18.02.1948
Sameinað þing: 45. fundur, 67. löggjafarþing.
Sjá dálk 28 í D-deild Alþingistíðinda. (3062)

117. mál, hreinsun Hvalfjarðar

Frsm. (Pétur Ottesen) :

Ég verð að segja það, að ég á erfitt með að átta mig á óánægju þeirri, sem fram hefur komið hér hjá hv. 1. þm. N-M. út af till. þessari. Ég fæ með engu móti annað séð en að hún feli í sér allt það, sem hv. þm. vill, að þar standi. Till. er byggð á því, að hernaðaryfirvöldum viðkomandi ríkja beri skylda til að hreinsa burt á sinn kostnað allt það drasl, sem í firðinum er og valdið hefur tjóni og greiða skaðabætur fyrir það tjón, sem orðið er og kann að verða af þessum sökum. Hvernig er hægt að ganga betur og skeleggar til verks en gert er með till. og þeirri breyt., sem n. vill láta gera á henni?

Nú hlýtur öllum að vera það ljóst, að Alþingi getur engum beitt fyrir sig í þessu öðrum en hæstv. ríkisstj. Það getur ekki sjálft beitt sér fyrir því að fá þessu áorkað, það verður ríkisstj. að gera fyrir hönd Alþingis. Hitt er svo annað mál, hvers er að vænta í máli þessu hjá hæstv. ríkisstj. Efni till. er í upphafi það, eins og mönnum er kunnugt, að ríkisstj. geri nauðsynlegar ráðstafanir til þess, að hernaðaryfirvöld hlutaðeigandi þjóða hreinsi þegar burt allt drasl í Hvalfirði, sem af hernáminu stafar, en á þessari skyldu, sem á þeim hvílir, byggir fjvn. þá till., að þeir séu einnig skaðabótaskyldir, og fjvn. felur ríkisstj. að gangast fyrir því, að þessir aðilar inni þessar skaðabótagreiðslur af hendi. Frá sjónarmiði þeirra, sem líta svo á, að hernaðaryfirvöldum viðkomandi þjóða sé skylt að bæta tjónið, og hv. þm. N-M. var því mjög fylgjandi, þá skil ég ekki, hvað þeir hafa á móti till. Mér er því óskiljanleg óánægja hv. þm. N-M. út af henni. Hann telur kannske, að það vanti í hana einhver skammaryrði í garð hlutaðeigandi aðila, en fjvn. leit svo á, að þau ættu engan veginn við, og verður hv. þm. N-M. að sætta sig við það.

Viðvíkjandi ræðu hv. þm. Siglf. vil ég segja það, að n. gerði ráð fyrir, að efni brtt. þeirrar, sem hv. þm. hefur nú flutt, fælist í till., en að yfirlögðu ráði var orðalag till. haft eins og það er, sem sagt að beina kröfunum strax til réttra aðila, en ekki til ríkisstj., eins og hv. þm. Siglfirðinga vill, — og áleit fjvn., að það væri sterkara að viðhafa þetta orðalag. Hitt er svo annað mál, að ef veiðarfæratjón skipa þeirra, sem veiðar stunda í Hvalfirði, er orðið svo tilfinnanlegt, að skipin þurfi jafnvel að hætta veiðum af þeim sökum, þá gefur það út af fyrir sig tilefni til þess, að grípa þurfi til bráðabirgðaráðstafana og að ríkisstj. þurfi að setja viss ákvæði til úrlausnar þeim vanda, en það mál er allt annars eðlis og verður þá síðar að koma til athugunar. Ég vil því beina því til hv. þm. Siglf., og ég veit, að ég mæli þar fyrir munni nefndarinnar, hvort hann vilji ekki taka brtt. sína aftur. Hv. þm. Siglf. sagði, að hæstv. ríkisstj. yrði linari í sókninni til að fá greitt skaðabótaféð, ef hún hefði ekki greitt útvegsmönnum það úr ríkissjóði. Þetta sjónarmið hans skil ég ekki. Ég veit, að hæstv. ríkisstj. gengur alveg jafnfast eftir fénu, hvort sem hún hefur þegar greitt útvegsmönnum það úr ríkissjóði eða ekki, og ég hefði aldrei komið með slíkar getsakir sem þessar í garð hv. þm. Siglf., ef hann hefði verið ráðherra.

Ég mun svo ekki fara fleiri orðum um þetta að sinni, en vænti þess, að hv. þm. Siglf. taki brtt. sína aftur, en till. verði samþ. og sú leið farin, sem ég hef bent á varðandi báta þá, sem þegar hafa orðið fyrir tilfinnanlegu tjóni.