18.02.1948
Sameinað þing: 45. fundur, 67. löggjafarþing.
Sjá dálk 26 í D-deild Alþingistíðinda. (3058)

117. mál, hreinsun Hvalfjarðar

Páll Zóphóníasson:

Herra forseti. Mér líkar ekki alls kostar þessi till., þótt ég muni líklega greiða henni atkv. Mér er sagt það af fróðum mönnum, að í alþjóðasamþykktum og reglum um hernað sé það ófrávíkjanleg skylda aðila, slíkra sem hér hafa verið að verki í Hvalfirði, að hreinsa algerlega öll verksummerki eftir sig, er styrjöld lýkur, og þess vegna er því ekki þannig varið, að ríkisstj. eigi að beita sér fyrir því við viðkomandi erlenda aðila, að þeir framkvæmi þessa hreinsun, eins og till. fer fram á, heldur ber henni beinlínis að sjá um, að fylgt sé l., er gilda um heim allan, hvað þetta snertir, og eins eiga að gilda hér. Það er hreinasta vanræksla af hálfu ríkisstj. að hafa ekki þegar gengið ríkt eftir þessu við þær hernaðarþjóðir, sem hér voru að verki, og alvarleg vanræksla af þessum hernaðarþjóðum að hafa ekki innt af hendi þessa sjálfsögðu skyldu, sem þeim ber samkv. gildandi alþjóðal. um hernað, að því sem sagt er. — Annars kemur það ekki fram í nál., að n. hafi af sinni hálfu rannsakað, hvort þær sagnir, sem ég hef hér haft eftir öðrum mönnum og sagðar hafa verið af fleiri mönnum, sem telja sig vita nákvæm deili á þessum málum, séu réttar, og ef þetta er rétt, þá finnst mér till. allt of vægt orðuð og eins og ekki sé þorað að segja meiningu sína eða verið að tala við einhvern. sem maður er lafhræddur við. — Ég mun þó fylgja þessari till. og vænti þess, að hæstv. ríkisstj. reynist skeleggari í þessu máli en hún hefur verið, því að hún átti að vera búin að sjá fyrir þessum hlutum fyrir löngu síðan.