21.01.1948
Sameinað þing: 35. fundur, 67. löggjafarþing.
Sjá dálk 22 í D-deild Alþingistíðinda. (3050)

117. mál, hreinsun Hvalfjarðar

Pétur Ottesen:

Herra forseti. Ég vildi hreyfa því hér, að það er daglegur viðburður í Hvalfirðinum nú, þar sem fjöldamargir bátar eru að síldveiðum, að þeir rifa þar nætur sínar í ýmsum leifum, sem þar liggja frá styrjaldarárunum, og þetta veldur mjög miklu tjóni á veiðarfærum, auk þess sem það dregur mjög verulega úr möguleikum til aflabragða á þessum slóðum. Það er einkum á svæði því, þar sem girðing lá utanvert við Hvalfjarðareyri, og það vill svo til, að aðalsíldveiðistöðvarnar eru utanvert við þessa girðingu, og heldur síldin sig mjög mikið á þessum slóðum.

Nú hefur verið borin fram hér á þingi þáltill. frá hv. þm. Barð. (GJ) að ég ætla — um það, að gerð verði gangskör að þessu með því að láta fara fram hreinsun á botninum þarna eða taka burtu þær leifar, sem þarna eru í botninum. Þessi till. var borin fram um miðjan desember, en hefur ekki komið til umr. enn þá. Það er vitanlega mjög mikið verk að láta hreinsa botninn eins og þörf er á, og eins og nú er komið, verður framkvæmdin varla svo hröð og gagngerð, að hún komi í veg fyrir það tjón, sem af þessu stafar, en það er þó eitt, sem hægt er að gera og væri til varnaðar fyrir veiðimennina, þ. e., ef settar yrðu ljósbaujur á þar, sem girðingin liggur. Þó að veiðimennirnir viti vel, hvar girðingin liggur, og geti varazt hana að deginum til, þá er þeim fyrirmunað í næturmyrkri að gera sér grein fyrir því til hlítar, hvar girðingin hefur verið. Nú hagar svo til um síldveiðarnar, að mest er veitt að næturlagi. Það er því mjög mikil nauðsyn á því, auk þess sem þarf að hreinsa botninn í Hvalfirði, að settar yrðu 2—3 ljósbaujur á þetta svæði, og mundi varna því að næturlagi, að mikið tjón hlytist á veiðarfærum. Ég vildi beina máli mínu til sjútvmrh. og heyra undirtektir hans um það, hvort hann vildi ekki vinna að því, að gerðar yrðu ráðstafanir til þess að lýsa upp þetta svæði, auk þess sem hann mundi beita sér fyrir því, að botninn yrði hreinsaður við fyrsta tækifæri. Ég held, að einnig á öðrum stað sé girðing yfir fjörðinn, nokkru innar, en hún veldur minna tjóni, því að síldveiði er þar lítil. Hins vegar er nauðsynlegt að athuga, hvort ekki eru þar í botninum ýmsar leifar frá styrjaldarárunum, sem ráðstafanir þyrfti að gera til að ná upp, þegar farið væri að vinna að þessu. Mér þætti vænt um að heyra undirtektir hæstv. sjútvmrh. um þær bráðabirgðaaðgerðir, sem ég hef nefnt.