18.02.1948
Sameinað þing: 45. fundur, 67. löggjafarþing.
Sjá dálk 29 í D-deild Alþingistíðinda. (3063)

117. mál, hreinsun Hvalfjarðar

Gísli Jónsson:

Herra forseti. Ég taldi rétt að láta það koma fram, að till. á þskj. 343 er gerð í samráði við hv. sjútvn., og út af ummælum um orðalag till. vil ég taka það fram, að okkur þótti sjálfsagt að orða hana að siðaðra manna hætti, en hafa ekki í henni nein skammaryrði né slíkt, sérstaklega þar sem hér er um að ræða viðskipti við erlend ríki.

Út af ræðu hv. þm. Siglf. vil ég benda á það, að mikið hefur verið rætt um það í n., að erfitt væri að gera upp á milli, hvað væri raunverulega tjón af drasli því, sem er í botni Hvalfjarðar, og hvað stafaði af einhverju öðru. Það má benda á það, að á hverju sumri verður mikið tjón á veiðarfærum fyrir Norðurlandinu, þar sem engu drasli er þó til að dreifa. Dæmi eru til þess, að útvegsmenn hafa orðið fyrir allt að 60 þús. kr. skaða á veiðarfærum á síldarvertíð norðanlands. — Það er vitað mál, að mikið tjón hefur leitt af þessum óhroða í Hvalfirði, en ekki getur þó talizt réttmætt að kenna því allt tjónið. Menn nota nætur með ákaflega grófa möskva, og þegar svo er, er fremur hætt við, að þær rifni og eyðileggist.

Ég hygg, að beinast liggi við, að útvegsmenn meti tjón það, sem orðið hefur af völdum þessa, og sendi til ríkisstj. skaðabótakröfur þær, sem þeir telja sig réttilega geta gert vegna tjóns á veiði og veiðarfærum. Ég er sammála hv. þm. Borgf. um það að álíta, að hv. þm. Siglf. ætti að taka brtt. sína aftur, þar sem hún á engan hátt er til bóta.