18.02.1948
Sameinað þing: 45. fundur, 67. löggjafarþing.
Sjá dálk 25 í D-deild Alþingistíðinda. (3057)

117. mál, hreinsun Hvalfjarðar

Frsm. (Pétur Ottesen) :

Herra forseti. Eins og greinir í nál. fjvn. á þskj. 343, hefur fjvn. athugað þessa till. á þskj. 191 frá hv. þm. Barð. og fallizt á það, sem fram kemur í henni, sem sé um hreinsun Hvalfjarðar og þá nauðsyn, sem á því er, að að því verki sé gengið. — Eins og segir í nál. fjvn., leggur n. á það megináherzlu, að svo fljótt sem verða má verði þessi hreinsun framkvæmd og að dráttur á því verði ekki lengri en til næsta sumars og að hreinsuninni mætti þá verða að fullu lokið. Einnig er fjvn. sammála því, sem fram kemur í grg. till., að sjálfsagt sé, að ríkisstj. geri kröfu til þess, að þeir aðilar, sem stóðu að hernaðaraðgerðum í Hvalfirði og hafa skilið þar eftir leifar styrjaldarráðstafana á sjávarbotni, framkvæmi þessa hreinsun á sinn kostnað og innan þeirra takmarka, sem n. hefur bent á í nál. sínu, og að því verki verði eigi síðar lokið en á næsta sumri. Fjvn. væntir þess, að hæstv. ríkisstj. gangi ríkt eftir því, að að þessu verki verði gengið og að öll verksummerki frá styrjaldarárunum, sem þarna fyrirfinnast á sjávarbotni og nú hafa orðið þess valdandi, að mikið tjón hefur hlotizt af fyrir fiskimenn, verði tekin upp og flutt á brott. Það er alkunnugt, að á þeirri síldarvertíð, sem nú hefur staðið yfir í nokkra mánuði í Hvalfirði. hafa orðið geysilegar skemmdir á veiðarfærum sökum leifa þeirra styrjaldarráðstafana, sem þarna eru enn á sjávarbotni, og alveg sérstaklega á því svæði, þar sem kafbátagirðing var lögð yfir fjörðinn, því að það hefur viljað svo til í þetta sinn, að síldveiðarnar hafa einna mest farið fram á þessu svæði og hluti girðingarinnar eða meginhluti hennar liggur þarna, eftir á sjávarbotni. — Enn fremur er tekið upp í þessa till. ákvæði um það, að ríkisstj. beiti sér fyrir því við þá erlendu aðila, sem þarna voru að verki, að þeir greiði fiskimönnum þær skaðabætur, sem hlotizt hafa af veiðarfæra- og aflatjóni af þeim sökum, hvernig háttað var viðskilnaði þeirra í firðinum, og fjvn. lítur svo á. að það hnígi sterk rök undir þessar skaðabótakröfur, því samkv. þeim samningi, sem gerður var við þessa erlendu aðila, þegar þeir fengu aðstöðu til hernaðaraðgerða hér á landi, áttu þeir að hreinsa og flytja á brott allar minjar um slíkar aðgerðir. Með tilliti til þessa væntir fjvn. þess, að hæstv. ríkisstj. haldi þarna fast á rétti fiskimanna og landsins í heild, þannig að það tjón, sem af þessu hefur hlotizt, verði samkv. beinni kröfu, sem borin verður fram og rökstudd í þessum efnum, að fullu bætt af þessum sömu aðilum.

Þetta er þá meginefni till. eins og hún nú er orðuð af hálfu fjvn., í fyrsta lagi, að hreinsun á Hvalfirði verði framkvæmd næsta sumar, í öðru lagi, að ríkisstj. beiti sér fyrir því, að þau erlendu ríki, sem hér eiga hlut að máli, framkvæmi hreinsunina á sinn kostnað, og í þriðja lagi, að ríkisstj. sjálf beri fram við þessa sömu aðila kröfu um, að þeir greiði tjón það, sem fiskimenn hafa beðið og kunna að bíða vegna þessa viðskilnaðar í Hvalfirði.

Þess er svo að vænta, að hæstv. ríkisstj. reki þetta mál vel og skörulega af hálfu Alþ. og alþjóðar, eftir að till. þessi hefur hlotið samþykki hér á Alþ.