26.11.1947
Sameinað þing: 25. fundur, 67. löggjafarþing.
Sjá dálk 5 í D-deild Alþingistíðinda. (3002)

77. mál, Slippfélagið í Reykjavík

Finnur Jónsson:

Herra forseti. Það er mjög nauðsynlegt, að hér komist á fót fyrirtæki, sem getur tekið á land hina nýju togara, því að vissulega mundi það geta haft alvarlegt tjón í för með sér, ef togararnir þyrftu að fara til útlanda til þess að fá viðgerð, ef eitthvað kemur fyrir. Ég get þess vegna eftir atvikum lýst fylgi mínu við þetta mál. Ég vil þó jafnframt benda á, að þegar nú Alþ. á þennan hátt tekur að sér að uppfylla þau loforð, sem nýbyggingarráð hafði gefið þessu fyrirtæki, þá verður sennilega varla komizt hjá því að uppfylla önnur loforð, sem nýbyggingarráð hefur gefið öðrum fyrirtækjum um lán úr stofnlánadeildinni, sem þegar er þurrausin og meira en það.

Það mun vera svo ástatt, að nýbyggingarráð hefur lofað allmiklu meira en til var nokkurn tíma í stofnlánadeildinni, og annaðhvort hljóta að koma fram kröfur um það, að hv. Alþ. lagi það fyrir stofnlánadeildinni, að hún geti fullnægt þessum loforðum nýbyggingarráðs, eða að Alþ. verði að sjá fyrir því á annan hátt.

Ég vildi aðeins taka þetta fram jafnhliða því, að ég lýsi því yfir, að ég fylgi þessu máli, eins og það liggur hér fyrir.