18.02.1948
Sameinað þing: 45. fundur, 67. löggjafarþing.
Sjá dálk 30 í D-deild Alþingistíðinda. (3065)

117. mál, hreinsun Hvalfjarðar

Áki Jakobsson:

Herra forseti. Hæstv. utanrrh. lagði áherzlu á tvennt, sem hann fann till. minni til foráttu. Í fyrsta lagi væri hún of víðtæk, og í öðru lagi mundi hún veikja aðstöðu ríkisstj. til að heimta bætur af hendi erlendra aðila. Við skulum nú athuga, hvernig þetta yrði í framkvæmd. Um fyrra atriðið mundi þá gangur málsins verða á þá leið, að þeir einstaklingar, sem orðið hafa fyrir tjóni, kæmu með skaðabótakröfur sínar og sjópróf yrði að halda til þess að ganga úr skugga um það, að sá skaði hefði orðið af völdum hernaðaraðgerða. Samþykkt till. mundi sem sagt á engan hátt útiloka það, að kröfuaðilar yrðu að færa sönnur á, að tjón þeirra væri af hernaðarvöldum, það segir sig alveg sjálft, að þessar bótakröfur yrðu takmarkaðar við það tjón, sem sannanlega mætti rekja til aðgerða hinna erlendu aðila í Hvalfirði. Hv. þm. Barð. benti á, að skaði á nótum hefði orðið af fleiri orsökum, og hygg ég það rétt vera og að slíkt tjón hafi jafnvel verið enn algengara. En sá stóri munur á slíku tjóni og hinu, sem stafar af aðgerðum setuliðsins, er sá, að í fyrra tilfellinu hafa menn venjulega náð aftur rifrildinu af nótum sínum, en í því síðara tapað þeim nema einhverju lítilsverðu drasli. Sá skaði hefur því orðið með sérstökum hætti, enda aldrei slík brögð að veiðarfæratjóni, þar til merkin voru sett, og er nú mjög tekið fyrir það. Ég sé ekki, að þessi rök standist hjá hæstv. utanrrh., að þetta sé of víðtækt. Það er ætlazt til, að skýrar sannanir liggi fyrir, ef skaðabótakröfur á að taka til greina.

Varðandi annað atriðið, að það veiki aðstöðu okkar, ef ríkisstj. bæti útvegsmönnum skaðann, eins og gert er ráð fyrir í till. minni, vil ég minna á það, að þegar lögin nr. 99 frá 1943 voru sett, var einmitt þetta viðhorf ríkjandi, að ríkisvaldið væri sterkari aðili gagnvart hinum erlendu aðilum en einstaklingar. Rökin til þess viðhorfs hafa ekki breytzt nokkurn skapaðan hlut síðan. Þeir aðilar, sem hér er um að ræða, eru enn fremur þannig á vegi staddir, að þeir mega ekki við fjárhagslegu tjóni og þarfnast þessara bóta mjög bráðlega. Og það er misskilningur að mínu áliti, að við höfum sterkari aðstöðu með því að láta einstaklinga leita skaðabóta af hernámsaðilunum. Ef ríkissjóður leysir inn skaðabótakröfurnar, hlýtur ríkisstj. að skipuleggja ýtarlegar rannsóknir á skaðanum, og krafan út á við yrði þá enn sterkari heldur en nokkur óskalisti einstakra manna.

Ég tel það mikið tjón, að ekki var þegar í haust farið inn á þá braut að bæta útvegsmönnum tjón sitt og hefja rannsóknir á því, þar sem fyrnast hlýtur yfir öll gögn, því lengra sem frá líður. Ef svo á að dragast enn lengur, að rannsókn fari fram, er ég hræddur um, að erfitt reynist að afla gildra sannana og gagna, sem auðvelt væri að fá, ef rannsókn færi fram strax.

Ég vil sérstaklega benda á, að Alþingi hefur þá skipt gersamlega um skoðun síðan 1943, ef það telur nú sterkari leik á borði að láta þá, sem tjón hafa beðið, bíða og fá bætur eftir dúk og disk heldur en að ríkið leysi inn kröfurnar að framkvæmdum ýtarlegum rannsóknum og geri svo kröfur á hendur hernámsaðilunum.

Hv. þm. Borgf. vildi halda því fram, að ég hefði verið með ósæmilegar aðdróttanir á hendur ríkisstj., er ég taldi, að hún hefði meira aðhald um framkvæmdir, ef ríkissjóður væri búinn að greiða tjónið. En það er ekki um neitt slíkt að ræða. Það væri ekki nema mannlegt, að það tryggði röggsamlegri aðgerðir af hennar hálfu, ef hún hefði orðið að borga mikið úr kassanum og yrði að krefja það fé inn aftur. Annars má hv. þm. Borgf. taka þetta eins og honum sýnist. Ég tel þetta hina öruggustu leið í málinu og get því ekki tekið till. mína til baka.