segist vilja gera þessar breyt. á húsaleigul. vegna þess ósamkomulags, sem sé algengt milli leigjenda og húseigenda. En með frv. er ósamkomulagið leyst þannig, að allur rétturinn er gefinn öðrum aðilanum, þ. e. húseigendum. Hv. þm. taldi lausnina til góðs fyrir báða aðila, því að báðum væri ósamlyndið til ama, sem hann taldi vera svo stórkostlegt í sumum tilfellum, að salernum hefði verið lokað fyrir leigjendum. Það er skárri lausnin á þessu fyrir leigjandann, ef samþykkja á l., sem leyfa húseiganda að reka hann út. Ef leigjandinn þoldi ekki ósamlyndið, þá bannaði enginn honum að fara. Þá heldur hv. þm. því fram, að mikið húsnæði sé ónotað í bænum vegna l. Þessu er mótmælt af húsaleigun., en þá kemur hv. þm. með Vísi og segir, að þar séu 5 auglýsingar um laust húsnæði. Stendur það í Vísi, að þessum íbúðum hafi verið haldið auðum? Veit ekki hv. þm., að það eru byggð ný hús og gamalt húsnæði losnar?

Þá kem ég að ræðu hv. þm. Barð. Hann minntist nokkuð á mína fyrri ræðu og vildi ekki fallast á, að verðlagseftirlit geti ekki komið að gagni varðandi húsaleigu eins og annað, sem selt er og keypt. Með öðrum orðum, ef frv. yrði samþ., þá væri ekki ástæða til, að húsaleiga hækkaði, því að í l. er ákvæði, sem bannar að hækka leiguna, og mundi verðlagseftirlit tryggja þau lagafyrirmæli? Hv. þm. er kunnugt, að þrátt fyrir verðlagseftirlit eru ýmsar vörur seldar á svörtum markaði vegna vaxandi vöruþurrðar, og gildir þetta alveg sérstaklega um húsaleigu. Allt húsnæði að heita má, sem ekki er bundið með uppsagnarákvæðum húsaleigul., er selt á svörtum markaði, og ef þau eru afnumin,mundi þetta ekki aðeins gilda um það húsnæði, sem nú er selt á svörtum markaði, heldur allt húsnæði í bænum. Þetta þýðir, að ef frv. verður samþ., þá verður praktiskt talað allt húsnæði selt á svörtum markaði, og ræður verðlagseftirlit þar ekkert við. Þetta vita hv. flm. ofur vel, og er þetta raunar viðurkennt af flestum. Hv. þm. sagðist ekki skilja dæmið, sem ég tók um hækkun leigunnar í nýjum húsum, ef frv. yrði samþ. Það tíðkast, sem kunnugt er, að menn þurfa að borga sérstaka upphæð utan leigunnar til þess að komast inn í húsnæðið. Ef frv. yrði samþ. og húseigendur gætu losað húsnæðið, gæti húseigandinn tekið aftur t. d. 15 þús. kr., sem ég nefndi sem dæmi, af leigjandanum til þess að hann fengi að halda húsnæðinu. Ef menn hafa notað sér vandræðin einu sinni, hvers vegna skyldu þeir þá ekki geta notað sér þau aftur, ef tækifæri byðist? Hv. þm. Barð. hélt því fram, að mikið húsnæði mundi losna, ef frv. yrði samþ. Þetta er að vissu leyti rétt, því að ef frv. verður samþ., þá losnar allt húsnæði í bænum. Öllum leigusamningum yrði sagt upp og nýtt fólk kæmi í íbúðirnar, sem leigðar yrðu miklu dýrar en áður, og þar sem ekki kæmi nýtt fólk, yrðu leigusamningarnir endurnýjaðir og leigan hækkuð. Hv. þm. Barð. taldi nauðsyn á því að laga ýmsar misfellur á framkvæmd húsaleigul. Ég vildi gjarnan eiga þátt í því, — en hvernig er það hægt? Og skilyrði fyrir minni þátttöku er vissulega það, að þær lagfæringar verði ekki til þess að eyðileggja 1., til þess, að barnafjölskyldur verði settar út á götuna, og til þess. að allt húsnæði komist á svartan markað og stórhækki í verði.