18.02.1948
Sameinað þing: 45. fundur, 67. löggjafarþing.
Sjá dálk 26 í D-deild Alþingistíðinda. (3059)

117. mál, hreinsun Hvalfjarðar

Áki Jakobsson:

Herra forseti. Ég flyt hér á þskj. 219 brtt., sem fjallar um það að bæta úr ríkissjóði þeim útvegsmönnum tjón sitt, sem orðið hafa fyrir því að eyðileggja eða glata veiðarfærum eða tækjum skipa sinna vegna rusls, sem setuliðin hafa skilið eftir í Hvalfirði, en eins og hv. frsm. fjvn., þm. Borgf., tók fram, hefur kveðið mjög mikið að því, að útvegsmenn hafi beðið mjög mikið tjón af þessum sökum á yfirstandandi síldarvertíð í Hvalfirði, og er illt til þess að vita, að svo hefur farið. Ég hef leitazt við að taka saman, hverju þetta tjón muni nema, og eftir því sem mér hefur verið sagt, er um að ræða tjón á um 20 nótum. Ef þetta hafa verið nætur í sæmilegu ástandi, hefur hver nót átt að vera 20 til 30 þús. kr. virði, svo að af þessu sést, að hér er um allmikinn skaða að ræða. — Um útvegsmenn er það að segja, að þeir eru þannig staddir fjárhagslega, að það að missa nætur sínar hefur sett þá út úr síldveiðunum í Hvalfirði, af því að þeir hafa ekki getað fengið sér nýjar nætur aftur, og er slíkt ekki einungis þeim, heldur þjóðfélaginu til mikils skaða.

Nú er til í 1. ákvæði um að bæta þeim mönnum upp tjón, sem fyrir því hafa orðið af völdum setuliðs í landinu, og er hér einmitt um slíkt að ræða. Vil ég því — með leyfi hæstv. forseta — benda hv. þm. á, að í l. nr. 99 frá 16. des. 1943 eru sérstök fyrirmæli um ábyrgð ríkissjóðs á tjóni, sem hlýzt af veru herliðs Bandaríkja Norður-Ameríku hér á landi. Þar segir svo í 1. gr.: „Ríkissjóði skal skylt að bæta íslenzkum ríkisborgurum tjón, er þeir hafa beðið eða kunna að bíða vegna aðgerða hernaðaryfirvalda Bandaríkja Norður-Ameríku hér á landi eða af völdum manna úr herliði þeirra.“ Síðan er í 2. gr. ákvæði um það, að hámark hverrar kröfu á hendur ríkissjóði skuli vera samkv. l. kr. 50 þús., en næsta ár var þessu breytt með nýjum l., þannig að þá mátti þetta hámark ekki fara fram úr 100 þús. kr. — Að vísu mun sú kafbátagirðing, sem lögð var yfir Hvalfjörð, hafa verið að einhverju leyti sameiginlegt verk Bandaríkjamanna og Breta, en öll síðari stríðsárin, eða frá því í júlí 1941 og fram til stríðsloka, munu það hafa verið Bandaríkjamenn, sem lögðu þessa girðingu og gerðu hana enn öflugri og þar með miklu skaðlegri fyrir veiðarfæri okkar, þegar þeir sökktu henni.

Eitt af því, sem Bandaríkjamenn tóku að sér, þegar þeir tóku við hervernd landsins, sem kölluð var svo, var að skuldbinda sig til að baka Íslendingum ekkert tjón, og þess vegna áttu þeir eðlilega að fjarlægja þessa girðingu í stað þess að sökkva henni á botn og það án þess að ráðfæra sig við íslenzk stjórnarvöld. Þykist ég vita, að þeir hafa enga heimild haft til slíkra hluta, og hafa þeir með þessu sýnt hina megnustu ófyrirleitni að losa sig undan þessari kvöð með þessu hæga móti. En það má kannske segja sem svo, að það hafi ekki verið fyrr en á allra síðustu tímum, sem menn hafa gert sér ljóst, hversu Hvalfjörður er þýðingarmikil veiðistöð, en engu að síður getur þessi aðili ekki komizt undan ábyrgð á því tiltæki sínu að sökkva kafbátagirðingunni þarna og skilja hana eftir. Hv. fjvn. hefur hins vegar ekki tekið afstöðu til þessarar till. minnar og virðist vilja ganga fram hjá þessu atriði. Vil ég líka taka undir það, sem kom fram hjá hv. 1. þm. N-M., að n. gerir þetta að óverulegu atriði með því að setja aftan við tillgr., að krafizt verði bóta fyrir tjón, sem Íslendingar hafa beðið og kunna að bíða af völdum hernámsaðila vegna þessa viðskilnaðar í Hvalfirði, af því að mér finnst þetta mjög veigamikið atriði og tel annað óhjákvæmilegt en að Alþ. taki afstöðu til þess, hvort þeir útvegsmenn, sem hafa orðið svo ólánssamir að eyðileggja nætur sínar í Hvalfirði, eigi að sitja uppi með þennan skaða óbættan og bíða kannske 3–4 ár eftir því að fá einhverjar bætur greiddar. Vil ég benda á það, að með því að láta slíkt viðgangast, að útvegsmenn sitji uppi með þennan skaða óbættan, er verið að margfalda tjónið, því að margir hverjir þeirra eru þannig staddir, að þeir hafa engin tök á að afla sér nóta í stað þeirra, sem eyðilagzt hafa í Hvalfirði. Hafa sumir þeirra þegar orðið úr leik við síldveiðarnar í Hvalfirði, og er viðbúið, að margir útvegsmenn verði einnig úr leik á sumarsíldveiðunum, nema sérstakar ráðstafanir verði strax gerðar, þannig að útvegsmenn, er þetta tjón hafa beðið, geti hagnýtt sér möguleika, sem á því kunna að verða að útvega sér nýjar nætur, þótt vitað sé, að slíkt er mjög erfitt. Þó má, vel vera, að úr þessu rætist, og mun ríkisstj. hafa sent mann til Bandaríkjanna til þess að athuga möguleika á nótakaupum, og er því mjög nauðsynlegt að koma í veg fyrir, ef úr nótakaupum rætist, að strandi á því, að útvegsmenn hafi ekki fjármagn til að kaupa nýjar nætur, þannig að þeir geti ekki stundað veiðar á næstu síldarvertíð. — Ég vil því auk viðbótartill. minnar á þskj. 219 við upphaflegu till. á þskj. 191 leyfa mér að leggja fram sérstaka viðbótartill. við brtt. hv. fjvn. á þskj. 343, þannig að aftan við tillgr. komi: „og skal ríkisstjórnin bæta fiskimönnum tjón sitt með greiðslum úr ríkissjóði.“ — Á því leikur enginn vafi, að hernámsyfirvöldum viðkomandi ríkja er skylt að bæta tjón þetta. Og er það meiningin, að útvegsmenn eigi enn í langan tíma að bera tjónið og það að verða til þess, að ríkisstj. gangi ekki eins fast eftir að fá þetta greitt hjá hernámsyfirvöldunum, eins og ef ríkissjóður væri búinn að leggja út fyrir tjóni útvegsmanna þeirra, sem það hafa beðið af þessum sökum?