26.11.1947
Sameinað þing: 25. fundur, 67. löggjafarþing.
Sjá dálk 5 í D-deild Alþingistíðinda. (3004)

77. mál, Slippfélagið í Reykjavík

Pétur Magnússon:

Herra forseti. Ég vildi aðeins leyfa mér að þakka hv. fjvn. fyrir fljóta afgreiðslu á þessu máli og fyrir þann skilning, sem hún hefur sýnt því nauðsynlega vandamáli, sem þarna er um að ræða.

Út af aths. í nál. vil ég taka það fram, að það hefur aldrei komið til orða annað en að taka lánið innanlands, og það er óhætt að fullyrða, að ekki mun verða gerð tilraun til þess að selja hlutabréf erlendis, fyrr en útséð er um, að ekki er hægt að fá markað fyrir þau innanlands.

Út af tryggingunum vil ég aðeins geta þess, að svo vel er frá þeim gengið, þar sem gert er ráð fyrir, að ríkissjóður fái sömu tryggingu fyrir ábyrgðinni eins og landsbankinn fyrir bráðabirgðaláninu, sem hann veitti. Það er gert ráð fyrir, að það lán greiðist upp með skuldabréfum, og þá mundi sá veðréttur verða laus, sem landsbankinn hefur fengið, sem er mannvirkið nýja, sem þarna er áætlað á 5 millj. kr.

Þetta vildi ég, að kæmi hér fram, en að öðru leyti hef ég engar aths. að gera í þessu máli.