20.12.1947
Sameinað þing: 33. fundur, 67. löggjafarþing.
Sjá dálk 14 í D-deild Alþingistíðinda. (3019)

124. mál, frestun á fundum Alþingis

Atvmrh. (Bjarni Ásgeirsson) :

Ég ætla ekki að fara að hætta mér út í lagaskýringar við þessa lögfræðinga, en ég vil skýra frá því að gefnu tilefni, að lagabókstafurinn hefur ekki alltaf verið notaður jafnstranglega og hv. 1. þm. N-M. vill vera láta. Ég man eftir því, að ég hef tvisvar verið kallaður að til þess að standa í stjórnarmyndun eftir kosningar. Það voru þm. úr þeim flokkum, sem stjórnina mundu styðja, sem kallaðir voru saman, en þingið var í hvorugt skiptið kallað saman. Hins vegar var í bæði skiptin ákveðið að greiða þeim þm., sem að stjórnarmynduninni stóðu, þingfararkaup þá daga, sem þeir voru hér í bænum til að sinna þessum störfum. Í annað skiptið að minnsta kosti var hv. 1. þm. N-M. einn af þessum þingmönnum og samþykkti þá að beita ákvæðum þessara laga. (SigfS: Eru fleiri þingmenn, sem hafa fengið þetta kaup?).