05.03.1948
Efri deild: 75. fundur, 67. löggjafarþing.
Sjá dálk 708 í C-deild Alþingistíðinda. (2985)

167. mál, skipaafgreiðsla í Vestmannaeyjum

Flm. (Brynjólfur Bjarnason):

Herra forseti. Frv. það, sem hér liggur fyrir, er flutt samkv. ósk bæjarstjórnarinnar í Vestmannaeyjum. Samþ. var með miklum meiri hluta í bæjarstjórninni að senda ósk til Alþingis um það, að það afgreiddi lög um þetta efni, og voru menn úr öllum flokkum sammála um það. Þetta gerðist árið 1945, eins og sjá má á þskj. 382. Síðan hafa farið fram athuganir á framkvæmd málsins, og nú hefur bæjarstjórnin óskað, að það yrði flutt hér á Alþingi. Ég hygg, að ég þurfi ekki að fara um þetta mörgum orðum, því að í grg., sem er stutt, en einföld, felast flest þau rök, sem fram hafa komið í málinu. Það er lagt til, að bæjarfélagið nýti þennan tekjustofn í stað einstaklinga, og virðist það í fyllsta máta eðlilegt, því að það er með Vestmannaeyjar eins og önnur smá bæjarfélög, að þeim veitist erfitt að afla sér nægilegra tekna til nauðsynlegra framkvæmda og útgjalda, og fjárskortur hefur löngum verið tilfinnanlegur þar sem víða annars staðar. — Hið fátæka bæjarfélag hefur ráðizt í mjög fjárfrekar framkvæmdir. Það hefur keypt tvo togara, lagt í rafveitu, gagnfræðaskólabyggingu o. s. frv., og enn er aðkallandi þörf fyrir fleiri framkvæmdir, þó að þetta sé í raun og veru ærið. Það er því nauðsynlegt að nýta alla tekjustofna sem bezt og þá einnig þennan, sem hér er um að ræða.

Ég leyfi mér því að vænta þess, að Alþ. ljái máli þessu stuðning sinn, og legg til, að því verði að umr. lokinni vísað til hv. allshn. og hraðað þar sem mest, til þess að það geti fengið fulla afgreiðslu á þessu þingi.