19.11.1947
Sameinað þing: 23. fundur, 67. löggjafarþing.
Sjá dálk 34 í D-deild Alþingistíðinda. (3082)

36. mál, ferjur á Hornafjörð og Berufjörð

Flm. (Páll Þorsteinsson) :

Herra forseti. Á síðasta Alþ. var flutt till. til þál. samhljóða þeirri, sem nú liggur hér fyrir á þskj. 38. Þeirri þáltill. var vísað til hv. allshn. Sþ., en hlaut ekki afgreiðslu hjá n. og dagaði því uppi á því þingi. Ég hef því leyft mér ásamt hv. 8. landsk. og hv. þm. S-M. að flytja þessa þáltill. hér á þingi í annað sinn. Eins og kunnugt er, klýfur Hornafjarðarfljót Austur-Skaftafellssýslu nálægt miðju. Er það mjög breitt og torfarið vatnsfall og aðstaða þannig, að ekki þarf að gera ráð fyrir, að brýr komi á það, að minnsta kosti á næstu tímum. Verzlunarstaður héraðsins stendur öðrum megin fjarðarins, og lætur þá að líkum, að oft þurfi að fara yfir fljótið og halda uppi mjög tíðum ferðum vegna verzlunarviðskipta og annarra erinda, sem íbúar héraðsins þurfa að reka við verzlunarstaðinn, og vegna annarra sambanda sín á milli. Hér kemur og til greina, að andspænis þorpinu er aðalflugvöllur héraðsins og í raun og veru aðalflugvöllur á Suðurlandi, þegar frá er tekinn flugvöllurinn hér við Reykjavík. Og allir þeir, sem þessar ferðir nota, þurfa að fara yfir fljótið til þess, ef þeir þurfa að hafa samskipti við þorpið sjálft.

Þetta mun nægja til þess að sýna fram á það, hversu mikla nauðsyn beri til þess að hafa þarna góða ferju til staðar, og er því farið fram á það með þessari till. til þál., að ríkisstj., þ. e. a. s. hæstv. samgmrh., láti athuga gaumgæfilega, hvers konar ferja muni henta bezt á þessum stað.

Við Berufjörð í Suður-Múlasýslu eru ástæður nokkuð svipaðar og ég hef lýst við Hornafjarðarfljót. En vegasamband er enn ekki komið umhverfis fjörðinn, en að sumarlagi geta bílar farið alveg héðan úr Reykjavík um þjóðbraut Norður- og Austurlands að Berufirði, svo að segja hindrunarlaust, en þar mætir þeim sú hindrun, sem fjörðurinn sjálfur er. Og ekki mun verða sigrazt á þeirri torfæru á næstunni á annan hátt en að hafa þar nægilega trausta og góða ferju, sem getur flutt bíla yfir fjörðinn, svo að hægt sé að halda ferðinni áfram svo langt sem vegasambandið leyfir að öðru leyti. Þess vegna förum við fram á í þessari þáltill., að það verði enn fremur athugað, hvers konar ferja muni henta bezt á þessum stað, og enn fremur, að áætlun verði gerð um það, hvað slíkar ferjur muni kosta og að slíkar áætlanir liggi fyrir, næst þegar þing kemur saman.

Ég sé ekki ástæðu til þess að fylgja þessu augljósa máli úr hlaði með fleiri orðum, en ég tel eðlilegt, að þessari umr. verði frestað og málinu vísað til hv. allshn. Sþ., sem fékk þáltill. samhljóða þessari til athugunar á síðasta þingi, en skrifaði þá ekki álitsgerð um málið.