08.03.1948
Efri deild: 76. fundur, 67. löggjafarþing.
Sjá dálk 701 í C-deild Alþingistíðinda. (2968)

155. mál, húsaleiga

Gísli Jónsson:

Herra forseti. Ég vil fyrst leyfa mér að þakka hæstv. forseta fyrir, að hann hefur nú skorið úr um það, að ég hafi ekki haft í frammi hér ærumeiðandi ummæli. Öll þau ummæli, sem ég hef haft hér, eru skráð hér, og ég get ekki fundið, að í þeim ummælum sé neitt óviðeigandi. Þau eru ekki dregin út úr samhengi við það, sem á undan er gengið. Hér eru sett fram í spurnarformi nokkur atriði að gefnu tilefni frá hv. 1. landsk. Ég hafði litið svo á, að hæstv. forseti hefði hringt af því, að gripið var mjög óþinglega fram í fyrir mér, sem var að ræða málið, en ekki af því, að ég hefði haft óþingleg ummæli í frammi. Ræðan mun sýna, að hæstv. forseti hefur ekki haft ástæðu til þess að hringja í því sambandi nema vegna þess, að hv. 1. landsk. hafði algerlega óþinglega aðferð hér í frammi í hv. d.