19.11.1947
Sameinað þing: 23. fundur, 67. löggjafarþing.
Sjá dálk 42 í D-deild Alþingistíðinda. (3107)

39. mál, gjaldeyrir til námsmanna erlendis

Menntmrh. (Eysteinn Jónsson) :

Síðan fór að harðna um yfirfærslur, hafa verið mikil vandræði með það, hvernig skyldi haga um yfirfærslur til námsmanna erlendis. Þetta er í höndum viðskiptanefndar, eins og kunnugt er, en mér er kunnugt um, að fjárhagsráð ákveður, hvað mikið skuli veitt til þessara hluta, þótt úthlutunin sé í höndum viðskiptan. Eftir að fór að kreppa að, ritaði ráðun. viðskiptan. bréf og spurði um reglur þær, sem farið væri eftir við þessa úthlutun. Ætlunin var að gera sér grein fyrir, hvort hægt mundi að fá betri reglur. Svar við þessu hefur ráðuneytið enn ekki fengið. Enn fremur hefur ráðuneytið átt tal við menntamálaráð út af þessu og ritað menntamálaráði bréf, þar sem farið er fram á, að menntamálaráð úthluti ekki styrkjum nema vitað væri, hve miklum gjaldeyri væri yfir að ráða, hve mikinn gjaldeyri væri hægt að fá í þessu skyni. Ráðuneytið undirstrikaði, að tekin væri upp samvinna milli menntamálaráðs og viðskiptan. um þetta mái. Aðalatriðið er, að vinstri höndin viti, hvað sú hægri gerir í þessu efni. Það þarf að vera vitað, hversu mikið fé íslenzka stjórnin veitir í þessu efni, og svo aftur, hversu mikill gjaldeyrir er fyrir hendi, og aðalatriðið er að vita, hve marga hægt er að kosta sæmilega erlendis og láta ekki fleiri fara en hægt er að sjá sæmilega farborða. Gjaldeyrisyfirvöldin eru nú í hinum mesta vanda með að leysa úr þessu vegna hins mikla fjölda námsmanna, sem ráðið hefur sig erlendis, styrktir með opinberum styrk, en án sannana og nokkurra plagga um það, hvort hægt sé að fá gjaldeyri. Tel ég gott, að þetta kom hér, og vil, að brtt. sé vísað til n., og vildi ég, að n. hefði um þetta fund með form. menntamálaráðs og form. viðskiptan. og mér og reyni að koma heildarskipan á þessi mál og rífa sig úr því ástandi, sem nú er.

Ég sé ekki ástæðu til að ræða meira um þetta og sé ekki ástæðu til að setja í þetta nýja n. Við höfum n. í þessu. Aðalatriðið er að fá n. til að vinna saman og að fá samræmi í það, sem menntamálaráð og viðskiptan. gera. Ég geri ráð fyrir því, ef samvinna yrði góð, að hægt yrði að koma betri skipan á þessi mál framvegis.