26.11.1947
Sameinað þing: 25. fundur, 67. löggjafarþing.
Sjá dálk 20 í D-deild Alþingistíðinda. (3042)

44. mál, ljóskastarar í skipum o.fl.

Flm. (Hermann Guðmundsson) :

Herra forseti. Eins og segir í grg. fyrir þessari þáltill., flutti ég á seinasta þingi þáltill., sem gekk í sömu átt og þessi, og var henni þá vísað til nefndar, en kom ekki þaðan aftur. Ástæðan til þess, að ég flutti þessa. þáltill., er sú, að skýrt hefur komið í ljós, að ljóskastarar eru mjög þýðingarmiklir á hverju skipi. Ég hygg, að það megi segja með sanni, að þeir hafa bjargað mörgum mannslífum, þar sem þeir voru í skipum, og með jafnmiklum sanni má segja, að þeir hefðu getað bjargað mörgum mannslífum, hefðu þeir verið þar, sem þeir voru ekki. Auk þessa má það telja víst, að mörgum skakkaföllum mætti afstýra, ef leitarljós væru almennt á skipum. Má þar t. d. nefna, að á vélbátavertíðinni á vetrum hendir það ekki sjaldan í ýmsum veðrum, að veiðarfæri týnast, línur slitna og baujur finnast ekki.

Þá er það svo, að í mörgum tilfellum mundi slíkt finnast aftur, ef leitarljós væru, og mundi þannig afstýra miklu tjóni. Auk þess mundi það tvímælalaust koma í veg fyrir að miklu leyti árekstra, þegar skip koma að bryggju í myrkri og dimmviðri. Á þetta allt benti ég, er ég flutti þáltill. mína á seinasta þingi. Það hafa samt ekki orðið miklar breytingar til úrbóta í þessum efnum af hendi útvegsmanna, en þó er sá áhugi þegar vakinn, að hin nýju togskip flotans eru öll útbúin þessum ljóstækjum. Hins vegar eru ekki ljóskastarar á gömlu togurunum. Rétt er þó að geta þess, áður en málið fer lengra, að eftir að þessi breyting kom fram varðandi þessi öryggistæki, þá hófst eins konar kapphlaup að ná í þau. Það var nokkru eftir að þessi till. kom fram. Útvegsverzlun ein seldi strax tíu ljóskastara og skrifaði strax eftir fleiri tækjum og s. l. föstudag eða fimmtudag veitti viðskiptanefndin innflutnings- og gjaldeyrisleyfi fyrir 50–60 ljóskösturum, eftir að fjöldi manna hafði undirritað áskorun um þetta. Fróðlegt er í þessu sambandi að athuga l. um eftirlit með skipum, en þar vantar bein fyrirmæli um öryggi á þilfari. Í 42. gr. nefndra l. segir svo: „Ráðherra setur með reglugerð sérstök ákvæði um, hvernig útbúnaði undir þilfari og á skuli hagað til öryggis mannslífum og haffæri skipa. Reglugerðin skal samin að fengnum tillögum Alþýðusambands Íslands og Farmanna- og fiskimannasambands Íslands.“ — Þessi gr. gerir því ráð fyrir, að sett verði reglugerð til öryggis mannslífum. Þess vegna kæmi þessi breyting, sem hér er lagt til, á samræmi við þessa gr. gildandi l. um eftirlit með skipum, og sjálfsagt er að hagnýta þær till., sem Alþýðusambandið og Farmanna- og fiskimannasamband Íslands kunna fram að leggja.

Ég sé svo ekki ástæðu til að orðlengja frekar um þetta, en legg til, að umr. um málið verði frestað og því vísað til hv. allshn.