20.12.1947
Sameinað þing: 33. fundur, 67. löggjafarþing.
Sjá dálk 10 í D-deild Alþingistíðinda. (3014)

124. mál, frestun á fundum Alþingis

Einar Olgeirsson:

Herra forseti. Ég ætla fyrst að taka smærri atriðin af þeim, sem hæstv. forsrh. talaði um. Hann talaði um, að þm. utan af landi hefðu sérstaklega látið í ljós þá ósk, að þeir gætu haft nokkurn tíma heima hjá sér. Ég fæ ekki betur séð heldur en að þeir gætu haft það, þó að þingfundir hæfust ekki strax upp úr nýári. Ég fæ ekki betur skilið en að samkvæmt stjskr. og þingsköpum sé algerlega heimilt að hafa samkomulag um það milli flokkanna og þingforseta, að þingfundir séu ekki haldnir um nokkurn tíma eða nokkra daga, það þýðir ekki formlega þingfrestun, það þýðir, að þingfundir eru ekki haldnir og að fyrir fram er samkomulag um það. Þannig er sú röksemd, að einstakir þm. utan af landi hafi sérstaklega óskað eftir því að geta verið eina, viku eða svo eftir þrettándann heima hjá sér, engin rök fyrir því að láta fara fram eftir stjskr. þingfrestun, því að það er hægt að ákveða með samkomulagi milli flokkanna og forseta þingsins, að þingfundir séu ekki haldnir, en þingið sitji samt sem áður.

Í öðru lagi vil ég segja þetta viðvíkjandi þm. og starfsfólki þingsins: Ég vil mjög efast um það, að það sé heimilt fyrir þfkn. og forseta, þó að þeir vildu, að ákveða starfsfólki og þm. laun yfir þann tíma, sem þing alls ekki situr, ég held, að það sé fordæmalaust. Hitt get ég vel skilið, að hverjum manni finnist það ósanngjarnt að senda bæði þm. og starfsfólk þingsins allt í einu burt og láta það vera kauplaust yfir jólin og einhvern tíma lengur, þegar aðrir atvinnurekendur láta sína föstu starfsmenn fá jólafrí með fullu kaupi, en þm. hafa sama kaup og bílstjórar hjá Mjólkursamsölunni, sem hafa frí jóladagana. Ég held þess vegna, að þetta spursmál viðvíkjandi þm. og starfsfólki þingsins það sé þar um að ræða, að ekki sé hægt að láta þessa aðila hafa þetta kaup, nema því aðeins að þingið að forminu til sé starfandi þennan tíma, en aðeins að fundir séu ekki haldnir. Þetta mundi líka verða erfitt hvað fjvn. snertir. Hins vegar heyrði ég það á hv. 3. landsk., að hann lýsti því yfir, að hann hefði átt tal við forsrh. og forsrh. hefði litið svo á, að þm. og starfsfólk ættu að hafa kaup þennan tíma. Það sýnir sem sé, að það er ekki sparnaðarráðstöfun, sem veldur því, að ríkisstj. vill gjarnan senda þingið heim. Þá er það sem sé aðeins einn hlutur, sem þarna gengur ríkisstj. til, enda kom það fram hjá hæstv. forsrh., og það er að tryggja ríkisstj. rétt til að gefa út brbl., og það álít ég líka aðalatriðið í þessu máli.

Nú er það svo, að þau brbl., sem ríkisstj. gaf út seinast, eru ekki öll afgreidd ennþá frá þessu þingi og þau aðallög, sem þingið bíður eftir í 2½ mánuð, þeim hefur ríkisstj. og þingið breytt þó nokkuð. Hvað er það þá, sem ríkisstj. sérstaklega er að hugsa um, þegar hún, hvað sem það kostar, vill tryggja sér vald til þess að geta gefið út brbl.? Því var lýst yfir hér í umr. um dýrtíðarmálið, að svo framarlega sem þjóðin, þ. e. a. s. sá hluti hennar, sem byrðar eru lagðar á, tæki þessu ekki vel, þá mundi annað verra á eftir fara. Það mundi verða jafnvel gengislækkun, og þetta væri aðeins fyrsta sporið af fleiri — aðeins byrjunin á því, sem verða skyldi. Nú kann að vera, að ríkisstj., þó að hún hafi fengið þingið til að samþykkja þessi l. með nokkrum breyt., mundi ef til vill ekki treysta sér á þann hátt til þess að leggja fyrir þingið slík l. og kysi þess vegna heldur að hafa vald til að gefa út brbl., og er þá ekki hægt að segja, hvernig slíkt yrði notað, enda kom það fram hjá hæstv. forsrh., að hann dró á engan hátt úr því, að það væri hans hugsun, að ef til vill yrði þetta hlé þannig notað, en færði hins vegar fram þau rök, að það væri ólíklegt, að ríkisstj. gæfi út brbl., sem ekki hefðu stuðning þingsins á eftir. En komið hefur það nú fyrir, að ríkisstj. hefur gefið út brbl., þó að mjög skammt væri til þings og þó svo mikið gengi á í sambandi við útgáfu brbl., að einn ráðh. færi úr stj. og Alþ. á eftir tæki mjög dauflega í þau l., enda sýndi það sig, að l. náðu aldrei fullu gildi. Þetta voru brbl. 8, jan. 1942, sem fjölluðu um gerðardóminn. Það er þess vegna ekki einu sinni trygging fyrir því, að slík ríkisstj. noti ekki vald sitt til að gefa út brbl., jafnvel þó að þing komi saman skömmu síðar og innan ríkisstj. væri mjög mikill ágreiningur um l. Ég álít þess vegna, að það sé ekki rétt af Alþ. að samþykkja þessa till. til þál. Hins vegar mundi ég mjög vel geta skilið þá ósk ríkisstj., að það yrðu ekki haldnir þingfundir nokkurn tíma eftir þrettándann, til þess að henni gæfist betri tími til að sinna sínum málum og láta fjvn. starfa að þeim breyt. á fjárl., sem nauðsynlegar væru. En ég álít mögulegt, að sá starfsfriður fengist með samkomulagi milli þingflokkanna og forseta þingsins, án þess að till. til þál. um frestun á fundum Alþ. samþ.