08.03.1948
Efri deild: 76. fundur, 67. löggjafarþing.
Sjá dálk 700 í C-deild Alþingistíðinda. (2966)

155. mál, húsaleiga

Forseti (BSt) :

Ég hef satt að segja ekki svo gott minni, að ég geti nákvæmlega munað, hvernig mér hafa fallið orð fyrir mörgum dögum. En ég get gjarnan sagt hv. þm. Barð., hvað ég átti við með þessum ummælum. Ég skildi það svo, og ég held, að allir hv. þm. hafi skilið það þannig, að hv. 1. landsk. ætti við hv. þm. Barð. Ég heyri það þarna, að skrifarar hafa ekki haft þau rétt eftir mér, og ég hygg, að ég hafi komizt nokkuð á annan veg að orði en þarna er haft eftir mér. Ég sagði ekki — og mér finnst það ekki liggja í þessum orðum —, að hv. þm. Barð. hefði haft nein ærumeiðandi orð um hv. 1. landsk. En hitt er aftur jafnvíst, að hann blandaði einkamáli hans og einkalífi dálítið inn í ræðu sína og taldi, að hv. 1. landsk. hefði vissa afstöðu til málsins í eiginhagsmunaskyni. Þegar þar var komið, þá fór hv. 1. landsk. að grípa fram í, og þessir tveir hv. þm. fóru að munnhöggvast þannig orði til orðs, sem ekki á að vera á þingfundum, eins og menn vita. Þá hringdi ég og það allrækilega, eins og þarna er haft eftir mér. Það er satt, að ég hringdi allrækilega, sem ég veit, að hv. þm. Barð. mun kannast við og muna eftir. Með öðrum orðum, niðurstaðan er þetta: Ég sem forseti hringdi ekki út af ærumeiðandi orðum, sem ég teldi, að hv. þm. Barð. hefði haft um hv. 1. landsk., en ég tel, að hann hafi haft óviðeigandi orð um hann. En þeir báðir, þessir hv. þm., urðu með samtölum sínum og allháværum deilum þess valdandi, að ég hlaut að hringja og fá þær umr. þaggaðar niður.