18.02.1948
Sameinað þing: 45. fundur, 67. löggjafarþing.
Sjá dálk 30 í D-deild Alþingistíðinda. (3064)

117. mál, hreinsun Hvalfjarðar

Dómsmrh. (Bjarni Benediktsson) :

Herra forseti. Ég vildi í veikindaforföllum hæstv. sjútvmrh. segja nokkur orð.

Hvað snertir brtt. hv. þm. Siglf., þá hygg ég, að ekki sé hægt að samþ. hana eins og hún liggur fyrir, því að auðsætt er, að ef Alþingi á að ákveða bætur til einstaklinga úr ríkissjóði, þá þarf til þess töluvert meiri undirbúning heldur en er nú fyrir hendi það varðandi. Engar ákveðnar kröfur hafa enn komið frá þeim aðilum, sem hlut eiga hér að máli, en því aðeins, að þær liggi fyrir, getur Alþingi tekið afstöðu til þessa og e. t. v. ráðið að einhverju bót á því með þáltill. þeirri, sem hér er um að ræða. En eins og málum er nú háttað, hefði verið betra, að borið hefði verið fram sérstakt frv. um þetta, því að þingsályktunarformið á hér ekki við. — Ég er sammála hv. þm. Borgf. um. að ekki verði betra að ná fullum réttarbótum til handa hlutaðeigandi aðilum, þó að ríkið hafi áður greitt þær einstaklingum úr ríkissjóði, heldur þvert á móti örðugra. Ég tel því, að ekki komi til mála að samþ. brtt. hv. þm. Siglf. Í þessu máli koma einnig til greina ýmis atriði, sem alls ekki gilda, þegar um einstaklinga er að ræða.