05.11.1947
Sameinað þing: 18. fundur, 67. löggjafarþing.
Sjá dálk 32 í D-deild Alþingistíðinda. (3073)

35. mál, hlutafélög, verzlunarskrár, firmu og prókúruumboð

Flm. (Gylfi Þ. Gíslason) :

Herra forseti. Ég verð að láta í ljós nokkra undrun út af ræðu hv. 7. þm. Reykv. Honum. sem er lögfræðingur, hlýtur að vera ljóst, að umræddum lögum er mjög ábótavant í geysimörgum atriðum, og ef ég ætti að fara að gera grein fyrir hinum ýmsu atriðum hlutafélagalaganna, þyrfti ég að minnsta kosti til þess tveggja tíma ræðu. Mér mundi veitast það mjög létt að halda tveggja tíma ræðu um það, sem er ábótavant um hlutafélagalögin, en sé ekki ástæðu til þess á þessum vettvangi, en get sem dæmi nefnt bæði ákvæðin um stofnun hlutafélaga og slit hlutafélaga, og ýmis atriði eru, sem nákvæmar þarf að taka fram en í lögunum er gert. En ég tel ekki þörf á að útlista þetta nánar fyrir hv. 7. þm. Reykv., sem er lögfræðingur og gæti vafalaust haldið 4 klst. ræðu um málið.

Lögunum um verzlunarskrár og prókúruumboð er einnig stórlega ábótavant og ekki einu sinni framfylgt í öllum atriðum. En ég sá ekki ástæðu til þess að halda fræðilegan fyrirlestur um málið, heldur gerði ég ráð fyrir, að ekki yrði dregið í efa, að endurskoðunar væri þörf, og nefndi til, hve gömul lögin væru orðin og að allar nágrannaþjóðir okkar hefðu breytt sínum lögum um sama efni, með því að ég taldi það skýrari rökstuðning heldur en fræðilega ræðu í tiltölulega flóknu máli.